[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
MARGIR í Þýskalandi vilja kenna miklum fjölda erlendra leikmanna þar í landi um að Þjóðverjar vinna ekki til verðlauna í alþjóðlegum mótum - og árangur þýska liðsins á EM í Króatíu var ekki til að hrópa húrra fyrir.

MARGIR í Þýskalandi vilja kenna miklum fjölda erlendra leikmanna þar í landi um að Þjóðverjar vinna ekki til verðlauna í alþjóðlegum mótum - og árangur þýska liðsins á EM í Króatíu var ekki til að hrópa húrra fyrir. Fremstur í flokki þeirra sem hafa viljað skella skuldinni á útlendinga fer sjálfur landsliðsþjálfarinn Heine Brandt. Allur sá fjöldi erlendra þjálfara, sem starfa í Þýskalandi, er hins vegar á allt öðru máli. Sport Bild ræðir við tvo þjálfara efstu liðanna - Flensburg og Kiel. Blaðið segir að EM í Króatíu hafi verið eins og þýskt ættarmót, þar sem nærri 40% leikmanna á mótinu komu frá þýskum liðum.

Hvers vegna eru það erlendir þjálfarar sem stjórna liðum í þýskum handknattleik á sama tíma og nær eingöngu heimamenn sjá um þjálfun liða í knattspyrnu? Blaðið vekur athygli á að aðeins tæp 30% þjálfara í 1. deildinni eru Þjóðverjar, en deildin er sú besta í heimi. Rætt er við tvo kunna þjálfara - Króatann Zvonimir Serdadrusic, sem þjálfar meistaralið Kiel og hefur gert það að einu sigursælasta liði Þjóðverja og Danann Erik Veje Rassmussen, sem þjálfar Flensburg. Erik Veje lék 235 landsleiki fyrir Dani og gerði 1.040 mörk í þeim leikjum og því enginn aukvisi á ferð. Serdadrusic, sem hingað til hefur ekki vandað Heine Brandt kveðjurnar og sagt hann lítið gera fyrir þýskan handbolta - segir að ástæðan fyrir lélegu gengi Þjóðverja og að engir nýir, efnilegir leikmenn koma upp, sé að þjálfun hjá þýskum unglingum sé svo léleg. Hann segir að engin breyting verði þar á næstu ár. "Sú stefna virðist ráða ríkjum að allir unglingar séu steyptir í sama mótið, þannig að sköpunargáfa og frjálsræði unglinga fá ekki að njóta sín. Þýskum unglingum sé boðið upp á sömu æfingarnar, þannig að sjálfstæðir skapandi leikmenn eru kæfðir í fæðingu.

Þess vegna nýti ég krafta og treysti á 36 ára gamla sænska leikmenn til að sjórna leik minna manna - Magnus Wislander og Staffan Olson. Það kemst enginn Þjóðverji með tærnar sem þeir hafa hælana og ég hef ekki séð neinn líklegan til þess þó svo að ég hafi fylgst vel með mörgum þýskum unglingaliðum.

Rassmussen, sem hefur nær eingöngu Norðurlandabúa í liði sínu - fimm Dani, tvo Norðmenn og tvo Rússa, segir að unglingar í Þýskalandi, sem koma á æfingu geri ekkert annað en það sem þjálfarinn segir - á meðan unglingar í Danmörku og Svíþjóð leiki sér með boltann utan við æfingar og fá þannig miklu betri knatttilfinningu og verði miklu sjálfstæðari.

Rassmussen, sem hefur lýst því yfir að hann ætli sér að búa til besta lið heimsins, segir enga tilviljun að fimm Danir séu í framtíðarliði sínu. "Þeir þekkjast mjög vel - koma allir úr sama handboltaskólanum, eru mjög leiknir og góðar skyttur. Þannig leikmenn hef ég ekki séð í þýskum unglingaliðum. Það fer í taugar mínar þegar ég sé leikmenn sem hnoðast áfram eins og naut í flagi - ætla sér að nota kraftana til að ná árangri í handboltanum," segir Erik Veje, sem þolir stóra, þunga handknattleiksmenn, sem telja að harður varnarleikur sé aðal handknattleiksins.

Serdadrusic segir að þýskir unglingar æfi aðeins tvisvar í viku. Unglingar sem ætla að ná langt í íþróttagrein sinni verða að æfa oftar, fyrir utan það að þeir æfa sjálfir með knöttinn.

"Þýska deildin er sú besta heimi aðeins af einni ástæðu - hér eru fjölmargir útlendingar, bestu handknattleiksmenn heims, saman komnir. Svo einfalt er það. Þjóðverjar eiga nóga aðstöðu og nóga peninga, en þjálfunin er stöðnuð og föst í vitlausu fari. Ef Þjóðverjar komast ekki upp úr því fari halda sömu mennirnir áfram að stjórna ferðinni."

Rassmussen bætir við: "Þegar ég er að leita að nýjum leikmanni, þá verð ég því miður að fara út fyrir Þýskaland til að leita eftir leikmanni sem getur styrkt lið mitt."