Björn Steinar Sólbergsson leikur á orgel í Hallgrímskirkju í dag.
Björn Steinar Sólbergsson leikur á orgel í Hallgrímskirkju í dag.
LISTVINAFÉLAG Hallgrímskirkju gengst fyrir orgeltónleikum í dag, sunnudag, kl. 17. Þá leikur organisti Akureyrarkirkju, Björn Steinar Sólbergsson, orgeltónlist eftir J.S. Bach, Pál Ísólfsson og Jón Leifs.

LISTVINAFÉLAG Hallgrímskirkju gengst fyrir orgeltónleikum í dag, sunnudag, kl. 17. Þá leikur organisti Akureyrarkirkju, Björn Steinar Sólbergsson, orgeltónlist eftir J.S. Bach, Pál Ísólfsson og Jón Leifs. Tónleikarnir eru aðrir í röð tónleika þar sem íslenskir orgelleikarar flytja íslenska orgeltónlist og tónlist Johanns Sebastians Bach.

Á efnisskránni eru Tokkata í F-dúr og sex Schübler-sálmforleikir Bachs, Chaconne eftir Pál Ísólfsson og Rímnadanslög ópus 11 eftir Jón Leifs, en þau eru umskrifuð fyrir orgel af Birni Steinari.

Umritanir Bachs á sex aríum úr kantötum sínum gerði hann fyrir nemanda sinn G. Schübler og eru þær nefndar eftir honum, Schübler-forleikir. Þessir sálmforleikir eru á meðal vinsælustu orgelverka Bachs. Tokkata í F-dúr er eitt af stóru orgelverkum Bachs og einkennist af mikilli notkun fótspilsins. Chaconne um stef úr Þorlákstíðum skrifaði Páll Ísólfsson undir áhrifum af orgeltónlist Max Regers sem hann kynntist á námsárum sínum í Leipzig. Hið dóríska upphafsstef Þorlákstíða og fjölbreytt útfærsla Páls á því gefur verkinu mjög persónulegt yfirbragð. Rímnadanslög Jóns Leifs eru til í margs konar búningi, en Björn Steinar er fyrstur til að útfæra þau fyrir orgel.

Björn Steinar er nýkominn úr tónleikaferð til Bandaríkjanna þar sem hann flutti orgelkonsert Jóns Leifs. Á þessu ári leikur hann á tónleikum í Bandaríkjunum, Englandi, Danmörku, Finnlandi og Þýskalandi.

Aðgangseyrir er krónur 1.000.