Noel Gallagher
Noel Gallagher
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
FREMSTA rokksveit Breta á þessum áratug er Oasis, ekki bara fyrir það hversu sveitinni hefur gengið vel að selja skífur sínar, heldur hvernig hún hefur speglað breskan tíðaranda. Oasis hefur selt fleiri plötur og hraðar en nokkur bresk hljómsveit síðustu ár og þó sumir hafi viljað meina að hún væri búin að syngja sitt síðasta kom annað á daginn þegar fyrsta smáskífan af nýrri plötu hennar skaust á toppinn heima fyrir.

Smáskífan, Go Let it Out, fór ekki bara í efsta sæti breska smáskífulistans í einu stökki, heldur seldist hún í talsvert stærra upplagi en allar níu plöturnar sem á eftir komu saman lagt. Óhætt er og að gera því skóna að væntanleg breiðskífa eigi eftir að fara sömu leið, enda óteljandi Oasis-vinir í Bretlandi sem hlaupa upp til handa og fóta þegar þeir Gallagher-bræður láta í sér heyra. Það er svo aftur annað mál hvort þeim eigi eftir að ganga eins vel og forðum, hljómsveitir lifa sjaldnast lengi á toppnum og tíðarandinn fljótur að breytast.

Platan nýja kemur út mánudaginn 28. febrúar og heitir Standing On The Shoulder Of Giants, sem er tilvitnun í Isaac Newton. Það þykir ekki frétt að Noel Gallagher sé allt í öllu á skífunni, en vekur óneitanlega athygli að Liam Gallagher á þar eitt lag, ort til sonar hans.

Annað á Noel bróðir hans og obbinn af því þykir venju fremur tilraunakenndur, rétt eins og Noel Gallagher sé að reyna að sprengja utan af sér sniðmátið frá Bítlunum og Kinks. Þannig eru víða sýruskotnir hljómar og stemmingar sem flokkast frekar undir framsækið rokk en framsækið popp líkt og forðum. Textar hans eru og beinskeyttari, ekki bara samansafn af frösum og endarímsslagorðum, heldur er hann einnig að syngja um líf sitt síðustu ár, þar á meðal taumlausa kókaínneyslu. Hann vill þó ekki gera mikið úr því sjálfur; segist dauðleiður á ríkisbubbum sem séu sífellt að sífra um það hve lífið sé erfitt.

eftir Árna Matthíasson