Sigurður Helgason og Ingiveig Gunnarsdóttir á skrifstofu sinni hjá ferðaskrifstofunni Landnámu.
Sigurður Helgason og Ingiveig Gunnarsdóttir á skrifstofu sinni hjá ferðaskrifstofunni Landnámu.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ingiveig Gunnarsdóttir hefur víða komið við í ferðamálum. Að loknu stúdentsprófi frá MR árið 1980 lagði hún stund á nám í þýsku og ensku og síðar í hagnýtri fjölmiðlun við Háskóla Íslands.
Ingiveig Gunnarsdóttir hefur víða komið við í ferðamálum. Að loknu stúdentsprófi frá MR árið 1980 lagði hún stund á nám í þýsku og ensku og síðar í hagnýtri fjölmiðlun við Háskóla Íslands. Samhliða háskólanámi starfaði hún hjá Ferðaskrifstofunni Útsýn við fararstjórn og skrifstofustörf. Árið 1990 hélt hún til Bretlands þar sem hún stundaði nám í ferðamálafræðum við háskólann í Surrey. Eftir heimkomuna haustið 1991 nam hún við Leiðsöguskóla Íslands ásamt því að gegna stöðu hótelstjóra hjá Hótel Leifi Eiríkssyni. Hún starfaði sem sölu- og markaðsstjóri hjá Hótel Sögu um skeið. Ingiveig stofnaði ásamt fleirum ráðgjafarfyrirtækið Landnámu árið 1996 og ári síðar Ferðaskrifstofuna Landnámu og þá hafði Sigurður Helgason viðskiptafræðingur bæst í hópinn. Sigurður sér nú um rekstur Landnámu ásamt Ingiveigu. Hann lauk stúdentsprófi frá MK árið 1984. Eftir það starfaði hann sem gjaldkeri hjá Bæjarútgerð Reykjavíkur og fjármálafulltrúi hjá Granda hf. Hann bjó erlendis og ferðaðist um heiminn næstu sjö ár. Hann lauk námi í viðskipta- og markaðsfræði frá Ryerson Polytechnical University í Toronto í Kanada árið 1991. Eftir að hann kom heim starfaði hann sem ráðgjafi hjá Hagvangi frá 1993-1994 og sem sjálfstæður ráðgjafi eftir það.

Ferðaþjónusta er ört vaxandi atvinnugrein í heiminum. Fjölgun ferðamanna hefur kveikt hugmyndir um mikilvægi umhverfisverndar og að verja þurfi fjölfarna ferðamannastaði fyrir ágangi. Áherslur hafa því verið að breytast og svokallaðri vistvænni ferðaþjónustu eða "Eco Tourism" hefur vaxið fiskur um hrygg á allra síðustu árum.

Hér á landi var fyrsta vistvæna ferðaskrifstofan stofnuð fyrir þremur árum þegar Landnámu var komið á fót. Þrátt fyrir að þær raddir heyrðust innan ferðaþjónustunnar að þetta væri bara bóla sem fljótlega myndi springa og að ferðaþjónusta á Íslandi hafi alltaf verið vistvæn og nú væri verið að finna hjólið upp á ný segir Ingiveig Gunnarsdóttir frumkvöðull Landnámu staðreyndirnar tala öðru máli.

Á þessum árum hafa umsvif Landnámu aukist jafnt og þétt. Salan var fremur dræm fyrsta starfsárið enda fyrirtækið nýtt af nálinni og rétt að byrja að kynna sig á markaðnum. Á öðru starfsári var ljóst hvert stefndi en þá hafði salan aukist áttfalt. Í kjölfarið hófst markvisst kynningar- og markaðsstarf og tryggðir voru samningar við fleiri erlenda ferðaheildsala. Stjórnendur höfðu einsett sér að ná núllpunkti í rekstrinum árið 1999 og hefur það gengið eftir. Á fjórða starfsári eru ferðir Landnámu í boði hjá stórum ferðaheildsölum í Þýskalandi, Hollandi, Ítalíu, Bandaríkjunum og á Norðurlöndunum allt árið um kring.

Sérhæfing Landnámu á innanlandsmarkaði felst m.a. í fræðsluferðum þar sem jarðfræði landsins, sögu, bókmenntaarfi, plöntu- og dýraríki og samfélags- og umhverfismálum eru gerð ítarleg skil. Í því skyni hefur verið stofnað til viðskipta við sérhæfðar ferðaskrifstofur er sinna menntastofnunum, náttúruverndarsamtökum, fuglaskoðurum og áhugahópum um náttúrufræði. Þessar sérferðir hafa skilað fyrirtækinu mestum hagnaði en smám saman hefur einnig tekist að festa í sessi dagsferðir og lengri ferðir sem eru í boði með reglulegu millibili allt árið um kring.

Í litlum hópum til framandi landa

Landnáma býður ekki eingöngu upp á innanlandsferðir fyrir útlendinga því frá upphafi var stefnt að því að þjóna Íslendingum í utanlandsferðum þar sem sjónarmið "grænnar" ferðamennsku er í hávegum haft. Þar er m.a. átt við ferðir til framandi heimsálfa í litlum hópum þar sem sérstaklega er höfðað til áhuga ferðamanna á náttúrufari og mannlífi viðkomandi lands. Fyrstu ferðir Landnámu árið 1997 til Costa Rica og Ekvador og Galapagos fengu góðan hljómgrunn þó ekki hafi náðst þátttaka í allar ferðir sem í boði voru það árið.

Árið 1999 kom út ferðabæklingur sem hefur að geyma upplýsingar um ferðir Landnámu þrjú ár fram í tímann. Mun það vera í fyrsta skipti sem það er gert í ferðaþjónustu hér á landi. Þetta var gert með þarfir viðskiptavinanna í huga enda krefjast ferðir til annarra heimsálfa á framandi slóðir lengri undirbúnings og skipulagningar bæði hvað varðar tíma og fjármögnun. Féll bæklingurinn í góðan jarðveg hjá viðskiptavinum Landnámu. Fljótlega eftir að hann kom út seldist önnur ferðin til Ekvador og Galapagos upp en þangað var farið í október síðastliðnum. Einnig var farið til Nepal og Tíbet í mars og til Eystrasaltslandanna í maí.

Næstu utanlandsferðir á vegum Landnámu eru annars vegar páskaferð til Madagaskar- og Máritíus-eyja og hins vegar ferð með Síberíuhraðlestinni til Rússlands, Mongólíu og Kína í lok ágúst. Einnig býður Landnáma upp á náttúruvænar fjölskylduferðir til Minnesota í Bandaríkjunum. Þar er dvalið í fögru umhverfi vatna og skóglendis í sumarhúsum. Tímanum er varið í náttúruskoðun sem samræmist áherslum vistvænnar ferðamennsku.

Á næsta ári er einnig stefnt að tveimur stórum ferðum, annars vegar þriðju ferðinni til Ekvador og Galapagos og hins vegar til Papúa-Nýju Gíneu.

Með ólæknandi ferðabakteríu

Alls eru hluthafar í Landnámu tíu talsins. Auk Sigurðar og Ingiveigar starfa Coletta Bürling og Ragnheiður Erla Bjarnadóttir á skrifstofunni en þær eru í hópi eigenda. En hvað skyldi hafa orðið til þess að stofnuð var vistvæn ferðaskrifstofa?

Ingiveig segist hafa verið haldin ferðabakteríu frá því hún lauk stúdentsprófi og fór til Ítalíu til að vinna á ferðskrifstofu á Lignano. Hún átti gott samstarf við starfsfólk Útsýnar sem hafði skrifstofu við hliðina. Málin þróuðust þannig að hún gerðist leiðsögumaður í nokkrum ferðum á vegum Útsýnar á Ítalíu og síðar í heimsreisum.

"Það var ljóst að ekki varð aftur snúið og að minn starfsvettvangur myndi tengjast ferðamálum. Ég starfaði með Ingólfi Guðbrandssyni í heimsferðunum og það var góður skóli. Hann vildi hafa allt sem sneri að farþegunum fullkomið. Auk þess kynntist ég öllum hliðum ferðaþjónustunnar á meðan ég var hjá Útsýn. Ég fékk gott tækifæri til að ferðast víða á þessum árum, til dæmis til Japan, Filippseyja, Taílands, Malasíu, Borneó og fleiri staða. Þessi reynsla er ómetanleg."

Eftir nokkurn tíma lá leið Ingiveigar aftur í Háskólann þar sem hún ákvað að leggja stund á nám í hagnýtri fjölmiðlun. "Ég hafði unnið lengi undir miklu álagi enda fylgir starfi í ferðaþjónustu talsverð streita. Eins langaði mig að vita hvort lífið byði upp á eitthvað annað áhugavert en ferðamennsku. Þetta nám hefur nýst mér ágætlega en ferðamálin toguðu í mig og auðvitað endaði ég á því að fara til Bretlands í mastersnám í ferðamálafræðum við háskólann í Surrey."

Að leggjast í grasið og drekka úr læk

Það var einmitt í Bretlandi sem áhuginn á vistvænni ferðamennsku kviknaði. "Þetta var mjög gott og skemmtilegt nám. Þarna opnuðust augu mín fyrir því sem var að gerast í ferðamálum á alþjóðlegum vettvangi og ég valdi að skrifa um vistvæna ferðamennsku í lokaritgerð minni. Eftir því sem ég sökkti mér meira niður í efnið fannst mér það verða áhugaverðara.

Eftir að ég kom heim hóf ég nám við Leiðsöguskólann. Í kjölfar þess hóf ég störf sem leiðsögumaður á Íslandi. Það var ný reynsla fyrir mig og opnaði mér nýja sýn. Ég upplifði landið með augum gestsins. Það var ákaflega lærdómsríkt og endurminningarnar frá þessum tíma koma stöðugt upp í hugann þegar ég er að útbúa ferðalýsingar. Flestar ferðirnar sem ég leiðsagði voru hringferðir um Ísland þar sem reynt er að komast yfir sem mest á sem skemmstum tíma. Þessar ferðir voru vinsælastar á þeim árum og eru enn hjá ákveðnum hópi ferðamanna. Gallinn var sá að hóparnir voru oft blandaðir sem gerði það að verkum að ferðaþarfirnar voru mjög mismunandi. Sumir vildu vera inni í bíl allan tímann á meðan aðrir vildu heldur njóta náttúrunnar og ganga um."

Ingiveig segist strax hafa séð að hér á landi vantaði fjölbreyttara ferðaframboð og hugsað með sér að gaman væri að stofna ferðaskrifstofu sem gæti breytt þessu ferðamynstri. Möguleiki væri að raða fólki í hópa eftir getu og jafnvel aldri og áhugamálum. Náttúruferðamenn kunna að meta að fá tíma til að njóta náttúrunnar, upplifa hana í nálægð, leggjast í grasið, finna ilminn af gróðrinum og hlusta á hljóð náttúrunnar. "Þetta er það sem er svo sérstakt við landið okkar þó erfitt sé að sannfæra erlenda ferðamenn um að þeim sé óhætt að drekka vatn beint úr lækjum.

Örlagarík ferð um Reykjanes

"Hugmyndin þróaðist smám saman hjá mér. Eftir að ég kom heim úr námi var mikið leitað til mín með að halda erindi og skrifa greinar um vistvæna ferðamennsku og ég fann að áhuginn á þessum málum var að vakna og þörfin fyrir ráðgjöf var til staðar. Landnámu, sem ráðgjafarfyrirtæki, stofnaði ég svo í apríl 1996 ásamt Steinunni Harðardóttur, Fríðu Björgu Eðvarðsdóttur og Guðbjörgu Gunnarsdóttur. Þá sá ég þó ekki fyrir mér að ég myndi stofna ferðaskrifstofu þótt sú hugmynd byggi alltaf undir."

Málin þróuðust þannig að Ingiveig var beðin að halda erindi um vistvæna ferðamennsku fyrir starfsfólk Flugleiða sem starfar bæði hér á landi og erlendis. Hún tók það að sér ásamt Steinunni Harðardóttur og í tengslum við erindið skipulögðu þær vistvæna ferð um Reykjanesið. "Við ákváðum að sýna fólkinu þann hluta Reykjaness sem fáir koma til að sjá svo sem Hvalsnes og Sandgerði. Við nutum aðstoðar heimamanna og í roki og rigningu varð til mjög skemmtileg, fróðleg og eftirminnileg ferð sem var byggð á sögu, menningu, náttúru og mannlífi svæðisins. Við sýndum fram á að hægt væri að nýta svæði sem ekki er hefðbundinn ferðamannastaður. Ferðin mæltist mjög vel fyrir og eftir hana hvöttu Flugleiðamenn mig óspart til að stofna ferðaskrifstofu."

Í tjaldi og trukk í níu mánuði

Fljótlega eftir þetta leituðu þær til Atvinnuráðgjafar Reykjavíkurborgar til að fá ráðgjöf varðandi fyrirtækjarekstur. Þar starfaði þá Sigurður Helgason. Ingiveig segist hafa nefnt við Sigurð að það sem þetta fyrirtæki vantaði væri einhver með viðskiptafræðimenntun. Hún hafi svo spurt hann hvort honum litist ekki vel á að vera sjálfur með. "Við hreinlega stálum honum," segir hún.

"Mér fannst þetta mjög spennandi," segir Sigurður. "Ég er nefnilega þannig að ég vil ekki átta mig á því á efri árum að ég hafi ekki gert það sem mig langaði til. Ég vil ekki sitja uppi með það að hugsa sífellt um hvað ég hefði átt að gera en gerði ekki. Mér finnst betra að stökkva og er alveg óhræddur þótt ekki gangi allt upp."

Sigurður er víðförull maður sjálfur og segir að honum hafi fundist hugmyndafræði Ingiveigar mjög spennandi. "Svo vildi til að ég hafði einmitt skrifað ritgerð um vistvæna ferðamennsku í landafræðiáfanga þegar ég var í námi. Ég skildi hana því vel og var sammála henni. Auðvitað fannst mér þetta líka mjög spennandi atvinnugrein svo ég ákvað að stökkva og byggja þetta upp með þeim."

Ingiveig segir það líka hafa skipt miklu máli að Sigurður hafði ferðast mjög mikið miðað við aldur og þá til framandi landa.

"Ég fór til dæmis í níu mánaða safari-ferð í gegnum Afríku, um Mið-Austurlönd, Íran og endaði í Nepal," segir hann. "Ferðin var farin á vegum breskrar ferðaskrifstofu og við ferðuðumst um í trukk, sváfum í tjöldum eða úti undir beru lofti og sáum sjálf um að kaupa í matinn af innfæddum og elda. Þetta var ákaflega dýrmæt reynsla þar sem ég lærði mikið inn á sjálfan mig og fannst ég verða sjálfstæðari fyrir vikið. Fólk sem fer í slíka ferð er ekki að hugsa um þægindi. Það baðar sig í köldu vatni og verður að þola að verða svolítið skítugt. Þetta var einstakur tími sem ég bý að alla ævi. Ég hugsaði um það á sínum tíma að ferðast um heiminn í nokkur ár. Mér fannst spennandi tilhugsun að ferðast, vinna síðan hluta úr ári og halda svo áfram að ferðast. Hinn möguleikinn var að binda sig, fara í skóla og svo framvegis. Ég valdi þann kostinn enda hafði ég kynnst konunni minni í þessari ferð. Hún er kanadísk og ég elti hana til Kanada þar sem ég stundaði svo nám. Þar komst ég að því að kanadísk náttúra er sennilega sú alfallegasta í heimi. Við gerðum mikið af því að ferðast þar. Einnig fórum við til Costa Rica og fleiri staða á eigin vegum. Við erum bæði með þessa ferðabakteríu en auðvitað ferðumst við minna eftir að börnin komu. Ég viðurkenni líka að eftir því sem árin færast yfir vill maður aðeins meiri þægindi í ferðunum og tekur ekki eins mikla áhættu."

Fjárfest í þekkingu og víðsýni

Óhætt er að segja að þau Ingiveig og Sigurður hafi nánast ferðast um allan heiminn ef þau leggja saman. Sigurður segist þó sennilega hafa ferðast minnst um Evrópu og þótt undarlegt megi virðast hefur Ingiveig ekki enn komið til Noregs og Írlands. En reynslu sína af því að ferðast um framandi lönd segja þau auðvelda sér að velja spennandi ferðastaði erlendis fyrir íslenska viðskiptavini Landnámu.

Þau eru sammála um að margt fólk sé farið að leita að öðruvísi ferðum en lengst af hefur verið boðið upp á. Þetta endurspeglast í verulegri aukningu á framboði sérferða hjá hinum ferðaskrifstofunum. Ferðir Landnámu hafa þó ákveðna sérstöðu, sem felst m.a. í vali á áfangastöðum, stærð hópa og því að ferðirnar eru byggðar upp í anda vistvænnar ferðamennsku. Litið er á slík ferðalög sem eins konar fjárfestingu í þekkingu og víðsýni. Margir vilja nú orðið frekar nota peningana sína til að kynnast framandi menningu, náttúru og dýralífi, en að liggja á baðströnd og sleikja sólina.

Tilbúnir ferðamannastaðir hafa alltaf verið til staðar þar sem heilu ferðamannaþorpin hafa risið utan um raunveruleg þorp þar sem flestallir heimamenn hafa hrökklast af svæðinu vegna ágangs ferðamanna. Ingiveig nefnir að slíkt hafi til dæmis gerst á Penang-eyju í Malasíu. Meðfram endilangri ströndinni voru heillandi fiskimannaþorp þar sem fólkið undi glatt við sitt. Smám saman hrökklaðist það í burtu undan ferðamannastraumnum. Þarna stangast ferðamennskan á við líf heimamanna og þessi saga er alls ekki einsdæmi.

Hún segir hugarfarið vera að breytast. Fólk vilji frekar koma inn í þorp þar sem þrífst eðlilegt mannlíf og heimamenn geta haldið sínu striki en að sjá ekkert annað en aðra ferðamenn á tilbúnum ferðamannastað. Auðvitað verði alltaf til sú tegund ferðamennsku. Það sé óskaplega notalegt að slaka á á baðströnd og láta sig engu varða hvað er að gerast í nánasta umhverfi enda sé óþægilegt að horfast í augu við þá fátækt og eymd sem ríkir á mörgum fjölförnustu ferðamannastöðum í heimi.

Bjartsýni á tímamótum

"Við fengum strax frábærar undirtektir frá erlendu ferðamálafólki og Íslendingum sem vinna að ferðamálum erlendis. Þeim fannst fyrsti bæklingurinn okkar frábærlega unninn og á tungumáli sem þeim fannst með því betra sem þau höfðu séð í íslenskum ferðabæklingi. Það hvatti okkur áfram," segir Ingiveig. Sigurður bætir því við, að Flugleiðir í Bandaríkjunum hafi tekið þeim mjög vel strax í byrjun, enda henti sérhæfð ferðamennska af þessu tagi stórum hópi Bandaríkjamanna. Hin virtu bandarísku umhverfissamtök, Sierra Club, eru nú meðal viðskiptavina Landnámu og koma fyrstu hóparnir frá þeim til Íslands á þessu ári.

"Nú, eftir þriggja ára starf, höfum við upplifað að fá smáhrós frá íslenskum starfsbræðrum okkar," segir Ingiveig. "Gagnrýnisraddirnar komu reyndar fyrst og fremst frá þeim sem ekki vissu út á hvað ferðirnar okkar gengu. Nú hefur meira verið skrifað um þessa hlið ferðaþjónustunnar og sjálf hef ég haldið ótal fyrirlestra um vistvæna ferðamennsku og þekking fólks á málinu er að aukast mikið."

Þau Sigurður og Ingiveig eru sammála um að Landnáma hafi verið ákaflega heppin með samstarfsfólk. Leiðsögumennirnir séu bæði áhugasamir og fróðir og nái vel til fólks.

Þau eru bjartsýn á framtíðina og segja að nú standi Landnáma á ákveðnum tímamótum. Starfsemin hafi aukist það mikið að nú þurfi að fjölga starfsfólki og stækka húsnæðið. Mikil vinna sé nú að skila sér og fyrirtækið að öðlast almennari viðurkenningu. Þau segja að ætlunin hafi aldrei verið að Landnáma yrði hefðbundin ferðaskrifstofa sem byði fjöldaferðir eða ódýrt leiguflug til vinsælla ferðamannastaða. Markmiðið sé að bjóða upp á vandaðar sérferðir til áfangastaða sem Íslendingum hefur ekki áður gefist kostur á að heimsækja. Stefnt sé að því að bjóða upp á a.m.k. einn nýjan áfangastað á hverju ári.

Mikið er lagt í skipulag og undirbúning ferðanna, meðal annars með því að afhenda farþegum vandað upplýsingaefni. Áhersla er lögð á að allt sé innifalið í heildarverði ferðanna; flugferðir, gisting, skoðunarferðir og flestar máltíðir. Þeim Ingiveigu og Sigurði finnst greinilegt, miðað við undirtektir, að margir séu tilbúnir til að greiða hátt verð fyrir góða þjónustu, aukna þekkingu og víðsýni og síðast en ekki síst fyrir að upplifa óvenjuleg náttúrufyrirbrigði.

Sífellt fleira fólk virðist því tilbúið að fara eftir einkunnarorðunum sem prentuð eru aftan á bæklingi Landnámu um ferðir á Íslandi: Skiljið ekkert eftir nema fótspor ykkar. Takið ekkert nema myndir og ógleymanlegar minningar!

Eftir Ásdísi Haraldsdóttur