Páll Hermannsson tók þátt í skemmtiakstrinum og festi frúarbílinn lítillega í lausum sandinum. Sem betur fer var heimskautajeppinn ekki langt undan og dró bílinn upp.
Páll Hermannsson tók þátt í skemmtiakstrinum og festi frúarbílinn lítillega í lausum sandinum. Sem betur fer var heimskautajeppinn ekki langt undan og dró bílinn upp.
EIN íslensk fjölskylda býr um þessar mundir í Dubai. Það eru hjónin Páll Hermannsson, forstjóri Al Futtaim Logistics, kona hans, Anna Ólafsdóttir, og dóttirin Helena. Eldri dóttir þeirra, Sonja, er nýlega farin til náms á Íslandi.

EIN íslensk fjölskylda býr um þessar mundir í Dubai. Það eru hjónin Páll Hermannsson, forstjóri Al Futtaim Logistics, kona hans, Anna Ólafsdóttir, og dóttirin Helena. Eldri dóttir þeirra, Sonja, er nýlega farin til náms á Íslandi.

Páll sagði í samtali við Morgunblaðið að undanfarna áratugi hafi yfirleitt alltaf verið einhverjir Íslendingar búsettir í Dubai. Auk fjölskyldu Páls býr þar nú Stefán Tryggvason af íslenskum ættum en hann er uppalinn í Bretlandi. Meðan Bretar önnuðust flugumferðarþjónustu í Dubai voru þar einnig oft íslenskir flugumferðarstjórar.

Stýrir flutninga- fyrirtæki

Páll flutti með fjölskyldu sína til Dubai í október 1994. Áður hafði hann stundað ýmis störf hér á landi, verið til sjós og m.a. stýrimaður á skipum Sambandsins. Þegar Páll hætti til sjós árið 1983 fór hann til Svíþjóðar og lærði flutningahagfræði og vörustjórnun (Logistics) ásamt viðskiptafræði við háskóla í Gautaborg og í Lundi. Með námi vann hann hjá sænsku flutningafyrirtæki. Síðan starfaði hann hjá Samskipum við stjórn flutningamiðstöðvarinnar á Holtabakka í Reykjavík og í Englandi. Þaðan fór Páll til starfa hjá flutningafyrirtækinu Al Futtaim Logistics í Dubai, en það er eitt 38 fyrirtækja Al Futtaim-fyrirtækjakeðjunnar. Al Futtaim er með starfsemi í nokkrum löndum við Persaflóa og er talið hafa skilað þriðja mesta hagnaði allra fyrirtækja á Arabíuskaga, þegar undanskilin eru fyrirtæki í opinberri eigu og bankar.

Al Futtaim Logistics fæst við almenna flutningaþjónustu í lofti, á sjó og landi. Það rekur einnig vöruhús og vöruhótel. Starfsmenn Páls eru 313 talsins og af 18 þjóðernum. Meirihluti starfseminnar er vegna fyrirtækja í Al Futtaim-samsteypunni. "Við flytjum hvað sem er og hvert sem er. Einu sinni rakst ég á vörur sem fóru um vöruhús okkar og voru á leiðinni frá Abu Dhabi til Siglingamálastofnunar í Kópavogi. Heimurinn er lítill," sagði Páll.

Umburðarlyndi og frelsi

"Okkur líður ágætlega vel hér, jafnvel of vel," sagði Páll. "Ég hef aldrei áður verið í jafn skemmtilegri vinnu, þótt ég hafi verið mjög heppinn með vinnu í gegnum tíðina. Dubai er einstakt svæði í heiminum. Ég ferðast mikið um allan heim og hitti marga af mörgum þjóðernum. Það er hvergi annars staðar að finna þann alþjóðlega "kúltúr" sem hér ríkir."

Páll segir að Dubai-menn séu umburðarlyndir og allt frjálslegra en í mörgum múhameðstrúarríkjum. "Fyrst þegar ég kom hér var áfengisskammtur ferðamanna tvær flöskur af sterku og tvær af léttu, en ein af hvoru í Keflavík! Einhvern tímann þegar ég vildi túlka reglurnar þannig að ég mætti kaupa sex flöskur af víni horfðu tollararnir á mig og sögðu: Ah, þyrstur? Þar með var það afgreitt." Öðru máli gegnir með klámfengið efni. Það geta Dubai-menn ekki þolað. Allur farangur sem fer um flugvöllinn er gegnumlýstur og ef myndbandsspóla finnst verður að gera grein fyrir því sem á henni er.

Heimamenn í minnihluta

Dætur Páls og Önnu hafa gengið í einkaskóla þar sem kennt er á ensku, máli sem flestir í Dubai skilja. Páll segir að þetta séu mjög góðir skólar og skólagjöldin eftir því. Í Sameinuðu arabísku furstadæmunum búa þrjár milljónir manna, af þeim er fjórðungurinn, eða um 750.000 innfæddir, að sögn Páls. Fjölmennasta þjóðarbrotið eru Indverjar sem ýmist eiga ensku, malayan eða hindi að móðurmáli. Enskan er viðurkennt viðskiptamál og töluð af flestum, næststærsta málsamfélagið er urdu/hindi og arabíska í þriðja sæti. Helena, yngsta dóttir Páls og Önnu, lærir arabísku í barnaskólanum. Ekki er þó lögð mikil áhersla á þá kennslu. Hún sækir því aukatíma í arabísku í öðrum einkaskóla og er eina barnið í skólanum af evrópsku bergi brotið sem hvorki á arabískan föður eða móður. Í barnaskólanum er ekki mikið gert af því að efla skilning á hinum ólíku menningarheimum sem þarna mætast. Páll segir að nú sé að hefjast fræðsla um múhameðstrú fyrir útlendinga, enda trúin ríkur þáttur í lífi heimamanna.

Olíupeningar breyttu öllu

Þar sem Sameinuðu arabísku furstadæmin eru nú var eitt fátækasta svæði á jörðinni og fámennt þar til farið var að dæla olíu úr jörð fyrir tæpum fjörutíu árum. Flestir íbúanna voru hirðingjar en nokkrir stunduðu akuryrkju í vinjum í eyðimörkinni. Við ströndina voru verslunarmenn og perlukafarar, en sá atvinnuvegur hrundi þegar Japanir fóru að rækta perlur. Fyrsta sjúkrahúsið kom löngu eftir stríð og rafmagnið eftir 1960. Karlar eiga allt upp í fjórar eiginkonur og eru barnmargar fjölskyldur algengar.

Þegar olían fór að streyma fylgdu peningarnir í kjölfarið og mikil uppbygging sem dró marga að.

Páll segir að Dubai skeri sig úr furstadæmunum sjö varðandi hvað það er frjálslynt, en það frjálslyndi megi ekki túlka sem lauslyndi. "Hér er lítið landrými og menn hafa auðgast á viðskiptum. Viðskipti snúast um það að menn verði sammála um kaup og sölu. Þess vegna er erfitt fyrir þá sem fást við viðskipti að ala á miklum fordómum. Menningin í Dubai er frjálslyndari en í öðrum furstadæmum og Sheikh Rashid sem tók við völdum um 1930 og ríkti í hálfa öld var til dæmis viðstaddur kirkjuvígslu hér." Páll segist þó hafa verið varaður við því í fyrstu að láta íslenskan fána, sem hann límdi í afturglugga bíls síns, standa upp á endann. Þannig væri hægt að túlka hann sem kross!

Lítill heimur

En er Páll ekki orðinn leiður á útivistinni? "Nei, heimurinn hefur breyst svo mikið. Um það leyti sem ég var að fara hingað opnaðist Netið. Það heldur manni þokkalega upplýstum að geta lesið dagblöðin á hverjum degi. Öll samskipti hafa breyst svo mikið og heimurinn er orðinn lítill. Svo komum við heim tvisvar á ári, eigum þar börn og hús. Það tekur ekki nema tólf tíma að komast á klakann!"