HUNDRUÐ þúsunda amerískra barna á aldrinum 2-4 ára taka inn geðlyf á borð við Prozac og Ritalin.

HUNDRUÐ þúsunda amerískra barna á aldrinum 2-4 ára taka inn geðlyf á borð við Prozac og Ritalin. Börnin taka lyfin oft að kröfu foreldra, sem eru of önnum kafnir til að dvelja heima með börnum sínum að því er fram kom í nýrri könnun tímarits ameríska læknasambandsins, Journal of the American Medical Association. En könnunin leiðir í ljós að notkun lyfjanna meðal forskólabarna hefur aukist um 50% á árunum 1991-1995.

Langtímaáhrif lyfjanna á ung börn hafa hins vegar lítt verið könnuð og sögðu þeir sem að könnuninni stóðu það vera áhyggjuefni að foreldrar litu í auknum mæli á lyfjagjöf sem lausn á vanda barna sinna.

Könnunin var framkvæmd meðal forskólabarna í þremur ríkjum Bandaríkjanna og var skoðuð notkun þeirra á örvandi lyfjum, þunglyndislyfjum, geðhvarfalyfjum og lyfinu clonidine, sem er notað gegn háum blóðþrýstingi hjá fullorðnu fólki en gegn svefnleysi hjá börnum. Veruleg aukning notkunar fannst í öllum lyfjaflokkum nema á geðhvarfalyfjum og jókst fjöldi þeirra barna sem neyttu lyfjanna í ríkjunum þremur úr 100.000 árið 1991 í 150.000 1995. Notkun lyfsins clonidine olli þeim sem könnunina framkvæmdu einna mestum áhyggjum, en lyfið er gefið ofvirkum börnum án þess að viðeigandi rannsókn hafi enn átt sér stað.

"Það eru engin rök sem styðja geðlyfjanotkun mjög ungra barna," sagði Joseph Coyle við læknadeild Harvard og bætti við að það væri verulegt áhyggjuefni að ekki væri vitað hvaða áhrif lyfin hefðu á þroska heilans. Geðlæknar mæltu því í auknum mæli með því að foreldrar veittu mataræði barna sinna athygli, eða hugleiddu þau meðferðarúrræði sem byðust áður en þeir teygðu sig eftir lyfjaglasinu.

Daily Telegraph.