FIMM norrænir hópar, þar á meðal leiðangur Íslendinganna Haraldar Arnar Ólafssonar og Ingþórs Bjarnasonar, verða á sama tíma á leið á norðurpólinn nú á næstunni og er farið að tala um að á döfinni sé Norðurlandamót í pólferðum.

FIMM norrænir hópar, þar á meðal leiðangur Íslendinganna Haraldar Arnar Ólafssonar og Ingþórs Bjarnasonar, verða á sama tíma á leið á norðurpólinn nú á næstunni og er farið að tala um að á döfinni sé Norðurlandamót í pólferðum.

Allir hóparnir hyggjast ná pólnum án utanaðkomandi aðstoðar og ætlar einn þeirra, tveggja manna norskur leiðangur, meira að segja að fara áfram yfir norðurpólinn frá Síberíu til Ward Hunt Island í Kanada. Hóparnir taka því með sér mat, eldsneyti og allan búnað.

Aðeins fjórir leiðangrar hafa náð á norðurpólinn án þess að fá aðstoð utan frá og sagði Haraldur Örn að reikna mætti með því að ekki næðu allir leiðangrarnir fimm settu marki.

Íslenski leiðangurinn mun leggja upp frá Ward Hunt Island í Kanada og sömuleiðis annar tveggja leiðangra frá Svíþjóð, sem er þriggja manna. Frá Serdna, aflagðri herstöð á Severnaja Zemlja í Síberíu, fara norski leiðangurinn, hinn sænski leiðangurinn, sem einnig er tveggja manna, og Bettina Aller frá Danmörku, sem fer ein síns liðs og hyggst þar með verða fyrsta konan til að ná óstudd á norðurpólinn og einsömul í þokkabót.

Haraldur sagði þegar hann var spurður hvort farið væri að gæta rígs milli hópanna að hann vissi til þess að mikil keppni væri í uppsiglingu milli sænsku leiðangranna.

Norski leiðangurinn lagði í hann 16. febrúar og danska konan og sænski leiðangurinn í Síberíu leggja af stað um mánaðamótin. Íslenski og sænski hópurinn í Kanada gera ráð fyrir að leggja af stað um 10. mars.

Haraldur Örn sagði að fyrr væri lagt af stað frá Síberíu vegna þess að þar væri ísinn mjög þunnur upp við landið. Hins vegar væri betra að geta lagt síðar af stað vegna þess að þá væri dag bæði tekið að lengja meira og ekki eins kalt: "Nú hefur verið milli 40 og 50 stiga frost [á þessum slóðum] og má búast við því í byrjun, en síðan hlýnar þegar á líður, þannig að gera má ráð fyrir milli 30 og 40 stiga frosti og í lokin milli 20 og 30 stigum."

Sama leið og Peary fór 1909

Gert er ráð fyrir að íslenski leiðangurinn taki 60 daga og verði kominn um miðjan maí. Norski leiðangurinn verður hins vegar 120 daga á leiðinni frá Síberíu til Kanada.

Leiðin frá Síberíu á norðurpólinn er 1000 km og leiðin frá Kanada 800 km. Það segir hins vegar ekki alla söguna. Haraldur Örn sagði að Síberíuleiðin væri mun greiðfærari og ísrekið hagstæðara, en þegar farið væri frá Kanada þyrfti í raun að ganga lengra en 800 km vegna þess að krækja þyrfti fyrir vakir og rekið væri á móti: "Það er erfitt að segja hvers vegna við völdum þessa leið, en hún á sér meiri sögu og þetta er leiðin sem Robert Peary fór 1909."