EKKI er gott að segja hversu margir muna eftir Wu Tang-genginu sem bylti rappheiminum fyrir nokkrum árum. Í kjölfarið var ekki þverfótað fyrir sólóskífum þeirra Wu Tang-manna, hverri annarri betri og þær bestu áttu allar það sammerkt að RZA stóð við stjórnvölinn. Þar á meðal var skífa Ghostface Killah, Ironman. Fyrir skemmstu kom svo út önnur skífa Killah, sem kallast Supreme Clientele.

Ghostface Killah, sem kallaðist Dennis Coles í æsku, er með betri textasmiðum Wu Tang-klíkunnar eins og heyra mátti á fyrri plötum þeirra félaga. Minna hefur þó orðið úr ferli hans en ætla mætti enda hefur hann lent í ýmsum hremmingum, þar á meðal sat hann inni um tíma fyrir ýmsa óknytti. Það virðist þó aðeins hafa orðið til góðs, því hann þykir venju fremur sprækur á nýju plötunni, en eflaust ræður þaðeinhverju þar um að RZA er við stjórnvölinn, sem teljast mikil meðmæli með hverri skífu.

Útsetningar RZA eru fjölbreyttar að vanda, og í blöndunni bregður fyrir allt frá hörðu glæparappi yfir í hálfgerðan hrynblús. Textarnir eru einnig fjölbreyttir og jöfnum höndum blandað saman hefðbundnu karlagrobbi, hvatningarorðum til litrar æsku og ástarhjali. Líkt og tíðkast á skífum þeirra Wu Tang-manna koma ýmsir gestir við sögu, þar á meðal RZA, sem lætur til sín heyra í tveimur lögum. Aðrir gestir eru Superb, Reaekwon, Cappadonna, Method Man, Masta Killah, Redman, 60 Second Assassin og GZA.