MARGIR hafa eflaust tekið eftir myndbandi í sjónvarpi undanfarið þar sem svikin stúlka gengur milli bols og höfuðs á flásara.

MARGIR hafa eflaust tekið eftir myndbandi í sjónvarpi undanfarið þar sem svikin stúlka gengur milli bols og höfuðs á flásara. Stúlkan syngur eins og engill á milli sem hún orgar eins og ljón, nokkuð sem fer ekki á milli mála á nýrri skífu hennar, Kaleidoscope.

Stúlkan í myndbandinu heitir Kelis og á ekki langt að sækja tónlistarhæfileikana, því faðir hennar var djasstónlistarmaður. Hann hafði þó engan áhuga á að dóttirin fetaði í fótspor sín, en móðir hennar sá um tónlistaruppeldið, kom stúlkunni í kór þegar hún var aðeins tveggja ára gömul og síðan fylgdi fiðlunám. Hún segist þó hafa lært einna mest af því að fylgjast með föður sínum að æfa sig á saxófóninn.

Kelis þurfti snemma að spjara sig, enda fluttist hún að heiman aðeins sextán ára gömul. Það var þó ekki til að leggjast í einhverja örvæntingu og víl því hún hélt áfram námi meðfram því sem hún reyndi fyrir sér í tónlistinni. Fyrsta tækifærið gafst þegar henni bauðst að syngja inn á skífu með Ol' Dirty Bastard og stóð sig svo vel í því að ekki leið á löngu að upptökustjórar þess lags buðu henni að gera heila plötu sjálf. Sú plata er og komin út, heitir Kaleidoscope og hefur vakið talsverða athygli. Mesta athygli hefur lagið Caught Out There vakið, sem getið er í upphafi, en þó í því sé sungið af mikilli beiskju og hörku um framhjáhald og svik leggur Kelis mikla áherslu á að hún sé að leika hlutverk, enda á plötunni að finna tónlist sem spannar allan tilfinningaskalann á öllum hraða- og styrkstigum.