Í fljótu bragði, skrifar Jóhanna Kristjónsdóttir, hefur ekki ýkja margt breyst í Damaskus síðan hún var þar í maílok. Og þó: nú spranga menn í fullu leyfi með gemsa við eyrað út og suður.

ÞAÐ má líka merkja á ýmsu að fjarskiptum fleygir fram hér á landi og mun ugglaust verða framhald á. Mörg fyrirtæki hafa nú tölvupóst og jafnvel er hægt að fá aðgang að Neti ef menn eru trúverðugir. Því er spáð að Sýrland standi innan tíðar jafnfætis öðrum löndum hér í þessum hluta heims hvað þetta varðar en óneitanlega hafa þeir verið duggulítið aftarlega á merinni af skiljanlegum stjórnmálalegum ástæðum.

Eftir ég byrjaði fyrir alvöru í arabískunni hefur lífið fengið annan svip og annað föruneyti. Einhverra hluta vegna urðu bæði ég og kennarinn minn dálítið undrandi yfir því hvað mér hafði tekist að muna margt frá því í maílok í fyrra og það sannar bara enn og aftur að skammtímaminnið blívur nokk ef maður er nægilega samviskusamur í því sem er við að fást.

Að vísu finn ég að ég hef ryðgað töluvert í skriftinni en að öðru leyti er ég með sjálfstraustið í þokkalegasta lagi.

Á hinn bóginn verður að segjast eins og er að það hrekkur ekki mjög langt að segja að ég sé frá Íslandi. Einhverra hluta vegna kannast allir við Írland og eru yfir sig ánægðir að hitta manneskju frá þeirri græni eyju. Og ég lít ekki beinlínis á það sem svik að segjast vera frá Írlandi: þegar öllu er á botninn hvolft er skyldleikinn óumdeilanlegur og margir Íslendingar hafa stært sig ekki síður af því að hafa írskt blóð í æðum. Eða svo hefur mér virst.

Ég finn líka að mér gengur bara ljómandi vel í þeirri list að þrasa við leigubílstjórana og þeir fara nú senn að gefast upp á að reyna að plata mig. Það segir heilmikla sögu: þótt ég sé ekki fleyg og fær í amía - sýrlensku mállýskunni - hef ég þó náð tökum á helstu yfirlýsingum sem koma að gagni í daglegu máli.

Það hefur hlýnað hér ótrúlega mikið allra síðustu daga, en ekki er á það að treysta: febrúar er viðsjárverður mánuður hér og engin ástæða til að loka flíspeysuna inni í skáp.

Ég skrapp mér til skemmtunar og fróðleiks á innflytjendaskrifstofuna í morgun til að ná í vegabréfið mitt sem hafði verið þar í nokkra daga til athugunar. Það segir kannski sína sögu um hversu fáir útlendingar leggja leið sína - því miður - til lengri dvalar en tveggja vikna eða svo að þeir sögðust ekki veita mér lengri dvalartíma en mánuð nema ég færði þeim íslensk frímerki eins og í fyrra. Mikið fannst mér það notalegt að vera svona alþekkt. Og vona nú að mér berist í stríðum straumum bréf með íslenskum frímerkjum svo ég þurfi ekki að fara héðan eftir mánuð.

Eftir að símasnillingurinn fannst eftir langa og mikla leit og mæðu vantar nú annan mann með sérstaka hæfileika. Prentarinn minn þarf mjög athyglisverða umönnun til að hann sinni störfum sínum því hann "strækar" gersamlega á að prenta út meira en 3-4 línur í einu. Svo bíð ég í klukkutíma og þá er hann til í næstu þrjár línur. Þessu má vitaskuld venjast eins og öðru og meðan maðurinn sem veit allt um prentara - og mér skilst að hann sé til en kannski ekki staddur í bænum í bili - þá hef ég bara þennan hátt á. En þessu fylgir óneitanlega veruleg pappírsnotkun.