Unnið er að því að byggja nýjan grjótvarnargarð sem tengja á við grjótgarð meðfram flotkvínni á athafnarsvæði Stáltaks (Slippstöðvarinnar).
Unnið er að því að byggja nýjan grjótvarnargarð sem tengja á við grjótgarð meðfram flotkvínni á athafnarsvæði Stáltaks (Slippstöðvarinnar).
FRAMKVÆMDIR við nýjan grjótvarnargarð norðan við flotkví Stáltaks (Slippstöðvarinnar) á Akureyri hafa staðið yfir að undanförnu en hugmyndin er að tengja hann við grjótvarnargarð meðfram flotkvínni.

FRAMKVÆMDIR við nýjan grjótvarnargarð norðan við flotkví Stáltaks (Slippstöðvarinnar) á Akureyri hafa staðið yfir að undanförnu en hugmyndin er að tengja hann við grjótvarnargarð meðfram flotkvínni.

Að sögn Harðar Blöndals hafnastjóra Hafnasamlags Norðurlands verður svo fyllt upp innan við grjótgarðinn og fæst þar um 6.500 fermetra land í framtíðinni.

Fyrirhugað er að ráðast í dýpkun í Fiskihöfninni og m.a. verður nefið sem verbúðirnar standa á sunnan slippkantsins fjarlægt og það efni sem til fellur við þá framkvæmd verður notað til uppfyllingar norðan flotkvíarinnar. Hörður sagði að vinnu við garðinn ætti að verða lokið í febrúar á næsta ári en í kjölfarið verður ráðist í dýpkunarframkvæmdir. Hann sagði að ekki væri búið að ráðstafa því landsvæði sem þarna verður til en að einhverjir myndu vafalítið sýna því áhuga þegar framkvæmdinni væri lokið.

Hafnaraðstaðan mun batna mikið

Jafnframt er unnið að því að fylla upp innan við 135 metra langt stálþil sem nýlega var lokið við að reka niður við vesturkant Fiskihafnarinnar. Árið 2002 eru verklok áætluð við Fiskihöfnina en þá verður rekið niður 70 metra langt þil til viðbótar, þekja steypt og unnið við lokafrágang. Viðlegukanturinn við vesturhluta Fiskihafnarinnar verður þá 190 metra langur og dýpi við þilið 9 metrar.

Hörður sagði að við þessar framkvæmdir myndi hafnaraðstaðan batna til mikilla muna og að það væri orðið löngu tímabært. Á þessu svæði er til viðbótar um 170 metra langur viðlegukantur á austurkanti Fiskihafnarinnar og við slippkantinn er 270 metra langur viðlegukantur.