RANNSÓKN vísindamanna á vegum ölgerðarinnar Guinness hefur leitt í ljós að rúmlega 80.000 lítrar af bjór fara til spillis á ári hverju í skeggi breskra drykkjumanna, að sögn írska dagblaðsins The Irish Times .

RANNSÓKN vísindamanna á vegum ölgerðarinnar Guinness hefur leitt í ljós að rúmlega 80.000 lítrar af bjór fara til spillis á ári hverju í skeggi breskra drykkjumanna, að sögn írska dagblaðsins The Irish Times. Blaðið segir að þetta kosti skeggjaða bjórdrykkjumenn í Bretlandi 423.000 pund, andvirði rúmra 48 milljóna króna, á ári.

Sérfræðingar segja að rýrnunin sé mismikil eftir lögun, lengd og þéttleika skeggsins. Svokallað "rostungsskegg" sé sennilega verst að þessu leyti og að jafnaði verði það til þess að bjór fyrir andvirði 3.100 króna fari til spillis á ári hverju.

Vísindamenn, sem eru að hanna flösku fyrir Guinness-tunnubjór, tóku eftir þessari sóun og fengu dr. Robin Dover, einn af virtustu skeggfræðingum Bretlands, til að rannsaka umfang hennar til hlítar.

Guinness áætlar að 92.370 bjórdrykkjumenn í Bretlandi séu með skegg og drekki að meðaltali um 90 lítra á ári, að sögn The Irish Times.