Séð yfir Kópavogsdalinn frá sumarbústað Bjarna Jónssonar, Dvöl. Núna eru öll gömlu húsin horfin og ný hverfi hafa risið í Suðurhlíð Kópavogs.
Séð yfir Kópavogsdalinn frá sumarbústað Bjarna Jónssonar, Dvöl. Núna eru öll gömlu húsin horfin og ný hverfi hafa risið í Suðurhlíð Kópavogs.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Byggð í Kópavogi hefur þanist mikið út á síðustu árum. Kópavogur er ekki gamall bær þótt uppgangur hans sé mikill. Hólmfríður Bjarnadóttir man eftir Kópavogi fyrir stríð, hún sagði Guðrúnu Guðlaugsdóttur frá ýmsum minningum sínum frá fyrstu árum sínum í Kópavogi, svo og ýmsu öðru frá lífshlaupi sínu.

KÓPAVOGUR er það bæjarfélag á höfuðborgarsvæðinu og líklega á öllu landinu sem mest hefur þanist út að undanförnu. Þetta er ekki gamall bær, margt fólk sem enn er í fullu fjöri man þá tíð þegar engin byggð var í Kópavogi nema fáeinir sveitabæir og sumarbústaðir, en nokkru fyrir stríð var vinsælt hjá þeim, sem efni höfðu á, að reisa sér sumardvalarhús í Kópavoginum. Hólmfríður Bjarnadóttir heitir kona rösklega sjötug sem þannig gerðist einn af frumbýlingunum í Kópavogi. Hún bjó með foreldrum sínum frá því hún man eftir sér í Kópavogi á sumrin, rétt þar hjá sem Digraneskirkja er nú. Síðar reistu þau Hólmfríður og maður hennar sér hús við Hlíðaveginn og enn býr hún í Kópavogi, nú í skemmtilegri og notalegri íbúð í blokk við Efstahjalla. Heimilið hennar ber vott um natni og myndarskap og sjálf er hún ungleg og létt í bragði. Eftir að Hólmfríður varð ekkja hefur hún unnið ýmis störf í Kópavogi, hún starfaði í íþróttahúsinu Digranesi um árabil og vann á leikskólum í mörg ár. Nú er hún hætt að vinna og farin að sinna margvíslegum áhugamálum með hinum bráðhressu Hananú-félögum, göngugörpum með meiru. Meðan ég spjalla við Hólmfríði verður mér starsýnt á tvö gömul og falleg málverk sem hanga með öðru á veggjum heimilisins. "Þessi málverk eru eftir afa minn, Einar Jónsson listmálara frá Fossi í Mýrdal. Hann málaði mikið en var svo óheppinn að margar af myndum hans brunnu í miklum eldsvoða sem varð á Akureyri snemma á síðustu öld," segir Hólmfríður. Aðdragandann að tilvist Hólmfríðar má raunar með nokkrum hætti rekja til listiðkunar afa hennar. Þannig var að Einar afi hennar var um árabil leiktjaldamálari á Akureyri. Hann réð til sín ungan mann, Bjarna Jónsson úr Skagafirði, sem málaranema. Ragnhildur dóttir Einars var ekki óánægð með þá ráðstöfun. Æ betur fór á með þessu unga pari og þar kom að þau giftu sig. Árið 1928 fæddist þeim Ragnhildi og Bjarna, sem þá var orðinn verkstjóri í vélsmiðjunni Hamri í Reykjavík, dóttir sem gefið var nafnið Hólmfríður. Hamarshúsið er á horni Norðurstígs og Tryggvagötu og hafði fjölskyldan íbúð yfir vélsmiðjunni þar sem Bjarni var yfirverkstjóri. "Þetta var stór íbúð sem við vorum í enda veitti ekki af, við vorum sex systkinin, ég yngst. Mamma var oft hrædd um okkur krakkana fyrir sjónum svo það varð úr að þau pabbi keyptu landspildu í Kópavogi og þar bjuggum við á sumrin. Þau byggðu sumarbústaðinn Dvöl og ræktuðu kringum hann stóran trjágarð, þau voru bæði svo mikið fyrir garðrækt," segir Hólmfríður. "Landið okkar náði frá Hlíðarveginum og niður að Kópavogslæknum. Þessi garður er mörgum Kópavogsbúum eftirminnilegur en nú er hann horfinn að mestu. Margrét Rasmusen átti heima í næsta húsi við hliðina á Digraneskirkju, hún var með Málleysingaskóla. Skammt frá okkur, innar í dalnum, átti Tryggvi Ófeigsson útgerðarmaður sumarbústað; Rannveig dóttir hans er enn mikil vinkona mín. Á sunnudagsmorgnum var alltaf flaggað niðri í dalnum. Í næsta húsi við Tryggva átti heima danskur maður sem Fenger hét, hann flaggaði alltaf danska fánanum.

Kópavogur var alveg uppi í sveit þegar þau pabbi og mamma hófu þarna ræktun og sumarbúsetu nokkru fyrir seinna stríð, pabbi kom til okkar á kvöldin eftir vinnu, hann átti ekki bíl en það var bíll í Hamri og hann gat alltaf látið aka sér suður í Kópavog. Þegar hann kom heim á kvöldin skipti hann strax um föt og fór svo út í garð að vinna. Foreldrar mínir fengu einu sinni verðlaun fyrir þennan stóra og vel ræktaða garð.

Lækurinn hafði mikið aðdráttarafl

Lækurinn í Kópavogi hafði mikið aðdráttarafl fyrir okkur krakkana. Pabbi lét stífla lækinn sem var svo tær og fínn þá að í honum veiddust stórir sjóbirtingar. Hægt var að synda í hylnum sem myndaðist þegar lækurinn var stíflaður. Pabbi keypti bát og við sigldum á læknum. Sú sögn fylgdi þessum læk að í honum hefðu tvö börn frá Hvammskoti drukknað á leið til kirkju fyrir löngu.

Pabbi átti ekki hús í bænum og þegar hann seinna hætti að vera verkstjóri í Hamri þá fluttu þau í sumarhúsið sitt í Kópavogi og bjuggu þar meðan þau lifðu. Eftir að við systkinin urðum fullorðin byggðu fjögur okkar hús á þessu landi svo nálægð okkar var alla tíð mikil. Þegar ég var lítil fluttum við alltaf snemma á vorin í Kópavoginn, ekki síst eftir að stríðið hófst. Mamma var svo hrædd um að gerð yrði loftárás á höfnina og dreif sig þess vegna með okkur svo fljótt sem hún gat í Kópavoginn á vorin. Allir vissu að höfnin var í mikilli hættu fyrir loftárásum og seinna flugvöllurinn.

Hernámið eftirminnilegt

Ég man afar vel eftir nóttinni sem Ísland var hernumið. Þannig var mál með vexti að pabbi tók á móti öllum erlendum skipum sem komu í höfnina því hann var yfirverkstjóri. Hann þurfti alltaf að fylgjast með skipakomum í höfnina af þessum sökum út um gluggann. Mamma vaknaði þessa nótt og sá fjölda skipa á ytri höfninni. Hún vakti pabba og sagði, "Heyrðu Bjarni, það eru komin skip út á ytri höfn!" Pabbi fór út að glugga og sá heilmörg herskip og rétt í sömu svifum komu margir hermenn þrammandi fram fyrir húsið hjá okkur með brugðna byssustingi. Okkur brá óskaplega en pabbi áminnti okkur um að vera ekki í gluggunum og fara alls ekki út, sjálfur fór hann út til þess að athuga hverrar þjóðar hernámsliðið væri. Okkur létti öllum mjög þegar við vissum að hermennirnir voru breskir.

Hermennirnir voru allt í kringum okkur eftir þetta, þeir fengu leigt fyrir framan húsið okkar og í bakhúsi rétt hjá. Þeir tjölduðu meira að segja í portinu hjá okkur. Við þessu var ekkert að gera og allir reyndu að taka þessu vel. Þetta voru ungir menn og ábyggilega var oft kalt í tjöldunum hjá þeim.

Rétt hjá okkur bjó vinkona mín ásamt systrum sínum og móður í litlu húsi, heimilisfaðirinn - sem var loftskeytamaður - hafði dáið ungur; hann fórst með Reykjaborginni. Þessar systur sungu ákaflega vel, nærri því eins og Andrews-systur. Það var látið stórt borð út þangað sem hermennirnir sóttu matinn sinn, þá fóru mínar konur inn á kamar sem tilheyrði þeirra húsi á lóðinni og sungu, það var gat á kamarhurðinni, út um það barst þessi líka yndislega fallegi söngur - hermennirnir hlustuðu hugfangnir á þær syngja alls kyns danslög, mörg með enskum textum. Hernámið er minnisstæðasti atburður ævi minnar hvað samfélagið og umhverfið snertir. Það var svo mikill ótti í fólki, oft komu Þjóðverjar á flugvélum á sunnudagsmorgnum. Þá var gefið loftvarnarmerki og mamma hljóp með okkur í loftvarnabyrgi í kjallara í Garðastræti. Þar sat fólk dauðhrætt þar til merki kom um að hættan væri liðin hjá. Móðurbróðir minn var skotinn af Ameríkana. Hann ók framhjá vaktmanni í stað þess að stansa eins og herreglur mæltu víst fyrir um. Vaktmaðurinn skaut hann. Þessi frændi minn var ungur að árum og nýlega giftur. Hann hét Gunnar Einarsson og kona hans, Þóra Borg, var ófrísk að fyrsta og eina barni þeirra þegar hann dó. Það var mikil athöfn þegar Gunnar var jarðaður.

Varð snemma hárgreiðslukona

Það var mikið athafnalíf við höfnina alla tíð og hver krókur og kimi þar í kring var nýttur. Þegar skipin voru að koma með kolafarma þá komu krakkarnir frá fátækari heimilunum að sækja í poka kolamola sem duttu þegar kraninn var að hífa upp kol úr lestinni. Við þurfum ekki að hugsa um það, íbúðin var kynt fyrir okkur um leið og vélsmiðjan. Eftir að stríðið kom varð velmegunin meiri og þá hættu börnin að tína kolamola í poka til að kynda köld heimili sín. Ég var í Miðbæjarskóla sem barn, eftir að því námi lauk fór ég í kvöldskóla hjá KFUM meðan ég beið þess að komast í hárgreiðslunám. Ég var snemma alveg ákveðin í að læra hárgreiðslu. Mamma vildi að ég færi í Verslunarskólann en ég sat við minn keip. Ég hóf svo sextán ára nám við Iðnskólann og komst á samning á hárgreiðslustofunni Vogue hjá Torfhildi Baldvinsdóttur á Skólavörðustíg. Náminu lauk ég í Pirola hjá Fjólu Sigmundsdóttur á Vesturgötunni. Námið tók alls þrjú ár. Mér fannst óskaplega gaman að greiða hár, greiðslurnar voru fallegar - mikið um uppsett hár. Þetta var skömmu fyrir 1950. Permanett var mikið í tísku og rafmagn sett í samband við hverja einustu spólu. Það þurfti að setja bómull vel undir því hitinn varð mikill. Við vorum svo á varðbergi með þurrkur svo hárið brynni ekki, það var raunar talsvert háskaspil að fá sér permanett á þessum tíma. Enn verra var að oft komu konur lúsugar í hárgreiðslu. Þær fengu ekki greiðslu, voru sendar heim. Þær þrifu sig bara og komu aftur, þetta þótti ekki óeðlilegt. Hárlitun var líka vinsæl. Það var ekki vel séð á þeim tíma að tala mikið við viðskiptavinina - formlegrar kurteisi var krafist. Allar frúrnar voru þéraðar; Gerið þér svo vel frú - má bjóða frúnni kaffi? Allan daginn stóð maður við að greiða á pinnaháum hælum, oft var ég þreytt í bakinu en aldrei datt mér í hug að fara úr hælaháu skónum, þeir voru í tísku og það hefur alltaf kostað sitt að fylgja tískunni. Það kom ekki fram fyrr en seinna hvað óhollt þetta var fyrir fæturna.

Kynntist manninum sínum á Borginni

Maður fékk ekkert kaup meðan á námi stóð en á eftir drýgði ég tekjur mínar með því að fara fyrir stofuna sem ég vann hjá út á land til að greiða fólki þar. Ég flaug víðs vegar um landið í þessu skyni með Catalínuflugbátum eða fór í rútum. Ég var kannski að greiða þetta 50 konum á hverjum stað. Maður vann frá því maður vaknaði og þar til maður datt út af á kvöldin. Þá var permanettið orðið kemískt. Þegar ég var búin að læra fór ég að vinna á hárgreiðslustofunni Etínu, sem var í næsta húsi við Hótel Borg. Eftir vinnu fórum við stúlkurnar sem unnum saman mikið á Borgina, þar var dansað til klukkan hálf tólf. Við fórum stundum með sparikjólana með okkur í vinnuna og brugðum okkur í þá strax og vinnunni lauk. Svo fórum við á Borgina, settumst við borð og fengum okkur sígarettur. Það reyktu allir á þeim tíma, það var ekki hægt að fara á Borgina nema reykja. Stundum var svo loftið svo reykmettað að maður gat ekki haft opin augun, varð að fara út til þess að sjá og ná andanum. Þetta þótti mjög fínt. Á Borginni kynntist ég manninum mínum sem hét Haukur Sigurðsson, hann var sjómaður, lengi stýrimaður á togurum hjá Tryggva Ófeigssyni og síðar skipstjóri. Ég var um tvítugt þegar við kynntumst, við vorum mjög ástfangin. Skömmu eftir að við kynntumst fór ég til Ísafjarðar. Haukur var þá að koma í land og ég vildi meira en gjarnan hitta hann, en það var því miður engin ferð til Reykjavíkur frá Ísafirði. Það voru þarna flugmenn með flugvél sem ekki var ætluð farþegum því hitakerfið var bilað í henni. Ég bað þá mjög vel að taka mig með suður. Þeir gerðu það á endanum, vöfðu mig inn í teppi svo ég króknaði ekki í vélinni. Ég hefði ekki gert þetta í dag svo flughrædd sem ég er - en ástin er máttug. Ég fór með vélinni suður og það borgaði sig. Það var ekki mikið um að vera þegar við Haukur giftum okkur, mamma fékk sendan mat í Kópavoginn, þetta var að sumri og gestirnir komu í sumarbústaðinn. Séra Sigurjón Árnason, bróðir Ingibjargar mágkonu minnar, gifti okkur, hann skírði líka elstu dóttur okkar. Ég var tuttugu og tveggja ára þegar ég átti fyrsta barnið. Við Haukur byrjuðum að búa á Skólavörðustíg 27, bróðir minn átti miðhæðina og amma mín bjó uppi á lofti. Við fengum þarna svolitla íbúð í kjallaranum. Fljótlega byrjuðum við að byggja á Hlíðarveginum, þar var þá allt að byggjast upp, við keyptum lóð undir húsið okkar. Við bjuggum um tíma á Sjafnargötunni meðan við vorum að byggja. Íbúðin var á jarðhæð og mér líkaði það ekki vel því ég hef alltaf verið myrkfælin, einkum þegar ég var yngri, ég varð oft að fá að sofa fyrir ofan systur mína í rúminu vegna myrkfælninnar. Svo var það eitt kvöld á Sjafnargötunni, þegar Haukur var á sjónum, og ég ein með krakkana, sem orðnir voru þrír, að það kemur maður á gluggann, sem var svolítið opinn. Hann reyndi að opna gluggann betur en mér tókst að loka glugganum fyrir framan hann. Maðurinn var ber og ég varð skelfingu lostin. Ég hljóp upp eftir aðstoð og bróðir minn var svo sóttur, hann varð að vera hjá mér í þrjá daga, ég var svo hrædd að ég þorði ekki út í öskutunnu hvað þá meira, ekki lagaðist myrkfælnin við þetta atvik.

Búskapurinn á Hlíðaveginum

Við Haukur fluttum í nýja húsið okkar árið 1955. Hann tók sér frí frá sjómennskunni um tíma til að vinna í byggingunni. Á Sjafnargötunni byrjaði ég að taka konur í hárgreiðslu og ég hélt því áfram eftir að ég flutti. Það var yndislegt að koma með börnin í Kópavoginn. Maður opnaði bara fyrir þeim og þau hlupu út í góða veðrið og léku sér úti, þau voru með stórt bú, allt var svo frjálst og yndislegt. Á meðan þau léku sér var ég inni í eldhúsi að greiða hárið á konunum í kring. Það voru níutíu börn frá efsta horninu á götunni hjá okkur og niður á neðsta horn götunnar. Maðurinn minn var alltaf á sjónum, hann kom í land seinna og vann þá hjá BYKO. Hann fékk krabbamein og dó árið 1988. Það var mér mjög erfitt að missa hann, við höfðum verið samrýnd og ákaflega hamingjusöm. Við treystum hvort öðru alltaf vel, ég álít að undirstaða góðs hjónabands sé traust og vinátta. Það voru alltaf jólin þegar hann kom í land. Þá var ég búin að baka og laga allt mjög fínt til, svo snerist ég í kringum hann, rétti honum inniskóna og hvað eina. Þegar hann fór var ég mjög leið, var alltaf dálítinn tíma að jafna mig - svo náði ég mér upp og fór að hlakka til að hann kæmi aftur. Ég hafði nóg að gera, ég hafði sama háttinn á og mamma, hafði mat klukkan tólf, kaffi klukkan þrjú og kvöldmat klukkan sex. Ég hafði því mikið að gera við að baka og elda, einnig saumaði ég á börnin og prjónaði. Maðurinn minn keypti föt á mig í ferðum sínum utanlands svo ég átti alltaf falleg föt, það var auðvelt að kaupa á mig , ég var lengi svo grönn. Þegar við kynntumst var ég svo mittismjó að hann gat spannað á mér mittið tveimur höndum. Þannig liðu árin eitt af öðru - öll yndisleg. Við eignuðumst sex börn á tuttugu árum. Barneignir áttu vel við mig, ég átti yngsta barnið 44 ára og hlakkaði mikið til að eignast það, þá voru tíu ár liðin frá síðustu fæðingu. Börnin mín voru yfirleitt vel heilbrigð en ef eitthvað kom upp á var læknirinn í Kópavogi mættur með mælinn í brjóstvasanum, hann kom alltaf þegar á hann var kallað, læknisþjónusta var góð í Kópavogi á þeim tíma. Auk heimilisfólksins var ég oft með margt fólk á heimilinu. Vinafólk mitt frá Skarði á Skarðsströnd kom oft til mín og var stundum langdvölum. Sonur minn var í sveit á Skarði hjá Jóni Jónssyni og Ingibjörgu Kristinsdóttur, vinkonu minni sem ég hafði kynnst þegar ég kom ung stúlka til að greiða konum í Stykkishólmi. Hún vorkenndi mér hvað ég hafði mikið að gera við hárgreiðsluna og bauðst til að hjálpa mér. Þegar ég eignaðist fyrsta barnið sendi hún mér dúnsæng fyrir það. Upp úr þessu urðum við miklar vinkonur. Það var mjög gestsamt hjá mér á Hlíðarvegi 55." Þessu til sannindamerkis fer Hólmfríður fram í eldhús og sækir heljarstóra kaffikönnu. "Það dugði ekki minna en hella upp á þessa könnu að minnsta kosti einu sinni á dag fyrir gesti og gangandi," segir hún og hlær. Kaffidrykkjunni fylgdu bollaspádómar. "Ég var að spá fyrir vinkonur mínar til gamans, maður sagði eitthvað og þær voru ánægðar, stundum hitti ég naglann á höfuðið en það var ótrúleg tilviljun." Árum saman hélt hún áfram að greiða nágrannakonunum og setja í þær permanett. "Ég var bara með þurrku í eldhúsinu, svo sótt ég námskeið og reyndi að fylgjast með, það er nauðsynlegt í svona fagi. Svo smám saman dró úr þessari starfsemi minni. Lengi vel hafði ég nokkra kúnna að klippa, herra úr fjölskyldunni, en svo dóu viðskiptavinir mínir einn af öðrum - svona er lífið. Það líður en minningarnar sitja eftir. Nú fæ ég raunar bráðum nýjan kúnna, það er dótturdóttir mín sem á að fermast í vor, hún vill endilega að ég greiði henni á fermingardaginn. Hún býr í gamla húsinu mínu á Hlíðarvegi 55. Dóttir mín og maðurinn hennar keyptu það og búa nú í því með þremur börnum sínum. Mér þótti vænt um það.

Þykir vænt um Kópavoginn

Mér þykir vænt um Kópavoginn þótt hann sé mikið að breytast núna. Ég var í kvenfélaginu í dálítinn tíma en hætti því. Ég hafði nóg að gera með börnin, maðurinn alltaf á sjónum. Núna tek ég hins vegar talsverðan þátt í félagslífi með Hananú-hópnum. Ég hef alltaf reynt að vera jákvæð. Ég ákvað þegar maðurinn minn dó að hafa alltaf bók undir koddanum og jafnvel prjóna inni í svefnherbergi hjá mér. Ég neita því ekki að ég las meira á þessum tíma en ég hafði nokkurn gert áður og greip líka oft í prjónanna, en smám saman fór ég að jafna mig og sofa betur. Maðurinn minn dó úr krabbameini og hann háði talsvert langt dauðastríð - ég reyndi að hafa hann eins mikið heima og hægt var. Ég var komin með ljósastofu þegar þetta gerðist en varð að hætta starfsemi hennar þegar maðurinn minn veiktist til að vera heima hjá honum. Hann var aðeins 65 ára þegar hann dó og ég 59 ára. Nokkrum árum eftir lát mannsins míns kynntist ég manni sem ég bjó með í eitt ár - þá dó hann líka. Hann fékk líka krabbamein og ég var yfir honum dauðvona líkt og manninum mínum heitnum áður. Það var mikið áfall þegar vin minn að fá þann dóm að hann ætti aðeins eftir þrjá mánuði ólifaða. Mér finnst ekki rétt af læknum að skella svona fréttum á sjúkt fólk og svipta það þar með allri von. Ég myndi ekki vilja láta segja svona við mig þótt ástæða væri til. Þegar faðir minn veiktist af krabbameini og var orðinn óskaplega mikið veikur þá sagði læknirinn hans, hann Ragnar Arinbjarnar, við hann; "Heyrðu Bjarni, ég ætla að láta hérna stól við rúmið þitt, þegar þú getur farið að fara fram úr." Þetta viðhorf gerði pabba gott og lét honum líða betur í banalegunni. Ég gæti vel trúað að vinur minn hefði lifað lengur hefði hann ekki fengið að heyra þennan harða og ótvíræða dóm. Það var áfall að missa hann líka. En svona er þetta, ef fólk fær að lifa þá kemur að því að það hlýtur að missa sína. Það hjálpaði mér að ég er trúuð, ég ólst upp á trúuðu heimili og er sjálf það trúuð að ég er aldrei ein. Trúin var mér mikill styrkur þegar maðurinn minn heitinn var á sjónum og veður voru vond. Þá vakti ég og bað fyrir honum og enn er ég veðurhrædd þegar gerir vond veður. Ég er svo lánsöm að ég hef fengið að halda börnunum mínum og á stóra og samheldna fjölskyldu. Ég á systur sem er ekkja eins og ég, við erum mjög samrýndar. Raunar var alltaf mjög gott samband milli okkar systkinanna allra. Ég neita því ekki að það voru mikil viðbrigði að fara að búa ein. Stöku sinnum grípur mig svolítil einmanakennd, en þá sest ég upp í bílinn minn og ek upp á Borgarholtið hjá Kópavogskirkju og horfi yfir. Ég hef séð Kópavoginn breytast úr sveit í borg. Ég horfi yfir bæinn minn og veit varla hvort ég á að gleðjast yfir öllum þeim öru breytingum sem nú eiga sér þar stað. Allt er orðið breytt nema lækurinn, ég geng stundum meðfram læknum og hugsa til baka. Fjöllin hafa heldur ekki breyst - víðáttan lyftir huganum og þegar ég kem heim frá Borgarholtinu fer ég róleg og glöð að sýsla við glerlistmuni mína eða handavinnu. Mér hefur alltaf þótt gaman að lifa og mér finnst það enn. Mín gleði er að vakna á morgna til alls konar verkefna, ég lít fram á við en hugsa ekki mikið til fortíðar. Ég vil nota hverja stund og raunar hvern klukkutíma til að njóta þess að lifa, hvort heldur sem er í sorg eða gleði.