Tveir stjórnendur Þjóðminjasafns segja upp störfum Hjörleifur Stefánsson minjastjóri og Guðný Gerður Gunnarsdóttir safnstjóri hafa sagt upp störfum sínum innan Þjóðminjasafnsins.

Tveir stjórnendur Þjóðminjasafns segja upp störfum

Hjörleifur Stefánsson minjastjóri og Guðný Gerður Gunnarsdóttir safnstjóri hafa sagt upp störfum sínum innan Þjóðminjasafnsins. Hjörleifur segist ekki sætta sig við þær aðstæður sem nú ríki innan safnsins eftir að Hrafni Sigurðssyni var vikið úr starfi vegna þessa að safnið fór fram úr fjárveitingum á síðasta ári. Hann segir safnið vera stjórnlítið og að ekki ríki traust á milli yfirstjórnar þess og framkvæmdaráðs annars vegar og þjóðminjaráðs og menntamálaráðherra hinsvegar.

Einn stórhríðardagur kostar um 6 milljónir

Kostnaður vegna snjómoksturs á höfuðborgarsvæðinu þá stórhríðardaga sem komið hafa að undanförnu, nemur um 6 milljónum króna á dag, þegar álagið hefur verið sem mest. Í kjölfar fyrsta óveðurskaflans voru 50-60 snjóruðningstæki í notkun hjá Reykjavíkurborg. Á venjulegum vetrardegi eru ekki nema um það bil sjö tæki í notkun.

Þrír létust og sjö slösuðust alvarlega

Þrír menn létust í einu mannskæðasta umferðarslysi sem orðið hefur hér á landi, þegar rúta með nítján farþegum innanborðs og jeppabifreið skullu saman á Vesturlandsvegi um klukkan 19 á föstudagskvöld. Ellefu farþegar voru fluttir slasaðir á slysadeild Sjúkrahúss Reykjavíkur og um þrír tugir manna voru fluttir á Landspítalann, þar sem veitt var áfallahjálp og gert að minniháttar meiðslum.