HÆSTIRÉTTUR segir engan lagagrundvöll fyrir því að leiguliði jarðar geti litið á greiðslumark lögbýlis, sem hann hefur haft í ábúð, sem eign sína í lok ábúðar.

HÆSTIRÉTTUR segir engan lagagrundvöll fyrir því að leiguliði jarðar geti litið á greiðslumark lögbýlis, sem hann hefur haft í ábúð, sem eign sína í lok ábúðar.

Í mars 1996 sögðu leiguliðar ríkisjarðar upp ábúð á jörðinni og óskuðu eftir úttekt á henni ásamt fjárhagslegu mati á eignarhluta í mannvirkjum. Í uppsögninni var jafnframt gerður fyrirvari um að viðurkennt yrði að greiðslumark jarðarinnar í mjólk skiptist á milli eigenda hennar í sömu hlutföllum og eignin skiptist samkvæmt fasteignamati. Landbúnaðarráðuneytið féllst á uppsögnina, en hafnaði sjónarmiðum um skiptingu greiðslumarksins.

Ábúendurnir keyptu jörðina, með fyrirvara vegna uppgjörs greiðslumarksins. Höfðaði annar þeirra mál þar sem hann krafðist annars vegar viðurkenningar á eignarrétti á greiðslumarki jarðarinnar og hins vegar greiðslu andvirðis greiðslumarksins, en til vara að hann ætti rúmlega helming greiðslumarksins, í samræmi við það að hann hefði átt rúmlega helming jarðarinnar er hinn hlutinn var gefinn ríkissjóði. Hæstiréttur taldi ábúandann ekki hafa lögvarða hagsmuni af því að fá eignarréttarkröfurnar teknar til umfjöllunar og var þeim vísað frá héraðsdómi.

Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að greiðslumark væri bundið við lögbýli og framleiðslu á því og fylgdi lögbýlinu við eigenda- eða ábúendaskipti. Því væri enginn lagagrundvöllur fyrir því að leiguliði gæti litið á greiðslumark lögbýlis, sem hann hefur haft í ábúð, sem eign sína í lok ábúðar. Var íslenska ríkið sýknað af kröfum um greiðslu andvirðis greiðslumarksins.

Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu á síðasta ári, að sá ábúendanna, sem höfðaði málið, ætti rúma 8 þúsund lítra af rúmlega 136 þúsund lítra greiðslumarki jarðarinnar. Hæstiréttur féllst hins vegar ekki á að ábúandinn hefði verið eigandi að 12 ha spildu af jörðinni, heldur hefði verið um að ræða yfirfærslu á ræktun spildunnar frá fyrri jarðeiganda, en ekki á grunneignarrétti.

Hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson, Hjörtur Torfason, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein dæmdu málið. Hjörtur skilaði sératkvæði og vildi fallast á það sjónarmið að ríkissjóður gæti sem landsdrottinn með engu móti talið til eignarumráða yfir framleiðsluheimildunum nema að því marki, sem þær yrðu raktar til hins fyrri eiganda, er gaf ríkissjóði jörðina og skipaði ábúanda í stöðu leiguliða með þeirri ráðstöfun. Af því leiddi, að telja yrði hið umdeilda greiðslumark tilheyra ábúandanum að helmingi eða meiru.