Tuttugu manns taka þátt í fyrsta námskeiðinu af þremur fyrir stjórnendur vöruflutningafyrirtækja sem nú stendur yfir á  Hrafnagili í Eyjafjarðarsveit.
Tuttugu manns taka þátt í fyrsta námskeiðinu af þremur fyrir stjórnendur vöruflutningafyrirtækja sem nú stendur yfir á Hrafnagili í Eyjafjarðarsveit.
NÁMSKEIÐ fyrir stjórnendur vöruflutningafyrirtækja stendur nú yfir á Hrafnagili í Eyjafjarðarsveit.

NÁMSKEIÐ fyrir stjórnendur vöruflutningafyrirtækja stendur nú yfir á Hrafnagili í Eyjafjarðarsveit. Rannsóknarstofnun Háskólans á Akureyri sér um námskeiðið í samvinnu við Landvara, félag íslenskra vöruflytjenda og er þetta fyrsta námskeiðið af þremur en félagið stefnir að því að allir stjórnendur í vöruflutningum sæki slík námskeið.

Í lögum um vöruflutninga á landi er kveðið á um að þeir einir geti starfað við flutninga sem uppfylli tilgreint skilyrði um starfshæfni og skulu menn gagnast undir tiltekið nám sem tilgreint er í reglugerð. Engar slíkar kröfur eru gerðar til þeirra sem nú starfa við atvinnugreinina, þannig að ákveðið var að þróa nám fyrir þá sem nú þegar starfa við vöruflutninga.

Landvari gerði því samning við RHA um samantekt námskrár og skipulag námskeiða í flutningafræðslu sem uppfyllti þær menntunarkröfur sem gerðar eru til stjórnenda vöruflutningafyrirtækja samkvæmt gildandi lögum og reglugerð um vöruflutninga á landi. Þeirri vinnu lauk síðasta vor og á liðnu hausti var hafinn undirbúningur að námskeiðahaldinu. Alls verða á Hrafnagili kenndar 40 stundir þar sem áhersla er lögð á lagalegt umhverfi starfsgreinarinnar ásamt rekstrar- og stjórnunarlegum námsþáttum.

Allir félagsmenn Landvara, starfsmenn þeirra og aðrir sem starfað hafa í 5 ár eða lengur við vöruflutninga hafa rétt til þátttöku á námskeiðinu. Samgönguráðuneytið hefur viðurkennt það sem fullgildandi fræðslu fyrir einstaklinga sem vilja öðlast réttindir til að vera skráðir fyrir íslensku flutningaleyfi. Alls taka 20 manns þátt í þessu fyrsta námskeiði og eru þeir víðs vegar af landinu. Kennarar eru m.a. starfsmenn ráðuneyta, Vegagerðar, tryggingafélaga, fjármögnunarfélaga, skattstjóra, Vinnueftirlits, Heilbrigðiseftirlits, Háskólans á Akureyri og Landvara. Næstu námskeið verða í mars og apríl.