Suðurskautsfararnir Haraldur Örn Ólafsson og Ingþór Bjarnason ráðast nú til atlögu við Norðurpólinn.
Suðurskautsfararnir Haraldur Örn Ólafsson og Ingþór Bjarnason ráðast nú til atlögu við Norðurpólinn.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Saga norðurpólsferða er í senn átakanleg skelfingarsaga og saga glæsilegra afreka.

Saga norðurpólsferða er í senn átakanleg skelfingarsaga og saga glæsilegra afreka. Þótt saga norðurpólsferða nái aftur til ársins 320 fyrir Krist, má segja að hugmyndir kaupmanns nokkurs í Lundúnum árið 1527, um að til væri greiðfær siglingaleið um norðurpólinn til Austurlanda hafi markað upphafið að kapphlaupinu um norðurpólinn, sem átti eftir að standa öldum saman. Haraldur Örn Ólafsson sem leggur af stað með Ingþóri Bjarnasyni áleiðis til Norðurpólsins 1. mars veltir því fyrir sér í grein sinni í tilefni ferðarinnar, hvað það sé sem dregur kynslóð eftir kynslóð að hinum torsótta bletti, sem leikur alla áskorendur sína hart, þótt hann tapi glímunni einstaka sinnum. 2

NORÐURPÓLLINN er nyrsti staður jarðarinnar þar sem allir lengdarbaugar mætast og staður sem möndull jarðar snýst um. Hann er í miðju Norður-Íshafinu og yfir 750 kílómetra frá næsta fasta landi. Hafið er þakið ís sem rekur til og frá eftir ákveðnu kerfi sem vindar og hafstraumar stjórna. Á norðurpólnum ríkir heimskautanóttin hálft árið og sést þá ekki til sólar mánuðum saman. Á sumrin er sólin á lofti allan sólarhringinn án þess að setjast. Þá breytist ísinn í eitt allsherjar krapasvæði með stórum vökum inn á milli.

Öldum saman hefur þessi staður verið eftirsóttasta takmark ævintýramanna og heimskautafara. Hafa menn verið tilbúnir að leggja sig í mikla hættu til að ná þessu dularfulla og illskiljanlega takmarki. Í meira en þrjár aldir kepptust menn við að ná norðurpólnum en með litlum árangri. Öruggt má telja ekki hafi tekið jafn langan tíma og mikið erfiði að ná nokkrum stað eins og þessum þótt leitað sé í allri mannkynssögunni.

Hvers vegna var norðurpóllinn svona eftirsóknarverður og hvers vegna tók svo langan tíma að ná honum? Svarið við fyrri spurningunni liggur í frumeðli mannsins, þörfinni til að kanna hið óþekkta. Án þessa eðlis værum við eflaust ennþá inni í steinaldarhellinum. Upphaflega lágu þó fjárhagslegar ástæður að baki norðurpólsferðum en fljótlega var baráttan einungis knúin áfram af forvitni og metnaði. Svarið við seinni spurningunni, hvers vegna það tók yfir þrjár aldir að ná pólnum, liggur í eðli hans sjálfs. Þeir kraftar, sem búa við norðurpólinn, umlykja hann traustum og rammgerðum víggirðingum, þ.e. óendanlegum ísruðningum og vökum. Þessar víggirðingar komu evrópskum heimskautaförum í opna skjöldu og kunnu þeir lengi vel ekkert svar við þeim.

Upphaf pólferða

Fyrsti heimskautafarinn var Forn-Grikkinn Pyþeas frá Marseille sem var uppi á fjórðu öld fyrir Krist. Lagði hann upp í langferð árið 320 fyrir Krist. Það sem rak Pyþeas út í mikla óvissuferð í leit að Thule virðist fyrst og fremst hafa verið fróðleiksfýsn og löngunin til að kanna hið óþekkta en ferðin var farin undir því yfirskini að hann væri að leita að nýjum verslunarleiðum með tin og raf. Hann sigldi frá Miðjarðarhafi og út á Atlantshafið. Síðan fór hann norður með strönd Evrópu og hringinn í kringum Bretlandseyjar og eftir það stefndi hann enn í norður. Þar fann hann Thule sem var að öllum líkindum Ísland. Í lýsingum hans er getið um hafís og bjartar sumarnætur og var hann því að öllum líkindum fyrsti landkönnuðurinn til að fara norður fyrir heimskautsbaug. Eftir margra ára sjóferð kom Pyþeas heim til Marseille og tók til við að rita frásögn um uppgötvanir sínar. Frásögn hans var tekið með miklum fyrirvara og sumir réðust harkalega gegn honum.

Ekki varð framhald á heimskautaferðum um langt skeið eða fyrr en á 9. öld þegar írskir munkar sigldu til Íslands. Í kjölfar þess, að norrænir menn námu land á Íslandi fundu Íslendingar svo Grænland, Helluland og Vínland. Á miðöldum lágu heimskautaferðir alveg niðri. Menn leiddu ekki hugann að norðurpólnum enda var jörðin flöt í fræðum kirkjunnar.

Snemma á 15. öld hóf hins vegar Hinrik sæfari, sonur Jóhanns konungs í Portúgal, að dusta rykið af gömlum landa- og stjörnufræðiritum. Sendi hann svo út leiðangra suður með strönd Afríku til að kanna fjarlæg lönd. Þetta var upphafið að landafundunum miklu. Á aðeins einni öld sigldi Kólumbus til Ameríku, Vasco da Gama til Indlands og Magellan hringinn í kring um jörðina. Það sem dreif áfram þessa mestu landafundi sögunnar var fyrst og fremst löngunin í ábatasöm viðskipti með krydd og aðra munaðarvöru frá Austurlöndum.

Portúgalir og Spánverjar einokuðu þessar siglingaleiðir og öll viðskipti. Bretar og Hollendingar vildu nú finna eigin leiðir til Austurlanda og komast þannig sjálfir í ábatasöm viðskipti. Árið 1527 setti kaupmaður í London fram kenningar um að til væri greiðfær leið um norðurpólinn til Austurlanda. Þegar höfðu komið fram hugmyndir um norð-austur-leiðina, norður fyrir Síberíu og norð-vestur-leiðina, norður fyrir Norður-Ameríku. Kaupmaðurinn taldi siglingaleiðina um norðurpólinn hafa litla hættu í för með sér nema ef væri við norðurpólinn sjálfan og væri þessi leið því mun betri en leið Portúgala. Þessar hugmyndir mörkuðu upphafið að kapphlaupinu um norðurpólinn sem átti eftir að standa öldum saman. Kaupmanninum skjátlaðist í flestum atriðum en hann hafði þó rétt fyrir sér að einu leyti: Leiðin um norðurpólinn var sú stysta frá Evrópu til Austurlanda.

Árangurslausar tilraunir

Hollendingurinn Willem Barentsz átti heiðurinn af að gera fyrstu tilraunina til að ná norðurpólnum árið 1596. Hann stóð í þeirri trú, eins og samtímamenn hans, að hægt væri sigla skipi á norðurpólinn og þaðan suður til Austurlanda. Skip hans tvö sigldu norður með strönd Noregs, en í stað þess að snúa til austurs, í átt að norðurströnd Rússlands, hélt hann áfram norðlægri stefnu. Fljótlega fór leiðangurinn að kynnast hafísnum. Þegar áhöfnin sá hvíta rönd á sjónum við sjóndeildarhring hélt hún í fyrstu að þar væru álftir. Eftir nokkra baráttu við hafísinn komst leiðangurinn að 80. breiddargráðu og sá þá til lands. Þar var Svalbarði barinn augum í fyrsta sinn. Barentsz gerði tilraunir til að komast lengra norður en varð að lúta í lægra haldi fyrir ísstálinu sem ávallt mætti honum. Barentsz sigldi skipi sínu nú í austurátt og hafði vetursetu á eyjunni Novaya Zemlya og var það nyrsta veturseta fram að þeim tíma. Varð hann fyrir þeirri ógæfu að skip hans brotnaði. Áhöfnin braust á bátum til mannabyggða en Barentsz lést á leiðinni.

Fyrsti Bretinn sem reyndi að komast til Austurlanda um norðurpólinn var Henry Hudson. Lagði hann í leiðangur vorið 1607 á vegum alþjóðlega verslunarfélagsins Muscovy. Tilgangur ferðarinnar var sem fyrr viðskiptalegs eðlis, þ.e. að finna nýja verslunarleið. Hann fór sömu leið og Barentsz til Svalbarða og gerði þar margar tilraunir til að komast í gegnum ísinn í átt til norðurs en var ávallt stöðvaður af ísstálinu. Þrátt fyrir mikla þrjósku og dugnað varð hann á endanum að láta í minni pokann og hverfa frá. Ferð hans varð þó ekki til einskis fyrir Muscovy-verslunarfélagið því að Hudson kom heim með upplýsingar um gríðarlegan fjölda hvala sem hann hafði séð á ferð sinni. Hvalveiðar hófust og fljótlega voru yfir 300 skip við veiðar á þessum norðlægu slóðum.

Hudson hafði þó ekki lokið heimskautaferðum sínum því tveimur árum síðar sigldi hann í norð-vesturátt og fann Hudson-flóa sem við hann er kenndur. Árið 1611 stýrði hann á ný leiðangri til Hudson-flóa en uppreisnarmenn settu hann, ásamt fleiri mönnum, á flot í lítinn bát og sást hann ekki framar.

Árangursleysi Barentsz, Hudsons og fleiri leiðangra gerði það að verkum að áhugi á norðurferðum dvínaði og lágu þær að mestu niðri í eina og hálfa öld. Menn misstu einnig áhuga á að finna nýja leið til Austurlanda. En þrátt fyrir það voru hugmyndir um siglingar á norðurpólinn ekki úr sögunni. Daines Barrington (1727-1800) sem var af breskum aðalsættum fékk áhuga á siglingum til norðurs og aðhylltist kenningu um ófrosið pólhaf. Kenningu þessa studdi hann einkum af frásögnum sjómanna sem sögðust hafa komist í gegnum ísinn og langleiðina á norðurpólinn. Með undraverðum hætti tókst Barrington að sannfæra breska sjóherinn og Konunglega landfræðifélagið um að senda leiðangur til þess að sigla á norðurpólinn, þrátt fyrir reynslu margra leiðangra og þúsunda hvalveiðimanna af hafísnum.

Árið 1773 varð draumur Barrington að veruleika og leiðangurinn sigldi úr höfn undir stjórn John Phipps sem stýrði tveimur skipum í eigu sjóhersins. Sigldi hann að Svalbarða og lenti þar í hafís eins og fyrri leiðangrar. Eftir mikla baráttu við ísinn þokuðust skipin norður fyrir Svalbarða og komust þannig örlítið norðar en áður hafði tekist en Phipps gafst endanlega upp og hélt heim á leið. Phipps gerði því ekki annað en að reka sig á sama ísvegginn og fyrirrennarar hans. Leiðangursins verður því helst minnst fyrir það að messagutti um borð var Horatio Nelson sem síðar varð flotaforingi og vann frækilegan sigur við Trafalgar.

Í kjölfar frönsku byltingarinnar 1789 og Napóleonsstríðanna varð 30 ára hlé á pólferðum. Þegar friður komst á 1815 stóð breski sjóherinn uppi með gríðarlegan fjölda skipa og manna en engin verkefni. Verkefnaleysið mátti leysa að hluta til með norðurpólsleiðöngrum. Enn á ný var leiðangur sendur á norðurpólinn, árið 1818 undir stjórn David Buchant. Leiðangurinn fór eins og fyrri leiðangrar til Svalbarða og barðist þar um hríð við hafísinn án nokkurs árangurs.

Nú fór breski flotinn að gera sér grein fyrir því að ekki væri hægt að sigla á norðurpólinn vegna hafíss. Þó að ljóst væri að norðurpóllinn væri ekki lykillinn að samgöngum við Austurlönd, var áhuginn á honum ekki horfinn. Áhuginn mótaðist nú fyrst og fremst af forvitni og lönguninni til að kanna hið óþekkta. Árið 1827 var gerður út nýr leiðangur undir stjórn William Edward Parry. Í stað þess að nýta sér ferðatækni inúíta sem byggðist á léttum sleðum og hundum sem drógu birgðirnar lét hann hanna svokallaða sleðabáta sem fjórtán menn drógu og vógu tæp tvö tonn fullhlaðnir. Leiðangurinn sigldi til Svalbarða og komst þar í góða höfn. Þaðan var haldið yfir hafísinn til norðurs með tvo sleðabáta sem samtals 28 menn drógu. Þeir fóru hægt yfir og fljótlega fór þá að gruna að ekki væri einleikið hversu seint ferðinni miðaði. Við mælingar kom í ljós að þá rak nánast jafn hratt afturábak og þeir gengu áfram. Þrátt fyrir þetta tókst þeim að komast á 82°45' norður, og slógu þar með nýtt met.

Mannskæður leiðangur

Árið 1845 hélt Sir John Franklin upp í örlagaríkan leiðangur í leit að norð-vestur-leiðinni. Hvarf hann sporlaust ásamt 129 manna áhöfn. Á næstu árum voru sendir út yfir 30 leiðangrar í leit að Franklin og mönnum hans en án árangurs. Björgunarleiðöngrunum varð ekkert ágengt í að finna Franklin en í staðinn fundu þeir og rannsökuðu stóran hluta af kanadísku heimskautasvæðunum og bættist því mikið við landakort þess tíma.

Þrátt fyrir að allar tilraunir til þess að sigla á norðurpólinn hefðu reynst árangurslausar var hugmyndin um ófrosið pólhaf ekki dauð. Þýski landfræðingurinn August Petermann tók upp þessar gömlu hugmyndir og setti í nýjan búning. Hélt hann því fram að hafísinn lægi í tiltölulega þunnu belti en handan hans væri opið haf og greiðfært. Kom hann því til leiðar að ríkjasamband Austurríkis og Ungverjalands sendi út norðurpólsleiðangur árið 1872 undir stjórn Julius von Payer. Leiðangrinum varð ekkert ágengt umfram fyrri leiðangra en þrátt fyrir það gerði Payer merkilega uppgötvun þegar hann fann Frans Josef Land.

Eftir dularfullt hvarf Franklins og allra manna hans var breski flotinn tregur til að senda út fleiri norðurpólsleiðangra. Áhugamenn um norðurpólinn fengu því þó framgengt að sendur var út nýr leiðangur árið 1875 undir stjórn George Strong Nares. Í stað þess að stefna til Svalbarða, eins og allir norðurpólsleiðangrar höfðu gert fram að því, var stefnan tekin á sundið milli Grænlands og Kanada. Heimskautafarinn Kent Kane hafði uppgötvað þessa leið 23 árum áður. Þessi leið átti síðar eftir að gegna lykilhlutverki í baráttunni um pólinn. Leiðangur Nares fór vel af stað því hann náði að sigla skipum sínum norðar en nokkrum hafði tekist áður eða á 82°28' norður. Eftir vetursetu lögðu 15 menn út á ísinn í byrjun apríl og drógu tvo sleða með vistum. Ferðin sóttist mjög seint sökum þess hversu sleðarnir voru þungir og hversu úfinn og ógreiðfær ísinn var. Fljótlega fór einnig skyrbjúgur að gera vart við sig. Einn af öðrum urðu menn Nares ófærir um að draga sleðann þar til ljóst var að lengra yrði ekki haldið. Þann 12. maí sneru þeir aftur eftir að hafa náð 83°20' norður. Þrátt fyrir að hafa sett nýtt met í átt að pólnum voru vonbrigðin mikil heima fyrir í Bretlandi að ekki hefði tekist að komast lengra.

Enn voru til menn sem trúðu á kenningar um ófrosið pólhaf og vildu reyna að sigla á norðurpólinn. Einn þeirra var Bandaríkjamaðurinn George Washington De Long. De Long komst í kynni við blaðakónginn James Gordon Bennett, eiganda New York Herald, og saman hófu þeir undirbúning að leiðangri sem skyldi stefnt norður um Beringssund. De Long keypti skip til fararinnar í Bretlandi sem hét Pandora en skipti um nafn og nefndi það Jeannette, en það hefur löngum þótt mikið ógæfumerki að skipta um nafn á skipum sem stefnt er í heimskautaleiðangra og þetta átti eftir að sannast á De Long. Í lok ágúst 1879 sigldi Jeannette í gegnum Beringssund og stefndi til norðurs. Ísinn þéttist hratt og fljótt var Jeannette föst í ís og komst hvergi. Mánuðum saman sat skipið fast og rak stöðugt í norð-vestur. Veturinn leið og sumarið 1880 kom en áhöfninni til mikillar skelfingar sat skipið jafn fast og áður. Þurftu þeir að sætta sig við að sitja fastir annan vetur. Sumarið 1881 virtist sem ísinn ætlaði aðeins að losna í kringum skipið en fljótlega snerist allt til verri vegar. Á augabragði þrýstist ísinn aftur upp að skipinu og kramdi það saman þannig að leki kom að því og það sökk á stuttum tíma. Áhöfninni tókst að bjarga helstu nauðsynjum úr skipinu og út á ísinn. De Long og menn hans voru nú fyrir norðan Austur-Síberíu og lá nú fyrir þeim löng leið til mannabyggða. Í fyrstu ferðuðust þeir yfir ís en síðan komust þeir á opið haf og reru þá þremur björgunarbátum sem þeir höfðu meðferðis. Stormur skall á og bátarnir þrír urðu viðskila hver frá öðrum og náðu aldrei saman aftur. Áhafnir bátanna hlutu mismunandi örlög. Ein áhöfnin sást aldrei meir. Önnur komst til lands, beint í hendur veiðimanna og björguðust allir. Þriðja áhöfnin sem var undir stjórn De Long komst að landi á strjálbýlu svæði og átti langan veg fyrir höndum til byggða. Þrek mannanna þraut fljótt vegna hungurs og urðu þeir fljótt ófærir um að ganga lengra. Tveir sterkustu mannanna voru sendir áfram til að sækja hjálp. Komust þeir til byggða en hjálpin barst of seint til félaga þeirra og voru þeir allir látnir þegar að var komið.

Þáttaskil í kapphlaupinu um norðurpólinn

Hörmulegur endir á leiðangri De Long olli þáttaskilum í kapphlaupinu um norðurpólinn því árið 1884 fannst brak úr Jeannette við strönd Suðvestur-Grænlands. Eina skýringin á þessum ótrúlega fundi var að brakið hafi rekið á ís yfir allt Norður-Íshafið. Mönnum varð þá ljóst að hafið allt var þakið ís og batt Jeannette þannig enda á leiðangra hins ófrosna pólhafs. Það var þó fleira sem breyttist. Jeannette-leiðangurinn leiddi í ljós að heimskautaleiðangrar væru söluvara sem almenningur og fjárfestar hefðu áhuga á. Öld ríkisleiðangra var því liðin og öld atvinnupólfara runnin upp.

Næstur fram á sjónarsviðið var maður sem verður, ásamt Sir Ernest Shackleton, að teljast merkasti maður allrar pólsögunnar. Þar var á ferðinni norski dýrafræðingurinn Friðþjófur Nansen. Árið 1888 varð hann fyrstur manna til að ganga yfir Grænlandsjökul og hefði það eitt sér dugað til að koma honum varanlega á spjöld sögurnnar, en metnaði Nansens var langt frá því að fullu svalað. Í augum Nansens, eins og annarra heimskautafara, var norðurpóllinn æðsta takmarkið. Rek Jeannette yfir Norður-Íshafið sannfærði hann um að eina leiðin til að ná norðurpólnum væri að vinna með reki íssins en ekki á móti því. Lykillinn að leiðangri Nansens var að hanna skip sem gæti þolað þrýsting íssins. Lét hann hanna fyrir sig skip sem var gert egglaga og sérstaklega styrkt þannig að það lyftist upp en brotnaði ekki þegar ísinn þrýstist upp að því. Skipið hlaut nafnið Fram og lagði úr Oslóarhöfn í júní 1893. Sigldi leiðangurinn norður fyrir Noreg og síðan í austurátt norður fyrir Síberíu. Þegar skipið nálgaðist staðinn þar sem Jeannette sökk var því siglt inn í ísinn, látið festast og rekið í átt að norðurpólnum hófst. Eftir að Fram hafði verið á reki í eitt og hálft ár var það komið á 84° norður og ljóst að það færi ekki nær pólnum. Nansen ákvað þá að yfirgefa skipið og freista þess að ganga á norðurpólinn. Sér til fylgdar valdi hann Hjalmar Johansen.

Um miðjan mars yfirgáfu þeir Fram með 28 hunda, sleða, kajaka og vistir til 100 daga. Með ferð þessari tók Nansen mikla áhættu því ljóst var að hann fyndi aldrei skipið aftur. Í stað þess ákvað hann að snúa aftur til Svalbarða eða Frans Jósefs-eyja, sem báðar voru óbyggðar á þessum tíma. Ferð Nansens og Johansens sóttist nokkuð vel en tíminn var naumur því heimferðin var löng, áhættusöm og engan stuðning að fá. Þann 8. apríl náðu þeir 86°13' norður. Þeim varð þá ljóst að pólnum yrði ekki náð ef þeir ætluðu að eiga einhvern möguleika á að komast heilir heim úr þessari hættuför þannig að ákvörðun var tekin um að snúa við. Höfðu þeir slegið nýtt met og komist rúmum þremur gráðum norðar en fyrri leiðangrar.

Heimferð þeirra Nansens og Johansens var ævintýri líkust og endurspeglast þar ótrúleg hæfni Nansens og heppni í senn. Eftir að hafa farið yfir ísinn á hundasleða, lent í klóm ísbjarnar og siglt á kajökum komust þeir loks í land á Frans Josefs-eyjum um haustið. Þar byggðu þeir lítinn kofa úr grjóti og höfðu þar vetursetu. Lifðu þeir einkum á ísbjarnarkjöti og brenndu rostungslýsi. Um vorið héldu þeir af stað á kajökum í suðurátt en hugðust svo stefna á Svalbarða þar sem þeir vonuðust eftir að komast í skip. Eftir miklar svaðilfarir rákust þeir af einskærri tilviljun á breskan leiðangur og komust þar í skip sem sigldi með þá til Noregs. Þeir komu til hafnar í Tromsø 21. ágúst 1896 eftir meira en þriggja ára fjarveru. Skipið Fram losnaði út úr ísnum á sama tíma og komst heilu og höldnu til Noregs.

Eftir þessa för var Nansen orðin þjóðhetja í Noregi. Ferli hans var þó ekki lokið því síðar sneri hann sér að stjórnmálum og mannúðarmálum. Fékk hann meðal annars friðarverðlaun Nobels. Örlög Johansens urðu allt önnur. Hann leiddist út í drykkjuskap og óreglu. Fyrir tilstuðlan Nansens fór hann í leiðangur Roald Amundsen til Suðurskautslandsins sem varð honum síst til gæfu. Stuttu síðar stytti hann sér aldur.

Fleiri fórnarlömb

Árið 1897 gerði Svíinn Salmon August Andrée tilraun til að fljúga í loftbelg á norðurpólinn með skelfilegum afleiðingum. Áætlanir hans byggðust á bjartsýninni einni saman því enginn loftbelgur hafði á þessum tíma verið eins lengi á lofti og loftbelgur Andrée þurfti til að komast á pólinn. Loftbelgurinn tók sig á loft 11. júlí með þremur mönnum um borð. Dagar, vikur og mánuðir liðu en ekkert fréttist af þeim. Á næstu árum voru gerðir út leiðangrar til að leita að Andrée og félögum hans en sú viðleitni bar engan árangur. Árið 1931 eða 34 árum seinna gerðu nokkrir veiðimenn og vísindamenn merkilega uppgötvun á lítilli eyju við Svalbarða. Fundu þeir jarðneskar leifar Andrée og manna hans ásamt búnaði, dagbókum og óframkölluðum filmum. Fundur þessi sagði átakanlega sögu þriggja manna sem börðust fyrir lífi sínu en töpuðu að lokum þótt ekkert sé vitað um dánarorsakir þeirra.

Í byrjun mars árið 1900 lagði ítalskur leiðangur af stað frá Frans Jósefs-eyjum í átt að norðurpólnum. Leiðangurinn var undir stjórn hertogans af Abruzzi. Á einum og hálfum mánuði tókst þeim að slá met Nansens um 40 kílómetra en það var keypt dýru verði því þrír menn létu lífið á leiðinni.

Næstur fram á sjónarsviðið var maður sem var heltekinn af norðurpólnum og þráði frægð og frama. Þar var á ferðinni bandaríski heimskautafarinn Robert E. Peary sem eyddi stórum hluta ævi sinnar í að ná þessu langþráða takmarki. Fyrst fór hann nokkra leiðangra til Grænlands og gekk þá meðal annars yfir norðurhluta jökulsins auk þess að ganga á nyrsta odda landsins. Síðan snéri hann sér alfarið að norðurpólnum. Fyrstu tvær tilraunir Peary ollu vonbrigðum því honum tókst ekki að komast norðar en fyrri leiðangrar. Þrátt fyrir það voru stuðningsaðilar hans tilbúnir að styðja hann til frekari tilrauna. Mynduðu þeir með sér félagsskap sem nefndist Peary-heimskautaklúbburinn. Peary gerði nýja tilraun árið 1906 og var nú betur undirbúinn en áður. Hafði hann þróað aðferð sem hann kallaði Peary-kerfið og byggði að miklu leyti á hjálp grænlenskra veiðimanna og hundum þeirra. Ferðin gekk vel framan af þar til gríðarmikil vök stöðvaði leiðangurinn. Vök þessi tafði för Peary mikið og varð þess valdandi að hann snéri við án þess að ná pólnum á 87°06' norður. Þrátt fyrir að hafa slegið nýtt met var hann langt frá því ánægður.

Enn á ný voru stuðningsaðilar Peary reiðubúnir að standa að baki nýrri tilraun. Áætlað var að leiðangurinn legði úr höfn vorið 1907 en seinkun varð á afhendingu leiðangursskipsins og tafðist brottför um eitt ár. Á sama tíma fóru óveðursský að hrannast upp í lofti og atburðir næstu tveggja ára áttu eftir að leiða til hatrömmustu deilna sem nokkurn tímann hafa risið í tengslum við heimskautaferðir og standa deilur þær reyndar enn yfir.

Það varð Peary til mikillar skapraunar að frétta að bandaríski læknirinn Frederick A. Cook hefði lagt í leiðangur til Norðvestur-Grænlands sumarið 1907. Cook hafði verið læknir í Grænlandsleiðangri Peary 1891 til 1892 en eftir þá ferð fékk Cook andúð á Peary þar sem hann þótti með eindæmum óbilgjarn. Þótt leiðangur Cook væri undir því yfirskini að um sportveiðiferð væri að ræða, grunaði marga af stuðningsmönnum Peary að annað og meira lægi að baki. Sá grunur reyndist á rökum reistur þegar fréttist að Cook hefði orðið eftir á Grænlandi ásamt þýskum áhafnarmeðlimi í stað þess að snúa heim með skipinu. Þessar fréttir og síðar þær að Cook hefði náð á pólinn voru reiðarslag fyrir Peary.

Sannleiksgildi frásagnar Cook af norðurpólsferðinni hefur að vísu verið stórlega dregið í efa en ljóst er að hann lagði af stað frá Norðvestur-Grænlandi í byrjun árs 1908 og hafði sér til fylgdar tvo grænlenska veiðimenn. Þar sem öflugir leiðangrar með gríðarmikinn stuðning höfðu gefist upp eftir mikið erfiði segist Cook hafa komist greiðlega áfram. Lýsing hans á ferðinni er óljós og jafnvel barnaleg. Samkvæmt henni náði hann norðurpólnum fyrstur manna 21. apríl 1908. Hvað sem pólferðinni líður er ljóst að Cook náði ekki til Grænlands aftur þá um haustið heldur hafði vetursetu á Devon-eyju við ótrúlega erfiðar aðstæður. Lifði hann af ásamt félögum sínum með því að tileinka sér steinaldaraðferðir Grænlendinga, enda voru öll skotfæri uppurin.

Cook komst til Grænlands um vorið 1909 en þá var Peary kominn langt norður á Íshafið og stefndi á pólinn. Peary gekk nú mun betur en áður. Það kerfi sem hann byggði á var einskonar pýramídi, þannig að margir menn, sleðar og hundar lögðu af stað í byrjun en síðan voru menn sendir reglulega til baka. Þetta jók flutningsgetu leiðangursins á vistum til mikilla muna. Einn nánasti ferðafélagi Peary var Bartlett skipstjóri. Bartlett var traustur maður og kunni vel að reikna út staðsetningar. Lét Peary hann því ávallt staðfesta í leiðangursbókinni að mæling og útreikningar á staðsetningu væru réttir. Það hefur því vakið mikla undrun að Peary skyldi þann 1. apríl senda Bartlett og fleiri menn til baka og taka með sér í staðinn einungis tvo grænlenska veiðimenn og einkaþjóninn Henson. Þar með gat enginn af fylgdarmönnum Peary staðfest að staðsetning væri rétt mæld og rétt útreiknuð. Það sem einnig hefur vakið mikla furðu er að dagleiðir Peary lengdust gríðarlega um leið og Bartlett hafði verið sendur til baka. Samkvæmt frásögn Peary var norðurpólnum náð 6. apríl 1909.

Með tveggja vikna millibili í september 1909 tilkynntu bæði Cook og Peary að þeir hefðu verið fyrstir manna til að ná norðurpólnum. Cook varð fyrri til og var saga hans í fyrstu tekin trúanleg. Fljótlega fór þó að bera á efasemdaröddum, einkum eftir að stuðningsmenn Peary hófu herferð gegn honum. Það sem einkum vann gegn Cook var að hann gat aldrei lagt fram útreikninga sína á staðsetningum sem hann hefði þurft að gera til að ná pólnum. Cook fékk þó mikla samúð almennings meðal annars sökum þess hversu hart stuðningsmenn Peary gengu gegn honum. Deilur milli fylkinganna tveggja stóðu áratugum saman. Eftir því sem frá líður eru menn æ sannfærðari um að lýsingar Cook á pólferðinni séu uppspuni frá upphafi til enda. Þrátt fyrir að Cook hafi ekki komist á norðurpólinn er samt ekki þar með sagt að Peary hafi gert það. Síðustu ár og áratugi hafa komið fram æ fleiri sem draga í efa sannleiksgildi frásagnar Peary eftir að hann sendi Bartlett til baka. Þessum efasemdum hefur verið harðlega mótmælt af stuðningsmönnum Peary. Meðal annars má nefna að tímaritið National Geographic birti í janúarhefti sínu árið 1990 ítarlega grein því til sönnunar að Peary hafi komist á norðurpólinn. Því verður þó ekki neitað, hvað sem öðru líður, að þær vegalengdir sem Peary segist hafa farið eftir að hann skildi við Bartlett eru vægast sagt undraverðar miðað við dagleiðir hans fram að því. Hvort draumur Peary hafi raunverulega orðið að veruleika verður aldrei vitað með vissu en sögubækur samtímans segja að svo hafi verið.

Flogið á pólinn

Þrátt fyrir að almennt væri talið að norðurpólnum hefði verð náð dvínaði áhuginn á honum ekki. Tók nú við tímabil þar sem gerðar voru tilraunir til að fljúga flugvélum og loftförum yfir pólinn. Árið 1926 sögðust tveir leiðangrar hafa náð því takmarki. Stjórnandi annars leiðangursins var Rychard E. Byrd en efasemdir hafa komið fram um að honum hafi raunverulega tekist ætlunarverk sitt. Hinn leiðangurinn var undir stjórn þriggja manna, Norðmannsins Roald Amundsen, Bandaríkjamannsins Lincoln Ellsworth og Ítalans Umberto Nobile og tókst honum sannanlega ætlunarverk sitt. Tveimur árum síðar flaug Nobile að nýju yfir norðurpólinn en heimferðin endaði með skelfingu. Loftfarið hrapaði niður á ísinn og lenti svo harkalega að nokkrir menn létust og aðrir slösuðust. Þeir sem lifðu af biðu örlaga sinna. Margar Evrópuþjóðir sendu út björgunarleiðangra og svo fór að lokum að þeim var bjargað. Rússar flugu yfir pólinn árið 1937 og lentu á pólnum 1948. Árið 1958 sigldi bandaríski kafbáturinn Nautilius undir ísinn og á norðurpólinn.

Árið 1968 var farið á norðurpólinn á vélknúnum sleðum. Árið eftir fór fyrsti hundasleðaleiðangurinn, eftir Peary, á pólinn. Árið 1978 var í fyrsta sinn skíðað á pólinn án hjálpar vélknúinna sleða eða hundasleða. Þar var á ferðinni Japaninn Naomi Uemura sem fór einsamall en fékk birgðir sendar reglulega með flugvél. Upp frá þessu urðu pólferðirnar tíðari.

Á pólinn án utan- aðkomandi aðstoðar

Árið 1990 sóttust tveir leiðangrar eftir því að ganga á norðurpólinn án utanaðkomandi aðstoðar (e. unsupported). Með því er átt við að gengið er á pólinn án þess að njóta hjálpar hunda, vélknúinna sleða eða flugvéla. Draga menn þá með sér allar vistir frá upphafi leiðangurs á pólinn og fá engar vistir sendar á leiðinni. Annar leiðangurinn sem þetta reyndi var breskur og lagði upp frá Síberíu. Hinn leiðangurinn var norskur og lagði upp frá Kanada. Breski leiðangurinn varð að gefast upp skammt frá pólnum. Norski leiðangurinn sem samanstóð af þremur mönnum varð fyrir því óláni í byrjun að einn þeirra fékk brjósklos og varð því að láta sækja hann með flugvél. Hinir tveir náðu pólnum eftir 58 daga göngu. Umdeilt hefur verið hvort Norðmennirnir sem á pólinn komust, Børge Ousland og Erling Kagge, hafi verið án utanaðkomandi stuðnings eða ekki. Í kjölfarið reyndu margir að ná norðurpólnum án utanaðkomandi stuðnings en flestir þurftu frá að hverfa.

Árið 1994 gekk Norðmaðurinn Børge Ousland í annað sinn á pólinn en nú einn síns liðs. Lagði hann upp frá Síberíu og náði pólnum á 52 dögum án utanaðkomandi aðstoðar. Árið eftir gengu Kanadamaðurinn Richard Weber og Rússinn Mikhail Malakhov á norðurpólinn, á 81 degi, frá Kanada, án utanaðkomandi aðstoðar. Ferð þeirra var þó ekki á enda, því frá pólnum gengu þeir til baka, aftur til Kanada á 26 dögum. Sama ár gengu Pólverjarnir Marek Kaminski og Wojtek Moskal frá Kanada á norðurpólinn á 71 degi, án utanaðkomandi aðstoðar. Árið 1996 gengu fjórir Frakkar frá Síberíu á norðurpólinn á 54 dögum, án utanaðkomandi stuðnings.

Ljóst er að áhugi á norðurpólnum fer síst dvínandi eftir því sem árin líða. Menn setja sér ávallt hærri og erfiðari markmið. Einungis fjórum leiðöngrum hefur tekist að ganga á pólinn án þess að njóta aðstoðar véla eða dýra þrátt fyrir að margir reyni að ná því marki ár hvert. Þetta sýnir okkur að kraftar norðurpólsins umlykja hann víggirðingum nú sem fyrr sem reynast mönnum erfiðar.