"Andstætt dauðum hljóðfærum þá þarf þetta hljóðfæri, hljómsveitin, að vilja spila," segir Yuri Temirkanov. "Það er alltaf hægt að heyra þegar hljómsveit vill ekki eða hefur ekki ánægju af að spila."
"Andstætt dauðum hljóðfærum þá þarf þetta hljóðfæri, hljómsveitin, að vilja spila," segir Yuri Temirkanov. "Það er alltaf hægt að heyra þegar hljómsveit vill ekki eða hefur ekki ánægju af að spila."
Kákasusbúinn Yuri Temirkanov stjórnar dönsku útvarpshljómsveitinni á tónleikum hennar í Háskólabíói mánudaginn 28. febrúar. Sigrún Davíðsdóttir ræddi við hann um starf hljómsveitarstjórans og heyrði af fyrstu kynnum hans af Íslendingum.

"ÞAÐ er hægt að fyrirgefa hljómsveitarstjórum allt ef þeir hafa gott skopskyn," segir einn hljóðfæraleikaranna í dönsku útvarpshljómsveitinni og lætur fylgja að Yuri Temirkanov hafi afburðagott skopskyn. Ekki svo að skilja að hann sé sítalandi, öðru nær, en hann hefur náðargáfu skopskynsins, að ógleymdri tónlistargáfunni.

Þessi lágvaxni, granni maður hefur líka kvikan glampa í augum þegar hannspjallar um starf sitt með aðstoðarkonu sinni, sem þýðir fyrir hann, því enskan er honum ekki fulltöm. Hann er klæddur svartri, víðri skyrtu, sem er girt ofan í gráar buxur og í mjúkum brúnum jakka. Á litla fingri hægri handar glampar á fínlegan demantshring. Klæðnaðurinn er á lágu nótunum og sama er um látbragð hans, en undir fáguðu og rólegu yfirborði er auðvelt að grilla í kraftinn, sem þarf til að koma stórum tónverkum til skila.

Auk þess að vera fyrsti gestastjórnandi dönsku útvarpshljómsveitarinnar er hann aðalstjórandi fílharmóníunnar í Sankti Pétursborg. Hann var þrettán ára er hann fluttist þangað til að fara í nám, en fram að því hafði hann alist upp í Kákasus, þar sem fæstir töluðu rússnesku. Hann hefur enn sterkar taugar til æskustöðvanna, en er jafn heimavanur í Sankti Pétursborg.

Að skapa velvilja svo tónlistin geti sprottið fram

Það má líta á hljómsveit sem nokkurs konar hljóðfæri, sem stjórnandinn spilar á. En hvað skyldi þurfa til að fá svo öflugt hljóðfæri til að spila?

"Andstætt dauðum hljóðfærum þarf þetta hljóðfæri, hljómsveitin, að vilja spila," segir Temirkanov. "Það er alltaf hægt að heyra þegar hljómsveit vill ekki eða hefur ekki ánægju af að spila. Þegar svo er, vinnur hljómsveitin bara sitt verk, spilar nóturnar, en úr því verður engin tónlist."

En hvað er það sem blæs hljómsveitinni í brjóst þessa löngun til að spila og hæfileikann til að skapa tónlist?

"Það veit enginn. Það er ekki hægt að útskýra. Það er bara stundum sem það tekst ekki. Það kemst ekkert samband á, án þess að maður skilji af hverju, og það verður engin tónlist."

En eftir að hafa talað við hljómsveitarmeðlimina í dönsku útvarpshljómsveitinni má skilja að þú eigir ekki við þennan vanda að etja.

"Þetta getur alltaf gerst. Stundum er þetta undir efnisskránni komið. Ef hún er tæknilega mjög erfið geta tónlistarmennirnir ósjálfrátt skellt skuldinni á stjórnandann, þótt það sé nú ekki hann sem hafi samið tónlistina. Það getur verið erfitt að komast yfir slíkan hjalla, en ef manni tekst að skapa velvilja í hljómsveitinni í sinn garð, getur hljómsveitin kannski gleymt erfiðleikunum og sigrast á þeim og tónlistin þá sprottið fram."

Orð duga ekki til að skýra tónlist

Þú gerir ekki mikið af því að tala við hljómsveitina, heldur sýnir henni hverju þú sækist eftir, ekki satt?

"Jú, mér fellur ekki að tala mikið. Það hefur ekkert að gera með tungumálaerfiðleika, heldur af því að því minna sem maður talar, því meira sýnir maður og það skapar meiri skilning og betri árangur.

Í fyrsta lagi vita hljóðfæraleikararnir oftast fyrirfram hvað stjórnandinn hefur að segja. Í öðru lagi er ekki hægt að nota orð til að útskýra tónlist. Orðin geta aldrei orðið annað en málamiðlun, því tónlist er annað tungumál en orðin."

Hvernig sýnirðu hljómsveitinni hverju þú sækist eftir?

"Með höndunum. Það er undarlegt starf að stjórna hljómsveit. Þegar á að kenna hljómsveitarstjórnun hvernig á þá að kenna að segja hljómsveit hvernig hún eigi að spila? Tónlist er hugarástand, sem ekki er hægt að yfirfæra í orð. En á einhvern hátt er hægt að koma þessum skilningi til skila með því að nota hendurnar."

Og svo notarðu skopskynið er sagt.

"Það er ekki hægt að lifa af í Rússlandi án þess að hafa skopskyn. Sá sem er þar án skopskyns ferst. Skopskyn er eins og lyf. Ekki svo að skilja að allir séu glaðlegir í Rússlandi. Langflestir eru heldur þungbúnir og það skil ég líka vel. Það er ekki hægt að áfellast þá fyrir það því þar er ekki margt að gleðjast yfir. En það er heldur ekkert nýtt. Þannig hefur það lengi verið."

Hver hljómsveit hefur sín einkenni

Það er gjarnan sagt að hver hljómsveit hafi sín einkenni og sína eiginleika. Hvaða eiginleika hefur danska útvarpshljómsveitin?

"Hún hefur skopskyn og þá á ég ekki við að menn séu sífellt að gera að gamni sínu, heldur bara að hún hefur þennan skilning og það skiptir miklu máli. Hljómsveitin felur í sér mikla möguleika og hefur til að bera gífurlega fagkunnáttu. Og svo vill hún spila vel, sem er mjög mikilvægt."

Og hvað með hljómsveitina í Sankti Pétursborg?

"Hún er elsta starfandi hljómsveitin í Rússlandi og ber með sér dásamlegar hefðir og sögu. Þarna hafa þeir allir verið, Tjækovskí, Glasunov, Mahler, Stravinskí, Klemperer og Furtwängler. Auðvitað hafa orðið kynslóðaskipti í hljómsveitinni en á einhvern undarlegan hátt er eins og þessi áhrif erfist, liggi í erfðaefni hljómsveitarinnar ef svo má segja.

Maður skynjar þessa fortíð á einhvern hátt. Strengjahljómurinn er til dæmis mjög skýr og sérstakur. Undanfarna hálfa öld hefur hljómsveitin verið þjálfuð með nánast hernaðarlegri nákvæmni."

Hefðir geta verið til góðs og ills. Eru engar slæmar hefðir sem flækjast fyrir þessari sögufrægu hljómsveit?

"Nú nefndi ég aðeins góðu hefðirnar, en auðvitað eru slæmar hefðir einnig til þar. Verkefni mitt er að halda þeim góðu við lýði en losna við þær slæmu.

Hljómsveitin var í upphafi hrædd við stjórnandann, því þannig hafði henni verið stjórnað. Það var tvennt, sem hún var hrædd við: Stjórnandann og dauðann... og það var hægt að heyra þennan ótta á tónlistarflutningi hennar. En það er ekki hægt að skapa neitt ef hræðslan er stöðugt ráðandi.

Ég vil gjarnan breyta sálarástandi hljómsveitarinnar og held mér hafi tekist það. Ég lít ekki á hljómsveitina sem undirmenn mína, heldur samstarfsmenn, sem taka þátt í tónlistarsköpuninni með mér. Hljómsveitin þarf að vilja spila.

Tæknilega er Pétursborgar-fílharmónían alveg fullkomin, gædd ótrúlegum hæfileikum. Hún er eins og fullkomin vél, eins og best verður á kosið tæknilega. Ég er kannski einfaldur, en ég held að list sé annað en vel smurð vél. Án gleði er tónlistin dauð."

Beitirðu einnig skopskyninu á Pétursborgar-fílharmóníuna?

"Já, en annars konar skopskyni en á þá dönsku. Púshkin hefur sagt að það sé gáfnamerki að þekkja þann sem rætt er við til að geta ákveðið hvers konar skopskyn megi beita á viðkomandi. Í byrjun gerði ég eiginlega alls ekki að gamni mínu við fílharmóníuna, því hljóðfæraleikararnir hefðu ekki skilið það. Núna get ég það og þeir hafa smám saman lært að taka því."

Þú ferðast einnig um og stjórnar. Hvernig kemurðu að nýjum hljómsveitum?

"Í upphafi vita hljóðfæraleikarar yfirleitt meira um stjórnandann en hann um þá og vita nokkurn veginn hverju þeir eiga von á. Það tekur stjórnandann svo nokkrar mínútur að átta sig á hvernig hljómsveitin er og svo er að aðlagast því.

Þetta er svona eins og að meta íþróttamann. Það eru þeir sem stökkva tvo metra og þeir sem stökkva 2,15. Svo er að ná sem mestu út úr fólki, þoka fólki áfram, ýta við þeim sem komast aðeins 2 metra, en líka að sætta sig við takmarkanirnar og nýta það sem er fyrir hendi."

Áheyrendur endurspegla þjóðirnar

Hvað með viðfangsefni, áttu þér einhver sérstök uppáhalds viðfangsefni?

"Sá sem aðeins hlustar á tónlist getur haft ákveðnar skoðanir á hvað honum falli í geð og hvað ekki," segir Temirkanov eftir smáumhugsun. "Sá sem er atvinnumaður í tónlist getur ekki látið slíkt eftir sér, en vissulega getur manni fundist sum tónlist standa manni nær en önnur og að maður hafi betri skilning á sumum verkum en öðrum. En það væri ekki hægt annað en að vorkenna áheyrendum, sem þyrftu að sitja undir flutningi stjórnanda, sem ekki væri hrifinn af tónlistinni, sem hann stýrði flutningi á."

Hvað með tengsl þín við rússneska tónlist?

"Þótt ég virðist Rússi í augum útlendinga, er ég ekki Rússi. Það búa margar þjóðir í fyrrum Sovétríkjunum og ég kem frá Kákasus, er Tjerkassi. Þangað til ég var þrettán ára bjó ég ekki innan um rússneskumælandi fólk, en flutti þá til Leníngrad og lærði þar.

Rússnesk tónlist er mér því ekki nánari en önnur tónlist þótt hún sér mér sálarlega kunnugleg. Kákasus er heima í mínum huga og þar á ég enn ættingja, en annars er erfitt að segja. Ég er einnig tengdur Sankti Pétursborg."

Það er stundum sagt að Rússar séu aldrei hamingjusamir ef þeir búa erlendis, heldur alltaf haldnir heimþrá. Geturðu tekið undir það?

"Í þessu felst undarlegur þáttur sem er að Rússar, sem áður fluttu í burtu, áttu ekki afturkvæmt og það skapaði þessa áköfu þrá eftir Rússlandi. Nú geta Rússar erlendis hins vegar farið aftur til baka ef þeim sýnist svo og verða því eins og aðrir sem flytja burtu. En ég held að flestir sem flytjast brott úr heimahögunum hafi til þeirra einhverjar taugar."

Nú ferðu ekki aðeins á milli hljómsveita heldur einnig landa. Finnurðu mun á áheyrendum eftir löndum?

"Hvert land hefur eitthvað sérstakt við sig og það endurspeglast í áheyrendum, þótt það sé ekki spurning um betri eða verri þjóðir. Sumir áheyrendur eru kaldir, aðrir frábrugðnir, eins og Japanir, sem hafa sinn háttinn á, jafnvel í því hvernig þeir klappa. Þeir eru vingjarnlegir og ákafir að skilja.

Ég nefni engin nöfn, en í Evrópu eru þjóðir, sem finnst að þær viti allt og séu að gera greiða með því að hlusta. "Lát heyra hvað þú getur" er afstaðan, sem geislar frá þeim. Ég tek eftir þessu, en það hefur engin sérstök áhrif á mig. Þetta er svona rétt eins og maður getur þurft að eiga skipti við margvíslegt fólk, sem er ekki allt jafnskemmtilegt.

Þegar ég var ungur hélt ég að allir Norðurlandabúar væru fjarlægir og inn á við, en ég hef nú lært að það er aðeins á yfirborðinu. Það er auðvelt að nálgast þá, þeir eru vingjarnlegir og þakklátir fyrir það sem fyrir þá er gert. Vingjarnlegri en Sankti Pétursborgarbúar. Þar má enn finna á íbúunum að borgin var keisaraborg, þótt sá tími sé löngu liðinn.

Íslandsferðin er fyrsta ferðin mín þangað og ég hlakka mikið til. Ég hef heyrt svo mikið af Íslendingum, því ég átti íslenskan skólabróður í Leníngrad, Snorra Þorvaldsson, sem nú býr í Stokkhólmi, fjarska viðkunnanlegur og geðþekkur maður. Í augum okkar var hann mjög mikill útlendingur, því á þessum tíma sáust varla útlendingar í Leníngrad.

Eitt sinn kom skip frá Íslandi til Leníngrad og Snorri fékk þá sendingu af alls konar fiski, saltfiski, reyktum fiski, harðfiski og ferskum fiski. Snorri bauð mér í mat og ég hef aldrei á ævinni séð svona mikið af fiski, en því miður er ég með ofnæmi fyrir fiski, svo þetta var ekki svo ánægjulegt fyrir mig," rifjar Temirkanov upp með hlátursglampa í augunum. Nú hlakkar hann til að komast í skoðunarferð um Þingvöll, Gullfoss og Geysi áður en haldið verður áfram vestur um haf.