Sigrún Viðarsdóttir
Sigrún Viðarsdóttir
HEFUR þú skoðanir á málunum en ekki nema örfáir eða færri fá að heyra þær? Hver kannast ekki við það að hafa skoðun á málunum í vinnunni, á húsfélagsfundunum, í skólanum, í veislum, á kjarafundum o.fl.

HEFUR þú skoðanir á málunum en ekki nema örfáir eða færri fá að heyra þær? Hver kannast ekki við það að hafa skoðun á málunum í vinnunni, á húsfélagsfundunum, í skólanum, í veislum, á kjarafundum o.fl. en þora ekki að láta þær í ljós vegna; lítils sjálfstrausts, feimni, ótta eða hvað það er sem hindrar manneskjuna í að hafa áhrif á málin?

Fólk getur öðlast þetta sjálfstraust með því að gerast félagar í Junior Chamber-hreyfingunni, sækja námskeiðin og vinna í nefndum. Komdu í JC Reykjavík og lærðu að koma fram, láta í þér heyra og vera stolt(ur) af því.

Junior Chamber er alþjóðlegur félagsskapur fyrir ungt fólk frá aldrinum 18-40 ára. Tilgangurinn með honum er að þroska og þjálfa fólk í mannlegum samskiptum, framkomu, ræðumennsku og stjórnun.

Í boði eru fjöldamörg námskeið sem stuðla að framangreindri þróun og má þá nefna Ræðu 1, sem er sex vikna grunnnámskeið í ræðumennsku. Aðildarfélögin hér á landi eru fjórtán og stefnir í 300 félaga. Hátt í 400 þúsund félagar í 123 þjóðlöndum spanna þessa hreyfingu og má þá nefna heimsþekkta félaga sem stigu þar sín fyrstu spor á framabrautinni, þá Bill Clinton, John F. Kennedy, Karl Gústaf Svíakonung, Nixon o.fl.

Fjörutíu ár eru liðin síðan JC-hreyfingin varð til hér á landi en hún á afmæli í sept. nk. og verður væntanlega haldið upp á það með pomp og prakt. Það er liðið eitt og hálft ár síðan ég gekk í JC Reykavík. Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar. Hjá mér var það tilgangurinn að vinna bug á feimni, kynnast sjálfri mér, öðru nýju fólki og kanna hvað í mér býr. Árangurinn lét ekki á sér standa. Ég var logandi smeyk en vissi innra með mér að það var að "hrökkva eða stökkva". Ég valdi seinni kostinn. Þátttaka mín hófst á áðurnefndu námskeiði, Ræðu 1, og ég fann hvað "pontukvíðinn" rénaði smám saman og ég uppgötvaði hlið á mér sem vildi ólm fá að tjá sig fyrir framan fjöldann. Einnig öðlaðist ég kjark til að lesa ljóðin mín opinberlega en þau hafði ég eingöngu haft fyrir sjálfa mig.

Eftir Ræðu 1 tóku við störf hjá rit- og skemmtinefndinni þar sem skálda- og skemmtigyðjurnar fengu að njóta sín. Þar reyndi á samstarf með öðrum, greinaskriftir og viðtöl svo eitthvað sé nefnt.

Þegar til þess kom að mynda nýja stjórn fyrir starfsárið 1999-2000 ákvað ég að bjóða mig fram í varaforsetaembættið. Auðvitað var ég kvíðin og áhyggjufull um að ég stæði mig ekki en allar þessar áhyggjur reyndust óþarfar því ég fékk góðan stuðning og hvatningu frá félögum mínum í stjórninni og þá sérstaklega forsetanum. Í ljós hefur komið mikill metnaður og áhugi hjá undirritaðri og tel ég það JC-hreyfingunni að þakka að hafa gefið mér þetta tækifæri.

Ágætu lesendur. Nk. þriðjudags- og miðvikudagskvöld, hinn 29. feb. og 1. mars, ætlar kynningarnefnd JC Reykjavíkur að vera með átak í kynningarmálunum í Hellusundi 3 (í Þingholtunum) frá kl. 20-21.30. Því ekki að grípa tækifærið og mæta til okkar í létt spjall og heitan kaffisopa og kynna sér félag þar sem allir eru jafnir án tillits til menntunar, trúar eða stjórnmálaskoðana?

SIGRÚN VIÐARSDÓTTIR,

varaforseti með svið stjórnunar.

Sigrún Viðarsdóttir skrifar: