[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
HINN 11. febrúar síðastliðinn sá ég í fréttablaði allra landsmanna grein sem mér fannst afar merkileg og í tíma töluð. Það var grein sem fjallaði um nauðsyn þess að gera átak í landgræðslu. Þessi grein er mér innblástur um frekari umfjöllun um málið.

HINN 11. febrúar síðastliðinn sá ég í fréttablaði allra landsmanna grein sem mér fannst afar merkileg og í tíma töluð. Það var grein sem fjallaði um nauðsyn þess að gera átak í landgræðslu. Þessi grein er mér innblástur um frekari umfjöllun um málið.

Hvað er það í Íslendingum sem gerir það svo almennt að fólk sér ekki nauðsyn á að veita fé í hluti sem ekki gefa beinan arð og þá helst í gær? Dæmi um þetta er landgræðslan og íslenskt skólakerfi.

Eru menn svo blindir að sjá ekki lengra en nef þeirra nær? Hvað með "framhaldslíf" á þessu landi? Komandi kynslóðir eiga rétt á því að sjá landið eins og það var. Var, segi ég, því allir þeir sem ferðast á Íslandi og hafa gert það síðastliðin tíu ár sjá greinilegan mun til hins verra, svo ekki sé litið til lengri tíma, því þá væri munurinn enn meiri. Hvernig stendur svo á því að svona er komið? Ekki eru allir sammála um það. Eitt er víst að ástæðan er ekki ein heldur margar og finna ber flestar þeirra og ráðast gegn þeim á skipulegan hátt. Það er ekki nóg að láta orð flæða, þó svo að orð séu til alls fyrst, því það þarf að gera eitthvað vitrænt. Ekki bara slá sér upp á fögrum yfirlýsingum og snúa sér síðan að hvernig verðbréfin standi þá stundina og gleyma yfirlýsingunum.

Staða okkar er nefnilega svo slæm að þó svo að við legðum okkur öll fram dygði það rétt til að halda í horfinu. Gerið þið ykkur, lesendur góðir, grein fyrir þessu? Fjármagn og aðferðir eru því það sem við verðum að einbeita okkur að.

Íslenskir bændur eru ágætir og merkilegt hvað þeir hafa margir haldið út, en allir þeir bændur sem ég þekki hafa meira en nóg að gera við að halda lífinu í sjálfum sér, hvað þá að stunda einhverja markvissa uppgræðslu á örfoka landi. Ekki ætla ég að alhæfa í þessu efni, því nokkur dæmi eru um mikinn myndarskap í landgræðslu hjá nokkrum bændum. Því miður er það bara langt frá því að vera nóg. Þetta tek ég fram af því að bændur fá á hverju ári fjármagn til landgræðslu. Það má að mínu mati því spyrja hvort það sé rétt stýring fjármagns.

Það hefur komið í ljós undanfarin ár að sáning fræs úr lofti, þ.e.a.s. með flugvélum, er ekki eins árangursrík og sáning á jörðu niðri, sem liggur reyndar í hlutarins eðli. Þær fullkomnu sáðvélar sem nú fást afkasta mjög miklu. Sjást dæmi þess á söndunum á Suðurlandi og víðar. Betur væri ef við hefðum heilu flokkana af dráttarvélum með slíkar sáðvélar í eftirdragi sem ynnu allt sumarið að sáningu. Þá færi e.t.v. að verða mögulegt að tala um árangur og uppbyggingu. Er ekki upplagt að gefa æskunni (borgaræskunni) kost á vinnu við þetta á sumrin? Oft hefur vantað vinnu handa þessu annars duglega fóki. Ég er viss um að þeir einstaklingar sem ynnu við þetta færu að líta landið "verðmætari" augum en áður, sem síðar mundi erfast til niðja þeirra.

Fjármagn, fjármagn, jú ég geri mér grein fyrir kostnaði. Ef við teljum okkur ekki geta gert þetta ein og óstudd þá er nauðsynin svo mikil að leita ber út fyrir landsteinana að fjármagni. Hvað með Evrópusambandið, Sameinuðu þjóðirnar? Já, er ekki tími til kominn að verðandi eyðimörk fái stuðning? Ég bara spyr.

Ekki er svo nægilegt að sá, það þarf að hlúa að og bera á. Þá er komið að þætti flugsins, sem er ómetanlegur þegar um slíkt er að ræða. Afkastageta flugvéla í slíkri vinnu er ótrúleg. Reyndar er líka nauðsynlegt að nota flug við sáningu þar sem öðrum tækjum verður ekki við komið, en krónur, dollarar, evrur eða hvað sem það nú heitir þarf.

Ráðamenn, hvar í flokki sem þið eruð; opnið nú augun og sjáið verðmæti í fleiru en verðbréfum, álverum og virkjunum, þau eru til. Það er nefnilega svolítið glannalegt að stíla eingöngu á svo bersýnilega hluti til atkvæðaveiða eftir hvert kjörtímabil að ekki sjáist neitt annað að benda á fyrir kjósendur.

Takið ykkur nú tak.

TF-Páll Sveinsson, landgræðsluflugvélin okkar, vorboðinn ljúfi, er rétt að komast á atvinnuleysisbætur.

Segið þið mér endilega, hvað á þetta að þýða?

GUNNAR P. PÁLSSON,

Salthömrum 3, Rvk.

Frá Gunnari B. Pálssyni: