EKKI er vitað með vissu hverjar orsakir umferðarslyssins á Vesturlandsvegi á föstudagskvöld voru.

EKKI er vitað með vissu hverjar orsakir umferðarslyssins á Vesturlandsvegi á föstudagskvöld voru. Þrír biðu bana og sautján voru vistaðir á sjúkrahúsunum í Reykjavík í fyrrinótt eftir að jeppi og rúta með 19 farþega rákust saman við Grundahverfi á Kjalarnesi. Umfangsmiklar aðgerðir fóru fram við björgun á vettvangi og sjúkrahúsin í Reykjavík unnu saman samkvæmt hópslysaáætlun. Gekk áætlunin í alla staði vel. Í tilkynningu frá Sjúkrahúsi Reykjavíkur segir að enginn hinna slösuðu sé í lífshættu.

Í tilkynningunni kemur fram að alls var ráðgert að ellefu hinna slösuðu fengju að fara heim í gær.

Tveir muni útskrifast í dag en fjórir verði áfram til meðhöndlunar, þar af var einn sem hefur undirgengist aðgerð vegna mikilla beinbrota. "Tveir aðrir eru með minni brot og tveir með vægan höfuðáverka. Auk þeirra voru fimm á gæsludeild í nótt sem allir fara heim [í gær]," segir þar.

Á bráðamóttöku Landspítala voru sex sjúklingar hafðir til eftirlits í fyrrinótt. Gert var ráð fyrir að fjórir færu heim í gær en líklegt þótti að tveir yrðu eftir til frekari aðhlynningar. "Áður en fólkið fer heim munu starfsmenn sjúkrahúsanna úr áfallahjálparteymum veita áfallahjálp," segir í tilkynningunni.

Rannsókn á orsökum slyssins var að hefjast snemma á laugardag með því að ná tali af vitnum. Lögreglan segir að nokkur vitni hafi gefið sig fram en vitað er að fleiri urðu vitni að slysinu og verður reynt að hafa samband við þá. Að sögn lögreglu er ekki vitað um orsakirnar en talið hefur verið að annað ökutækjanna hafi farið yfir á rangan vegarhelming. Ekkert er þó hægt að fullyrða um það á þessu stigi. Athugunin mun einnig beinast að ökutækjunum og rannsakað verður hvort bilun í þeim gæti verið orsakavaldur.

Vesturlandsvegurinn var blautur og háll þegar slysið varð og talsverðir sviptivindar frá Esju. Að öðru leyti var veður þó ekki talið slæmt. Að sögn lögreglu má búast við að það taki nokkra daga að grafast fyrir um orsakir slyssins.

Vaktaskipti auðvelduðu störfin

Vaktaskipti voru hjá Slökkviliðinu í Reykjavík þegar tilkynnt var um slysið og voru tvær vaktir að mestu leyti sendar á slysstað og þriðja vaktin, sem var kölluð út, aðstoðaði við móttöku á spítölunum. Að sögn slökkviliðs gekk björgunin vel. Ekki var unnið eftir neyðaráætlun og helgast það af því hve fjölmennt lið tók þátt í björguninni.

Þrír karlmenn létust í slysinu en ekki er hægt að greina frá nöfnum þeirra að svo stöddu.