AÐ MINNSTA kosti 45 manns, þeirra á meðal börn, biðu bana og 35 særðust þegar tímasprengjur sprungu í tveim rútum um borð í filippeyskri ferju við strönd Mindanao á föstudag.

AÐ MINNSTA kosti 45 manns, þeirra á meðal börn, biðu bana og 35 særðust þegar tímasprengjur sprungu í tveim rútum um borð í filippeyskri ferju við strönd Mindanao á föstudag. Sprengjusérfræðingum tókst að aftengja í tæka tíð sprengju sem hafði verið komið fyrir í enn einni rútu er ók á sömu leið en í gærmorgun var kveikt í fjórðu rútunni í grennd við borgina Davao. Er talið að þar hafi verið á ferð hryðjuverkamenn kommúnista. Önnur af tveim þyrlum sem sendar voru á vettvang til að ná í slasaða úr ferjunni hrapaði í gærmorgun en ekki varð manntjón.

Eldur blossaði upp í ferjunni, Our Lady of Mediatrix, þegar sprengjurnar sprungu. Þær voru svo öflugar að þak annarrar rútunnar splundraðist og farþegar þeyttust út úr henni. Farþegar ferjunnar urðu skelfingu lostnir og nokkrir þeirra stukku í sjóinn.

Lögreglan sagði að sprengjurnar hefðu verið faldar í farangri í rútunum. Þær sprungu þegar ferjan var að leggjast að bryggju í bænum Ozamis á Mindanao en þar hefur árum saman ríkt skálmöld vegna vopnaðra átaka hersins við uppreisnarmenn múslima og kommúnista.

Samgöngufyrirtæki beitt fjárkúgunum?

Narciso Abaya, yfirhershöfðingi Filippseyja, sagði að grunur léki á að liðsmenn uppreisnarsamtaka múslima, MILF, sem hefðu beitt samgöngufyrirtæki fjárkúgunum, hefðu verið að verki á ferjunni.

Talsmaður MILF vísaði ásökununum á bug. "Stríðsmenn MILF ráðast ekki á óbreytta borgara," sagði talsmaðurinn, Sharif Julabbi. Um 15.000 manns eru í samtökunum sem hafa í rúma tvo áratugi barist fyrir því að stofnað verði sérstakt ríki múslima á suðurhluta eyjarinnar en flestir Filippseyingar eru kaþólskir. Nýlega náði her landsins á sitt vald stærstu þjálfunarbúðum múslimasamtakanna en friðarviðræður eru fyrirhugaðar í byrjun mars.

Fyrirhugað var að Joseph Estrada, forseti Filippseyja, færi í opinbera heimsókn til Mindanao um helgina.

Iligan á Filippseyjum. AFP.