ÁSTÆÐA þessara skrifa er ný mynd sem er eftir handriti þeirra Friðriks Þórs Friðrikssonar og Einars Más Guðmundssonar og ber heitið "Englar alheimsins". Ég fór á hana eitt kvöldið og hún hafði mikil áhrif á mig og lét mig ekki ósnortinn.

ÁSTÆÐA þessara skrifa er ný mynd sem er eftir handriti þeirra Friðriks Þórs Friðrikssonar og Einars Más Guðmundssonar og ber heitið "Englar alheimsins". Ég fór á hana eitt kvöldið og hún hafði mikil áhrif á mig og lét mig ekki ósnortinn. Hvet ég alla að fara á þessa mynd en hún er afar vel gerð og hefur fengið frábæra dóma. Er þetta mjög sorgleg mynd að mínu mati en sjálfur lýsir Friðrik Þór henni sem kómedíu. Því er ég ekki sammála því það var fátt sem mér fannst þess eðlis að hægt væri að hlæja að enda fannst mér alvarleiki veikinda aðalpersónunnar, Páls, yfirþyrmandi. Það má sjá tár á hvörmum bíógesta í bíóhúsunum er horfa á þessa mynd.

Ég hef staðið í sömu sporum og Einar Már Guðmundsson og átt eldri bróður með geðklofa og get ég tekið heilshugar undir mörg atriði í þessari mynd. Ég tek undir orð Rögnvalds í myndinni sem segir "Kleppur er víða". Myndin er engar ýkjur. Svona er líf geðsjúks fólks og jafnvel enn þá verra og skrautlegra en myndinni tekst að sýna. Það þurfa margir að búa við líkar aðstæður í dag eins og Páll (Pálmi) og aðstandendur hans þurftu að búa við.

Það fer ekki á milli mála að þessi mynd er mikil ádeila á það samfélag sem er innan veggja spítalanna líkt og bókin sem myndin er kvikmynduð eftir. Það má lesa það á milli "línanna" í þessari mynd að það er m.a. verið að gagnrýna starfslið geðdeildanna og það varnarleysi sem aðstandendur geðsjúkra búa við. Það er jafnvel ýjað að því að læknarnir séu ekki heilir á geðsmunum. Margt hefur þó breyst frá því að innri tími myndarinnar á sér stað en þó er margt í ólagi enn þann dag í dag, t.d. vantar áfallahjálp eða eitthvað því um líkt fyrir aðstendndur. Meðal aðstandenda eru mörg börn og unglingar líkt og ég var þegar bróðir minn veiktist af þeim heiftarlega sjúkdómi sem Pálmi þarf að glíma við í myndinni. Aldrei fékk ég neina áfallahjálp, hvað þá spurður af lækni eða hjúkrunarfólki bróður míns hvernig ég hefði það og er ég enn að glíma við sárin og afleiðingarnar sem munu seint eða aldrei gróa að fullu.

Það er vonandi að þessi mynd sýni það sem henni er ætlað að sýna. Geðsjúku fólki ætti að hjálpa fremur en að reyna að eyðileggja það. Eins þarf að hjálpa aðstandendum, í sinni fáfræði, að bregðast rétt við, styrkja þá og hjálpa þeim andlega. Ég og foreldrar mínir þurftum að þola það sama og aðstandendur söguhetjunnar, m.a. lyfjamók bróður míns.

Sagan sýnir að flestir geta fengið geðsjúkdóma. Reyndar eru geðsjúkdómar miklu algengari en menn vilja vera láta, enda er staðreyndin sú að þeir eru þagðir í hel, þetta er talið vera feimnismál. Það hefur líka sýnt sig að eftir átak Landlæknisembættisins undanfarið hafa margir komið út úr skápnum. Hvert mannsbarn sem fæðist í þennan heim hefur yfir sér 1% líkur á að fá geðklofa, sjúkdóm þann er Páll er með í myndinni. Það eru reyndar heilar 20% líkur á að yngri bróðir geðklofasjúklings, líkt og undirritaður, fái einnig sjúkdóminn. Margir eru þeir sjúklingar sem ganga úti í samfélaginu meðalalausir án þess að viðurkenna sjúkdóminn fyrir sjálfum sér hvað þá öðrum, sjálfum sér og öðrum til ama.

Ég hef trú á því að þessi mynd eigi eftir að minnka fordóma á geðsjúkum og opna umræðuna um líf og aðstæður geðsjúkra. Það er orðið löngu tímabært að þessi tvö samfélög, samfélag geðspítalans og þjóðfélagið, tengist sterkari vináttuböndum. Ég vona að þessi mikla mynd fái meiri umfjöllun á síðum þessa blaðs en verið hefur hingað til og ég hvet menn, ekki síst sjúklinga, aðstandendur sjúklinga, lækna og hjúkrunarfólk, að hripa niður línur í þetta blað er tengist myndinni eða umræðunni um hina geðsjúku, öðruvísi taka þeir sjálfir þátt í því að fordómarnir haldi áfram. Pálmi hefur efalaust verið góður drengur, ef til vill var hann of góður til að lifa í þessum kulda sem kallaður er þjóðfélag.

B.V.G.

080278-3309.

Heimsendur matur

ÉG vil koma eftirfarandi á framfæri vegna kvörtunar frá eldri konu sem bjó í Lönguhlíð, þar sem hætt var matreiðslu í eldhúsi hússins. Í sambýlishúsinu mínu er eldhús með öllum eldunargræjum, ísskáp, örbylgjuofni, borðbúnaði og fleiru, samt sem áður er ekki eldaður matur sérstaklega fyrir okkur heldur fáum við matinn sendan frá Seljahlíð. Það er fullkomlega eðlilegt að sama regla gildi fyrir alla sem eru 67 ára og eldri og fá niðurgreiddan mat. Maturinn sem við fáum frá eldhúsinu í Seljahlíð er nokkuð sæmilegur, misjafn þó, og virðist það fara eftir því hver kokkurinn er hverju sinni. Það er mjög eðlilegt að borgaryfirvöld gæti hagsmuna skattgreiðenda og framleiði niðurgreiddan mat á sem lægstu verði en gæti þess jafnframt að mismuna ekki þeim sem njóta þessara hlunninda.

190923-4799.

Gullarmband týndist

GULLARMBAND týndist 10. febrúar. Líklega í nágrenni Oddfellow-hússins. Armbandið hefur mikið tilfinningalegt gildi fyrir eiganda. Skilvís finnandi hafi samband í síma 561-0423.

Fress fæst gefins

GULBRÖNDÓTTUR og hvítur 10 mánaða kassavanur högni fæst gefins á gott heimili vegna ofnæmis eiganda. Hann er sérlega blíður og mannelskur, eyrnamerktur og geltur. Uppl. í síma 551-9564.