Friðrik Ellert Jónsson sjúkraþjálfari mælir jafnvægið hjá Valgerði með sérhönnuðu tæki, þar sem m.a. er unnt að sjá hvernig þungi líkamans leggst á fæturna.
Friðrik Ellert Jónsson sjúkraþjálfari mælir jafnvægið hjá Valgerði með sérhönnuðu tæki, þar sem m.a. er unnt að sjá hvernig þungi líkamans leggst á fæturna.
MIKIÐ vatn hefur runnið til sjávar síðan skíðakonan Valgerður Gunnarsdóttir kom til landsins eftir alvarlegt skíðaslys í Bad Hofgastein í Austurríki hinn 14. janúar síðastliðinn.

MIKIÐ vatn hefur runnið til sjávar síðan skíðakonan Valgerður Gunnarsdóttir kom til landsins eftir alvarlegt skíðaslys í Bad Hofgastein í Austurríki hinn 14. janúar síðastliðinn. Valgerður hryggbrotnaði og hlaut önnur slæm meiðsl er hún hafnaði á skúr í skíðabrekku að lokinni æfingu með Skíðaliði Reykjavíkur og lá á sjúkrahúsi í Austurríki í hálfan mánuð áður en hún var flutt heim með sjúkraflugi 31. janúar sl.

Eftir komuna til landsins lá Valgerður á bæklunardeild Sjúkrahúss Reykjavíkur í viku áður en hún hóf endurhæfingu á Grensásdeild SHR.

Síðastliðnar þrjár vikur hefur hún verið undir handleiðslu sjúkraþjálfara og sýnt feiknamiklar framfarir í fjölbreyttum æfingum sem hún stundar daglega. Styrkur hennar eykst með hverjum degi og er hún fyrir allnokkru komin á fætur og nýlega farin að ganga um á hækjum sem markaði mikilvæg tímamót í endurhæfingunni.

"Það veitti mér mjög mikið frelsi að komast á hækjurnar, og mér fannst alveg æðislegt að geta farið að ganga upp og niður stiga undir handleiðslu sjúkraþjálfara," sagði Valgerður í samtali við Morgunblaðið. "Ég hafði líka beðið lengi eftir því að komast í sund," bætti hún við. "Í síðustu viku var ég orðinn nógu fær til að fara í sund og fór þá að æfa mig í innanhússlauginni hérna og finnst það bera vott um enn einn áfangasigurinn."

Keppnisskap og íþróttabakgrunnur hafa mikla þýðingu

Friðrik Ellert Jónsson, sjúkraþjálfari á Grensásdeild, segir framfarirnar hjá Valgerði mjög miklar og segir að keppnisskap hennar og íþróttabakgrunnur hafi haft mikið að segja í endurhæfingunni.

"Endurhæfingin hefur gengið ljómandi vel og atburðarásin hefur verið mjög hröð, enda hefur Valgerður staðið sig mjög vel, ekki síður andlega sem líkamlega," segir hann.

Markmið þjálfunarinnar er að sögn Friðriks að endurhæfa Valgerði eins vel og mögulegt er en hingað til hefur þjálfunin lofað góðu.

Valgerður byrjar hvern dag á því að fara í sund og það sem eftir lifir dagsins stundar hún fjölbreyttar æfingar með hvíldum inn á milli. Einkum er þar um að ræða gönguæfingar og svokallaðar færnisæfingar, t.d. að ganga upp og niður stiga, stíga inn í og út úr bíl að ógleymdum styrkingaræfingum og sundinu. Á kvöldin gerir hún ennfremur aukaæfingar eftir að hún er kominn í upp í rúm og segist hún ekki eiga erfitt með að festa svefn að loknum venjulegum degi.

"Æfingarnar hafa verið teknar upp á myndband og það er ótrúlegt að fylgjast með upptökunum, því þar sér maður hvernig daglegar framfarir eiga sér stað í raun og veru. Maður er nefnilega ekki fyllilega meðvitaður um framfarirnar frá degi til dags fyrr en þær birtast manni á skjánum," segir Valgerður.

Hún hóf nám í Menntaskólanum við Hamrahlíð síðastliðið haust og hefur lokið einni námsönn við skólann, en meiðsla sinna vegna hefur hún verið fjarri námi á yfirstandandi vorönn. Á því verður líklega breyting bráðlega, enda kom umsjónarkennari hennar í heimsókn fyrir skömmu og mun útvega henni námsáætlun eftir helgina.

"Ég ætla a.m.k. taka stærðfræði og þarf því að vinna á tvöföldum hraða, enda hef ég misst talsvert úr. Mig langar líka að læra spænsku og hef haft áhuga því lengi, enda finnst mér spænskan fallegt tungumál."

Af þessu má dæma að dagskrá Valgerðar fari að verða býsna þétt og hefur hún þó ekki verið gisin fram til þessa. Gestagangur er að jafnaði mikill hjá henni þar sem vinir hennar og vandamenn koma reglulega til að heyra nýjustu fréttir af batanum. Þá hefur hún ekki síður haft mikið af sjálfu starfsfólkinu á Grensásdeild að segja.

"Starfsfólkið hérna er alveg frábært og er tilbúið til að gera allt fyrir mann og fyrir það er ég mjög þakklát," segir Valgerður og biður að lokum fyrir góðar kveðjur til vina sinna og fjölskyldumeðlima um land allt.