RÍKIÐ hefur afskrifað tæplega 19 milljarða króna af skattskuldum frá og með árinu 1995 til og með 1998 og gert er ráð fyrir að afskriftir ársins 1999 verði 3,9 milljarðar króna. Á fimm ára tímabili verða því afskrifaðar 22.895 milljónir króna, eða 4.

RÍKIÐ hefur afskrifað tæplega 19 milljarða króna af skattskuldum frá og með árinu 1995 til og með 1998 og gert er ráð fyrir að afskriftir ársins 1999 verði 3,9 milljarðar króna. Á fimm ára tímabili verða því afskrifaðar 22.895 milljónir króna, eða 4.579 milljónir króna á ári. Þetta kemur fram í svari Geirs Haarde fjármálaráðherra við fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur alþingismanns.

Fram kemur í svarinu að þessar fjárhæðir beri að skoða í því ljósi að afskriftirnar eru bókfærðar óháð því hvort þær eru lagðar á samkvæmt framtali gjaldandans eða áætlun skattstjóra. Ákveðin hætta er því á ofmati tekna hjá ríkissjóði því að skattstjórum ber samkvæmt lögum að áætla á gjaldendur, sem ekki skila framtali, tekjur og eignir svo ríflega að eigi sé hætt við að fjárhæðir séu áætlaðar lægri en þær eru í raun og veru. Þá eru dráttarvextir af afskriftum fyrir árin 1995-1998 tæpir 9,4 milljarðar króna, eða tæpur helmingur af heildarafskriftum á þessu tímabili.

Morgunblaðið leitaði upplýsinga hjá Tollstjóraembættinu og Skattstjóranum í Reykjavík um hve stórt hlutfall af afskrifuðum skattskuldum væri vegna áætlana á gjaldendur. Hvorugt embættið hefur svör við því og svo virðist sem nákvæm sundurliðun á því sé ekki til.