Ólafur Kristjánsson
Ólafur Kristjánsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Um fjörutíu ár eru nú liðin frá því að togarinn Vöttur frá Eskifirði fór í hrakfallaferð hina mestu á Nýfundnalandsmið. Togarinn, sem lagði úr höfn í Hafnarfirði bilaði fljótlega eftir að hann kom út á sjó.

Um fjörutíu ár eru nú liðin frá því að togarinn Vöttur frá Eskifirði fór í hrakfallaferð hina mestu á Nýfundnalandsmið. Togarinn, sem lagði úr höfn í Hafnarfirði bilaði fljótlega eftir að hann kom út á sjó. Þá var snúið við og gert við bilunina og haldið aftur út. Þetta var þó aðeins upphafið að röð óhappa sem elti þrjátíu og tveggja manna áhöfn næstu vikurnar. Ólafur Kristjánsson var háseti um borð á Vetti og rifjar hér upp söguna. Ingunn Kristín Ólafsdóttir skráði minningar hans frá atburðunum.

TOGARINN Vöttur frá Eskifirði hafði ekki verið lengi að veiðum á Nýfundnalandsmiðum laugardaginn 24. október 1959 þegar trollspil bilaði. Haft var samband við Bæjarútgerð Hafnarfjarðar og leitað ráða hvað skyldi gera í stöðunni og var lagt fyrir skipstjórann að halda til St. Johns á Nýfundnalandi og fá viðgerð. Togarinn hélt rakleiðis þangað og var gert við hann en nýtt trollspil hafði verið sent að heiman. Viðgerðin tók stuttan tíma og að henni lokinni átti að halda strax út á miðin aftur en svo illa vildi til að þegar togarinn sigldi út úr höfninni strandaði hann rétt innan við hafnarmynnið þar sem kallað er "Pancake Rock".

Ólafur man vel eftir þessum atburði og segir hann að mikil þoka hafi verið og þungur sjór þegar togarinn sigldi út. Þegar komið var í námunda við hafnarmynnið þurfti að leggja hart á bakborða til að koma skipinu í mjóa rennu sem liggur út úr höfninni. Við þau átök varð stýri skipsins óvirkt en við það komst skipið ekki í rennuna. Reynt var að setja á fulla ferð aftur á bak en svo illa vildi til að við það strandaði skipið. Eftir strandið hallaðist skipið gífurlega á bakborða og valt töluvert mikið. Tveir litlir dráttarbátar komu fljótlega á svæðið og reyndu að ná togaranum á flot en þeir urðu aflvana við það. Veltur skipsins ágerðust eftir því sem meira fjaraði út og var því fljótlega ákveðið að áhöfn skipsins skyldi yfirgefa það fyrir utan skipstjórann, loftskeytamann og hafnsögumann sem verið hafði um borð.

Reynt var eftir fremsta megni að ná togaranum á flot og kom stór og öflugur dráttarbátur á vettvang til þess. Eftir mikil átök tókst að ná Vetti af skerinu, hann var dreginn til hafnar og tekinn í þurrkví. Ólafur segir gífurlegan viðbúnað hafa verið við strandstað en ekki reyndist þörf fyrir hann þar sem svo vel fór að enginn um borð slasaðist við strandið.

Vosbúð um borð

Fljótlega kom í ljós að togarinn var mikið skemmdur. Botninn var mikið dældaður og skutur og stýri höfðu laskast. Ljóst var að viðgerð tæki langan tíma auk þess sem varahluti vantaði á staðinn. Áhöfn skipsins var send á hótel fyrstu nóttina á meðan tekin yrði ákvörðun hvað um hana yrði. Ákveðið var að hún biði þess að togarinn kæmist aftur flot og að á meðan á viðgerð stæði skyldu skipsmenn búa um borð í Vetti. Ólafur segir að menn hafi kæst við þetta því flestir höfðu haft á orði að það væri nú gaman að vera í nokkra daga í St. Johns. Menn hefði þá ekki grunað hversu löng dvölin að lokum yrði. Næstu tvær vikurnar var ekkert aðhafst við skipið en þá komu menn að heiman til skrafs og ráðagerða. Var þá ákveðið að gera til bráðabirgða við togarann en það tókst ekki og því ljóst að fullnaðarviðgerð skyldi fara fram. Allan þennan tíma var skipið í slipp og áhöfnin bjó um borð í því. Ólafur segir að kæti manna hafi nú minnkað eftir því sem á leið. Hann segir aðbúnað um borð hafa verið frekar slæman. Ekki var hægt að nota salernin þar sem ekki mátti sturta niður úr þeim og ekki máttu menn heldur baða sig. Matur varð fljótlega á þrotum og því þurftu skipverjar að fara í land til að matast og sinna helstu þörfum. Skipverjum fannst þeir hafa dottið í lukkupottinn þegar þeir fundu sundlaug eina en þegar nánar var að gáð var hún full af laufblöðum og því ekki hægt að synda í henni.

Skipverjar skemmta sér

Blankheit fóru fljótlega að gera vart við sig meðal manna en minnist Ólafur þess þó að konsúll Íslands hafi sent þeim peninga fyrir helstu nauðsynjum. Mjög kalt er á þessum slóðum á þessum árstíma og segir Ólafur að kuldinn hafi alveg ætlað að drepa mannskapinn, þá sérstaklega á nóttunni en kalt var þá einnig í skipinu þótt einhver kynding hafi verið. Þessi vosbúð kom þó ekki í veg fyrir að ungir íslenskir menn skemmtu sér. Ólafur brosir að minningunum og segir að ýmislegt hafi verið bjástrað í landi til að láta tímann líða. Hann segir að þeir hafi kynnst sjómönnum frá öðrum löndum sem voru þarna á veiðum og með þeim hafi tekist kunningsskapur þó að þeir hafi staldrað stutt við. Franskir og spænskir sjómenn voru þarna og virtist sem þeir hefðu ekki mikið upp úr býtunum miðað við útganginn á þeim. Þeir hafi verið fátæklegir í klæðaburði og áttu jafnvel ekki nauðsynlegustu kuldaflíkur. Íslensku sjómennirnir dóu ekki ráðalausir og skiptu þeir við útlendingana á hlífðarfatnaði og rauðvíni og koníaki. Allir voru sáttir við þau viðskipti. Ólafur minnist þess einnig að eitt sinn hafi þeir ætlað að skoða Katólska kirkju á staðnum og voru múrarar við störf við hana. Einn skipsmanna vék sér að einum múraranna og ætlaði að selja honum saltfisk en hann brást ókvæða við og hringdi á lögregluna. Íslendingarnir sluppu þó með skrekkinn. Eitt sinn hugðust tveir úr áhöfninni skreppa á ball. Þeir komu að "offisera"-klúbbi og ákváðu að freista þess að komast inn. Kváðust þeir vera "offiserar" sjálfir og eftir örlítið þóf var þeim hleypt inn. Það vildi þó svo illa til að stuttu síðar komu raunverulegu "offiserarnir" og kröfðust inngöngu. Upp um ráðabruggið komst og var íslensku strandaglópunum kastað út.

Aftur á miðin

St. Johns svipar að sögn Ólafs til Reykjavíkur. Á þessum tíma bjuggu þar um 85.000 manns. Hann segir bæinn hafa verið með rólegasta móti og ekki mikið hægt að taka sér fyrir hendur þar. Áhöfnin kynntist ekki heimamönnum en auk frönsku og spænsku sjómannana var færeyskur togari, Fiskanes, í landi í nokkra daga. Þeir kynntust Færeyingunum og segir Ólafur að um borð hafi verið tónskáld sem hafði samið vinsælt lag á þessum tíma en það var slagarinn Rasmus sem eflaust margir sem voru upp á sitt besta á þessum tíma muna eftir. En þó Vattarmenn hafi rætt sín á milli að gaman væri að vera lengur var þeim þó farið að leiðast þófið eftir því sem lengra leið og viðgerðinni þokaði lítið. Auraráð voru að lokum orðin mjög lítil þó að alltaf hafi þeir getað matast á ákveðnum stöðum sem útgerðin samdi við. Menn urðu því fegnir þegar viðgerð lauk um mánuði eftir strandið eða hinn 25. nóvember 1959. Togarinn var þá tekinn úr þurrkvínni og hélt aftur á veiðar hinn 27. sama mánaðar.

Aftakaveður á heimleið

Hrakfallaförinni var þó ekki lokið því á siglingunni heimleiðis, sem tók um fimm sólarhringa, gerði aftakaveður og komust þeir heim við illan leik. Mun þetta hafa verið á sama tíma og ekkert heyrðist í Úraníusi í tvo sólarhringa vegna þess að loftnet þeirra slitnaði í veðrinu og því sambandslaust við þá. Ólafur segir að það hafi verið fegnir menn sem stigu í land á Íslandi eftir þessa ævintýraför. Lítið hafði af þeim frést og höfðu menn ekki getað haft samband heim. Ættingjar hér heima voru því ekki síður fegnir að endurheimta sína menn. Ólafur getur þess að lokum að ekki hafi þeir komið auðugir úr förinni þar sem samið hafði verið upp á hlut afla og var hann að vonum ekki mikill.