STUNDUM er sagt að sagan endurtaki sig og víst er að slíkt kom Víkverja í hug í vikunni er hann las stutta grein í íþróttablaði Morgunblaðsins.

STUNDUM er sagt að sagan endurtaki sig og víst er að slíkt kom Víkverja í hug í vikunni er hann las stutta grein í íþróttablaði Morgunblaðsins. Þar voru rifjuð upp einkar athyglisverð skrif Jóhanns Inga Gunnarssonar, fyrrverandi þjálfara íslenska landsliðsins í handknattleik, fyrir Morgunblaðið fyrir átján árum eftir slakan árangur landsliðsins; töp í fjórum leikjum gegn Rússum og Svíum í febrúar 1982.

Hilmar Björnsson var þá þjálfari landsliðsins - hafði tekið við af Jóhanni Inga og meðal leikmanna liðsins var enginn annar en Þorbjörn Jensson, núverandi landsliðsþjálfari. Fyrirrennarinn sparaði síst stóru orðin í gagnrýni sinni, en var engu að síður málefnalegur: "Þegar svo langt er gengið, að menn úti í bæ sparka í sjónvarpstæki sitt vegna vonbrigða með leik íslenska landsliðsins, þá er kominn tími til að reyna að varpa ljósi á hvað sé að gerast og skoða málin frá sem flestum hliðum."

SKRIF Jóhanns Inga er athyglisvert að skoða með hliðsjón af sögunni og dapurlegri framgöngu íslenska karlalandsliðsins á Evrópumeistaramótinu í Króatíu á dögunum. Mikið bar á gagnrýni á leik liðsins, sem þjóðin gat dæmt með eigin augum í beinni útsendingu sjónvarpsins. Eflaust hafa einhverjir þá, rétt eins og fyrir átján árum, verið komnir að því að sparka í sjónvarpstæki sitt í angist yfir andleysi "okkar manna". Jóhann Ingi skrifaði: "Það er því ofur eðlilegt að allir handboltaaðdáendur séu í sárum þessa dagana. Há markmiðssetning krefst þess einnig, ef illa fer, að fundinn sé einhver syndaselur. Við hvern er að sakast? Var það undirbúningurinn fyrir landsleikina sem brást? Eiga leikmenn alla sök á því hvernig fór? Eða er það þjálfaranum að kenna? Eða stöndum við ekki undir þessum markmiðssetningum? Eða er það eitthvað allt annað sem fór úrskeiðis?" spurði Jóhann Ingi og ræddi síðan um undirbúning liðsins. Taldi hann afar mikilvægt að Íslendingar undirbúi sig eins og andstæðingarnir, sem við er keppt hverju sinni - spari ekkert við undirbúninginn.

EFTIR hrakfarirnar á EM í Króatíu var talsvert rætt um undirbúning liðsins og hann gagnrýndur, m.a. á málefnalegan hátt á íþróttasíðum Morgunblaðsins.

Forsvarsmenn liðsins, þeirra á meðal þjálfarinn, gáfu hins vegar í skyn að kenna mætti naumum fjárhag Handknattleikssambandsins að nokkru um. Jóhann Ingi þekkti sjálfur starf landsliðsþjálfarans og hann hafði svar á reiðum höndum við tali um peningaskort: "Sennilega svara forystumenn handknattleiksins þessari athugasemd á þá lund, að þetta yrði of dýrt, en þá afsökun er ekki hægt að taka gilda á meðan við krefjumst þess (réttilega) að landsliðið standi sig sem best gegn sterkustu handknattleiksþjóðum heims ... Leikmenn íslenska liðsins hafa sagt í viðtölum að góður andi ríki í hópnum. Að sjálfsögðu er það mikilvægt en það þýðir ekki að liðið leiki sem ein heild inni á vellinum. Ekki er annað að sjá en einstaklingsframtakið ráði ríkjum fremur en liðsheildin. Hér kemur auðvitað aftur til kasta landsliðsþjálfara hverju sinni. Hvert er hlutverk landsliðsþjálfara? Margt mætti rita um það atriði en hér verður aðeins drepið á örfá þeirra. Hlutverk landsliðsþjálfara er meðal annars að byggja upp sterka liðsheild, sem nær saman utan vallar sem innan. Hans er að rífa liðið upp þegar á móti blæs. Hans er að bæta liðið frá einum leik til annars. Hans er að leggja upp þá taktík, sem hentar liðinu, eða velja leikmenn sem henta hans leikstíl. Landsliðsþjálfari á að vera manna mest inni í alþjóðlegum handbolta. Hann á, ásamt sínum aðstoðarmönnum, að koma sér upp greinargóðum upplýsingum um lið og leikmenn þeirra þjóða, sem við keppum við," skrifaði Jóhann Ingi, sem síðar átti eftir að gera garðinn frægan sem þjálfari í Þýskalandi og síðar aftur hér á landi.

NÚ ER nokkuð um liðið frá lokum Evrópumótsins í Króatíu og að mestu hefur nú lægt það moldviðri sem þyrlaðist upp hér á landi vegna framgöngu landsliðsins. Eftir stendur engin niðurstaða, engin klár ástæða þess hvernig fór. Það er alslæmt að mati Víkverja, þar eð það er að hans mati ávísun á að flotið verði áfram í hægindum sofandi að feigðarósi. Næstu átök verða í tveimur mikilvægum leikjum gegn Makedóníumönnum, heima og heiman, í undankeppni HM í Frakklandi sem fram fer á næsta ári. Ekki er að efa að landsliðsþjálfarinn telur sig þekkja leiðina að settu marki og hefur eflaust sett þegar niður í huga sér leiðir og aðferðir í því sambandi.

Gangi það ekki eftir, er hvort eð er lítill skaði skeður, þar eð ávallt má grípa til gamalkunnugra svara um undirbúning liðsins, smæð þjóðarinnar svo ekki sé minnst á bágan fjárhag sambandsins. Svo er nefnilega forsjóninni fyrir að þakka, að sagan endurtekur sig.