Keppendur í Ungfrú Ísland.is fara á ýmis  námskeið.
Keppendur í Ungfrú Ísland.is fara á ýmis námskeið.
Sumir segja fegurðarsamkeppnir tímaskekkju sem eigi lítið erindi við nútímakonur. Birna Anna Björnsdóttir ræddi við Ástu Kristjánsdóttur um fegurðarsamkeppnina Ungfrú Ísland.is

UMRÆÐA um fegurðarsamkeppnir skýtur alltaf upp kollinum með reglulegu millibili og er ljóst að sitt sýnist hverjum. Mörgum finnst ekkert nema jákvætt og gott að stúlkur keppi sín á milli um hver sé fegurst og segja þátttöku í slíkum keppnum aðeins til að bæta sjálfstraust og sjálfsímynd stúlkna. Aðrir segja það hljóta að vera niðurlægjandi fyrir stúlkur að vera stillt upp á svið í sundbolum. En á móti kemur að engin stúlka er þvinguð til að taka þátt í fegurðarsamkeppni, þær taka þátt af fúsum og frjálsum vilja og hafa margar af því afar mikla ánægju. Það er því spurning, fyrst slíkur fjöldi stúlkna hefur áhuga á þátttöku sem raun ber vitni, hvort hægt sé að halda því fram að fegurðarsamkeppnir eigi ekki rétt á sér.

Komin til að vera

Nokkur tímamót eru nú í fegurðarsamkeppnisgeiranum því auk Fegurðarsamkeppni Íslands sem á sér töluvert langa sögu hérlendis hefur verið efnt til annarrar keppni undir heitinu Ungfrú Ísland.is. Aðstandendur keppninnar eru Ásta Kristjánsdóttir, Hendrikka Waage, Linda Pétursdóttir og Þórey Vilhjálmsdóttir og hafa þær fengið umboð fyrir keppnina Ungfrú heimur. Ásta Kristjánsdóttir segir keppnina Ungfrú Ísland.is komna til að vera og að eitt af markmiðum með henni sé að breyta hefðbundnum viðhorfum til fegurðar. "Fyrst og fremst erum við að reyna að breyta kvenímyndinni og færa þessa keppni til nútímans. Sú breyting sem okkur finnst vera mikilvægust er sú að við hvetjum stelpurnar áfram í námi," segir Ásta. "Þá er ég ekki að segja að hinar fegurðardrottningarnar okkar hafi verið eitthvað vitlausar, en mér finnst ekki hafa verið lögð nógu mikil áhersla á að þær hafi svo margt annað til að bera en bara fegurð."

Ólíkur hópur sem stefnir hátt

Ásta segir að bæði undirbúningur og umgjörð keppninnar séu nýstárleg. Úrslitakvöldið verður 25. mars í Perlunni og þar sýna stúlkurnar fatnað eftir ýmsa fatahönnuði og segir Ásta stefnt að því að það verði glæsilegar tískusýningar. Hún tekur fram að stúlkurnar þurfi ekki að koma fram í sundfatnaði. Sigurvegarinn hlýtur meðal annars háskólastyrk og fartölvu að launum og segir Ásta verðlaunin sýna í verki þá hvatningu sem ætlað er að veita stúlkunum.

Sextán stúlkur, alls staðar að af landinu, voru valdar til að taka þátt í keppninni. Ásta segir að bæði hafi stúlkur sóst eftir því að taka þátt og einnig hafi þeim borist fjölmargar ábendingar. "Þetta er mjög ólíkur hópur og hafa þær allar metnað og stefna hátt á sínu sviði."

Hún segir muninn á keppni af þessu tagi og fyrirsætukeppni felast í því að í fyrirsætukeppni sé eingöngu verið að leita eftir ákveðnu útliti en í þessari keppni sé mun fleira tekið til greina við val á sigurvegara. "Við erum ekki bara að fara eftir útliti. Við erum líka að fara eftir því hvernig þær koma fram og hvaða markmið þær hafa. Auðvitað viljum við að þær séu sem glæsilegastar, en við viljum líka að þær hafi upp á margt annað að bjóða."

Safnað fyrir Ævintýraklúbbinn

Undirbúningur keppninnar felst meðal annars í námskeiðum af ýmsu tagi, þar á meðal námskeiði hjá Vegsauka í því hvernig skuli ná árangri. "En það sem mér finnst skipta mestu máli er Ævintýraklúbburinn, sem við erum að styrkja í ár. Ævintýraklúbburinn er klúbbur þroskaheftra, einhverfra og fjölfatlaðra einstaklinga eldri en 17 ára og eru þeir að safna fyrir félagsheimili. Við ætlum að leggja þeim lið þetta árið og hjálpa þeim við söfnunina."

Ásta segir söfnunina hafa gengið mjög vel og að hún sé meðal annars unnin í samvinnu við fyrirtæki gegn því að stúlkurnar kynni fyrirtækið. Einnig mun hluti ágóðans af keppninni sjálfri renna til Ævintýraklúbbsins.

"Svo vorum við með málverkauppboð í gær þar sem boðin voru upp fimmtán málverk sem listamenn hafa gefið og rennur það allt til Ævintýraklúbbsins," segir Ásta.