Fjöldi skólahjúkrunarfræðinga og námsráðgjafa kom á umræðufund Fræðslusamtaka um kynlíf og barneignir þar sem rætt var um neyðargetnaðarvörn.
Fjöldi skólahjúkrunarfræðinga og námsráðgjafa kom á umræðufund Fræðslusamtaka um kynlíf og barneignir þar sem rætt var um neyðargetnaðarvörn.
Þekkingarskortur og fordómar, m.a. hjá fagfólki, valda því að aðgangur að neyðargetnaðarvarnarpillunni er ekki sem skyldi hér á landi, segir varaformaður Fræðslusamtaka um kynlíf og barneignir

Ósk Ingvarsdóttir, kvensjúkdómalæknir og varaformaður Fræðslusamtaka um kynlíf og barneignir, sagði á fræðslu- og umræðufundi samtakanna um neyðargetnaðarvörn, að mikilvægt væri að bæði fagfólk og almenningur yrði upplýstara um neyðargetnaðarvarnarpilluna, sem að hennar mati er nytsamleg og einföld aðferð til að koma í veg fyrir ótímabærar þunganir og fóstureyðingar. Hún sagði algengan misskilning að neyðargetnaðarvarnarpillan, sem seld er hér á landi samkvæmt lyfseðli, væri það sama og svokölluð fóstureyðingarpilla. Svo væri ekki, en neyðargetnaðarvarnarpillan væri hormónapilla sem innihéldi sömu hormóna og hefðbundna getnaðarvarnarpillan og kæmi í veg fyrir frjóvgun, með því að hindra egglos, eða þungun, með því að þynna slímhúð í legi. Hún framkallaði því ekki fóstureyðingu og sagði Ósk að hún hefði ekki fósturskemmandi áhrif, þótt kona tæki hana sem væri barnshafandi án þess að vita af því.

Lyfið á að vera ódýrt og helst ekki lyfseðilsskylt

Neyðargetnaðarvarnarpillurnar eru teknar innan við 72 klukkustundum frá samförum, tvær í senn með tólf klukkustunda millibili. Ósk segir árangurinn mjög góðan, aðeins 2% tilfella mistakist, en vægar aukaverkanir geti fylgt, til dæmis ógleði og brjóstaspenna. Pillan truflaði blæðingar lítið og því væri auðvelt að fylgjast með því hvort hún hefði borið árangur.

Ósk lagði áherslu á að því fyrr sem neyðargetnaðarvarnarpillan væri tekin, því tryggari væri árangur hennar. Þess vegna væri mjög brýnt að bæta aðgengi að henni, en meðal hindrana væru fordómar og þekkingarleysi margra lækna og hjúkrunarfræðinga. Hún sagði viðhorf sumra þeirra að notkun neyðargetnaðarvarnarpillunnar leiddi til meira lauslætis og óábyrgari hegðunar í kynlífi en benti á að rannsóknir hefðu sýnt að svo væri ekki, heldur væru aðrir þættir sem yllu því. Hún telur sérstaklega mikilvægt að læknar geri ungum stúlkum auðvelt að nálgast pilluna og að þeir virði rétt þeirra til að taka ákvörðun um að taka hana, án samráðs við foreldra, sé það vilji þeirra. Hún segir að nýta eigi þessa meðferð í þágu ungs fólks og að læknar eigi ekki að neita ungum stúlkum um þessa meðferð, þungun væri aldrei betri kostur. Lyfið ætti að vera ódýrt og aðgengilegt, helst ekki lyfseðilsskylt og jafnvel ætti að vera að hægt að fá það ókeypis.

Ungt fólk byrjar sífellt fyrr að stunda kynlíf

Sóley S. Bender, lektor í hjúkrunarfræði og formaður Fræðslusamtaka um kynlíf og barneignir, hélt erindi á fræðslufundinum og benti meðal annars á þá staðreynd að um 500 stúlkur á aldrinum 15 til 19 ára yrðu þungaðar á ári hverju. Hún sagði að ungt fólk byrjaði sífellt fyrr að stunda kynlíf, en samkvæmt niðurstöðum rannsóknar frá árinu 1996 er meðalaldur við fyrstu kynmök tæplega 15,5 ár hjá báðum kynjum og hafa 25% 14 ára barna haft kynmök. Sýnt væri að því fyrr sem fólk byrjaði að stunda kynlíf, því fleiri rekkjunauta eignaðist það og því meiri hætta á ótímabærri þungun og kynsjúkdómum. Hún sagði mikilvægan lið í heilbrigðisþjónustu við ungt fólk að veita því aðgang að neyðargetnaðarvörn og hjálpa þeim þannig að sýna ábyrgð þó að það sé ekki fyrr en eftir á.

Unglingar eiga erfitt með að tala um kynlíf við foreldra sína

Sóley segist hafa orðið vör við það í starfi sínu að ungt fólk ætti oft í erfiðleikum með að ræða um kynlíf við foreldra sína. Stúlkur væru gjarnan hræddar um að foreldrar þeirra yrðu reiðir ef þeir kæmust að því að þær væru byrjaðar að stunda kynlíf og þar af leiðandi gætu þær ekki rætt við þá um getnaðarvarnir. Þessu þyrfti að breyta og benti hún á að kynfræðslunámsefni frá Námsgagnastofnun fylgdi sérstakt foreldrahefti og að notkun þess væri gagnleg til að styrkja foreldra í þessum efnum. Hún sagði rannsóknir sýna að þær upplýsingar sem unglingar hefði um kynlíf kæmu frekar frá vinum, úr kvikmyndum og af Netinu en frá foreldrum og skólum og því væri einnig mikilvægt að komið yrði af stað einhverskonar jafningjafræðslu þar sem hópur ungmenna yrði sérstaklega þjálfaður til að fræða jafnaldra sína um þessi mál, því afar mikilvægt væri að réttar upplýsingar kæmust til skila.

14 ára stúlka fái getnaðarvarnarpillu án samráðs við foreldra

Þórhildur Líndal, umboðsmaður barna, hélt erindi á fundinum þar sem hún fjallaði meðal annars um réttindi ósjálfráða stúlkna á aldrinum 14 til 18 ára.

Þó að sjálfræðisaldurinn hafi verið hækkaður í 18 ár árið 1998 segir hún að samkvæmt læknalögum eigi börn 16 ára og eldri sjálfstæðan rétt til að fá upplýsingar hjá lækni um veikindi sín, ástand, meðferð og horfur. Í lögum sé einnig ákvæði þar sem er mælt fyrir um rétt stúlkna 16 ára og eldri til að sækja um fóstureyðingu, án þess að samþykki forsjáraðila liggi fyrir.

Varðandi rétt ungra stúlkna til að fá getnaðarvarnarpillu án samráðs við foreldra sína benti Þórhildur á að í almennum hegningarlögum standi að hver sem hafi samræði eða önnur kynferðismök við barn yngra en 14 ára skuli sæti fangelsi. Hún segist telja að af þessu ákvæði megi draga þá almennu ályktun að hafi barn náð 14 ára aldri ráði það því sjálft hvort það hafi kynmök, enda sé það gert af fúsum og frjálsum vilja.

Þar af leiðandi meti hún það svo að 14 ára stúlka, sem leiti til læknis, eigi að geta fengið ávísun á getnaðarvarnarpilluna og þá einnig neyðargetnaðarvarnarpilluna, án samráðs við foreldra, ef svo ber undir. Auðvitað væri best að hún hefði samráð við foreldra sína en aðstæður byðu hins vegar ekki alltaf upp á það. Þórhildur telur mjög brýnt að læknar og hjúkrunarfræðingar geri sér grein fyrir þessum rétti ungra stúlkna og virði hann. Ljóst sé að það er ábyrgur og upplýstur einstaklingur sem leitar læknis í slíkum tilfellum, sem á rétt á fullum trúnaði hans.