MIKIÐ er fjasað um það í fjölmiðlum, að sjúkrahús séu dýr í rekstri. Mér finnst fullmikið á þessu tönnlast, í tíma og ótíma. Eins og menn éti þetta hver eftir öðrum.

MIKIÐ er fjasað um það í fjölmiðlum, að sjúkrahús séu dýr í rekstri. Mér finnst fullmikið á þessu tönnlast, í tíma og ótíma. Eins og menn éti þetta hver eftir öðrum. Gleymist mönnum þá ekki stundum hin dýrmæta þjónusta sem sjúkrahúsum er ætlað að inna af hendi?

Lífið er dýrmætt og dýrt og viðhald þess einnig. Við eigum í styrjöld við ýmsa skæða sjúkdóma og að sjálfsögðu er herkostnaðurinn umtalsverður. En ég hélt að þorri manna væri samþykkur því að reyna að halda víglínunni í þessum hernaði. Eða jafnvel nota hið margumtalaða góðæri til að sækja örlítið fram. Af umfjöllun og fregnum fjölmiðla gæti maður þó stundum efast um að sú væri raunin.

Einhvern tíma í vetur opnaði ég fyrir miðaftansfréttir í útvarpi. Þar voru sagðar fréttir frá Alþingi. Brugðið upp svipmynd þaðan. Deilt var um gagnagrunn, álver, fiskikvóta og nektardans, svo fátt eitt sé talið. - Já, og menn deildu af miklum krafti, voru raddsterkir og háværir eins og landsfeðrum ber að vera.

Þangað til þau undur gerðust að allir voru skyndilega sammála. Raddstyrkurinn hjaðnaði raunar ekki að ráði, en beindist nú allur að sameiginlegu átaki, enda er sagt menn standi betur sameinaðir en sundraðir.

Og hvað var það svo sem blessaðir þingmennirnir okkar virtust flestir sammála um á þessari stundu? Jú, það voru sjúkrahúsin, þau væru allt of dýr í rekstri.

Þetta gat minnt á þann stað í Heilagri ritningu þar sem Heródes og Pílatus urðu skyndilega vinir.

SVEINN KRISTINSSON,

Þórufelli 16, Reykjavík.

Frá Sveini Kristjánssyni: