Leikstjóri: Paul Marcus. Handrit: Anne Amanda Opotowski. Aðalhlutverk: Bridget Fonda, Kiefer Sutherland, Steven Weber, Penelope Ann Miller, Tippi Hedren, Hart Bochner. (101 mín) Bandaríkin. Myndform, 1998. Bönnuð börnum innan 16 ára.

Í PRÝÐILEGRI upphafssenu Sambandsslita sofa Jimmy Dade (Bridget Fonda) og eiginmaður hennar Frank (Hart Bochner) saman eins og ásfangið par, en stuttu síðar er sú mynd af hjónabandinu eyðilögð þegar Frank gengur í skrokk á Jimmy. Frank er drykkfelldur og algjör aumingi og lætur reiði sína bitna oftar en ekki á Jimmy, sem hefur eftir ítrekaðar barsmíðar Franks misst heyrnina. Einn daginn gengur Frank yfir strikið og Jimmy lendir á spítala meðvitundarlaus. Þegar hún rankar við sér fréttir hún að Frank sé dauður og hún liggi undir grun. En Jimmy finnst dauði Franks grunsamlegur og ákveður að rannsaka hann upp á eigin spýtur.

Eftir prýðilega byrjun verður þessi mynd út í hverja klisjuna á fætur annarri, það mætti segja að þetta sé lítil útgáfa af "Double Jeopardy", sem reyndar er mun verri mynd. Það fær engin persóna að þróast nægilega mikið fyrir utan rannsóknarlögreglumann sem leikin er af Steven Weber en hlutverk Webers er það bitastæðasta í myndinni því persóna hans er margræð og þarf að fást við margar erfiðar spurningar, sem verða til þess að hún er komin á allt annan stað en hún var í upphafi myndarinnar.

Ottó Geir Borg