The Cure
The Cure
THE CURE telst jafnan með helstu hljómsveitum Breta og hefur verið svo í á þriðja áratug. Fyrir stuttu kom út platan Bloodflowers, sem sumir gera því skóna að sé síðasta skífa sveitarinnar.

Höfuðpaur Cure er Robert Smith, gítarleikari og söngvari, sem semur lög og texta, útsetur og stýrir upptökum og á það til að leika á nærfellt öll hljóðfæri sjálfur. Sterkur persónuleiki hans skín ævinlega í gegn og hann er andlit hljómsveitarinnar, svartklæddur, hvítfarðaður með túberað hárið og varalit út á kinn.

Þó Robert Smith hafi fengist við sitthvað undanfarin ár hefur lítið af nýju efni heyrst frá Cure síðan breiðskífan Wild Mood Swings kom út fyrir fjórum árum. Í millitíðinni kom reyndar út smáskífusafn með einu nýju lagi, en haustið 1998 hófst vinna við nýja breiðskífu þegar Robert Smith kallaði til liðs við sig félagana og setti þeim fyrir. Heimildir herma að hann hafi leikið á nánast allt sjálfur, en fengið þá Simon Gallup, Perry Bamonte, Jason Cooper og Roger O'Donnell til að leggja sér til hráefni sem hann síðan moðaði úr.

Platan hefur fegið misjafna dóma en almennt jákvæða, og flestir sjá samhengið milli platnanna þriggja, þó fæstir fallist á að nýja skífan sé sú besta; tíminn hefur gert Pornography og Disintegration að meiri meistaraverkum en mönnum þótti á sínum tíma.

Eins og getið er sjá margir þau teikn á lofti að Bloodflowers sé síðasta skífa Cure, en í ljósi þess hvernig tónlist hljómsveitarinnar hefur orðið til hingað til er þess varla að vænta að það skipti miklu máli þó Smith leggi nafninu.