[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
FYRST þegar ég heyrði í Oasis fílaði ég þá vel en þorði ekki að viðurkenna það. Ég var svona laumu Oasis-aðdáandi þó ég hafi varla viðurkennt það fyrir sjálfum mér. Svo árið 1995 kom "(What's the story) morning glory?

FYRST þegar ég heyrði í Oasis fílaði ég þá vel en þorði ekki að viðurkenna það. Ég var svona laumu Oasis-aðdáandi þó ég hafi varla viðurkennt það fyrir sjálfum mér. Svo árið 1995 kom "(What's the story) morning glory?" út og þá gat ég ekki haldið í mér lengur og sagði við sjálfan mig :"djö... þetta er kúlasta hljómsveit í heimi." Tilefni þessarar greinar er nýútkominn fjórða breiðskífa Oasis.

Hljómsveitin Oasis er ástæðan fyrir því að ég fór að spila á gítar. Ég "eyddi" nær heilli önn í skólanum á Netinu í að prenta út hljómana af lögum þeirra til að æfa mig heima. Á tímabili kunni ég öll lögin á þrem fyrstu plötunum og líka b-hliðalögin. Stundum tekur maður í gítarinn í partíum og það er lygilegt hvað maður getur náð nettri stemmningu með því að kunna nokkra Oasis-hljóma. Það virðist sem engin takmörk séu sett fyrir því hvað Noel Gallagher getur samið mörg grípandi lög út frá sömu vinnukonugripunum.

Lögin á nýju plötunni, Standing on the shoulder of giants, eru ekkert flóknari en þau gömlu lagasmíðalega séð. Noel kemur enn og aftur á óvart með ótrúlega grípandi og einföldum lögum.

Titill plötunnar er fenginn að láni hjá sir Isaac Newton og segir meira um Oasis en marga grunar. Newton meinti að ef hann gat eitthvað betur en aðrir var það út af því að hann "stóð á öxlum" fyrirrennara sinna. Hann gat notað vitneskju þeirra sér til framdráttar og þurfti því ekki að finna upp hjólið. Í Noels tilviki væru það t.d. Lennon og McCartney. Oasis hafa ekki verið þekktir fyrir að gera miklar uppgötvanir í tónlist enda eru þeir ekkert að reyna það. Noel hefur marg oft viðurkennt að hann taki hljómaganga úr frægum slögurum og spili þá á mismunandi vegu þangað til að hann hefur samið sinn eigin. Málið snýst um að gera skemmtilega tónlist sem vekur upp tilfinningar hjá fólki og þess vegna skiptir það engu máli hvernig lögin verða til.

Noel og félagar hafa alltaf verið hreinskilnir. Sem dæmi um það má nefna viðtal við Noel sem birtist í ensku blaði, eftir að upptökum á plötunni lauk. Þar sagði hann að á plötunni væru þrjú slöpp lög, eitt ágætt og sex geðveik. Í aðalatriðum er ég sammála honum fyrir utan eitt, mér finnst þetta eina ágæta lag að hans mati vera næst besta lag plötunnar. Þetta umrædda lag er fyrsta Oasis-lagið sem annar meðlimur semur. Þann heiður á yngri bróðir Noels og aðalsöngvari sveitarinnar, Liam Gallagher. Lagið heitir "Little James" og er vægast sagt mjög góð frumraun. Haltu áfram, strákur! Á plötunni ganga þeir skrefi lengra í "sample" og tölvunotkun, en þeir gerðu tilraunir með slíkt á síðustu plötu sinni "Be here now". Margir myndu halda að tölvur og Oasis fari illa saman en svo er ekki. Þeir nota tæknina til að framkalla hljómburð sjöunda áratugarins, með auknum krafti þó. Nýr aðili var fenginn til liðs við Noel til að stjórna upptökum og var það enginn annar en Mark "Spike" Stent sem m.a. hefur unnið með; U2, Madonnu, Björk og Massive Attack. Fyrsta lag plötunnar er tilraunakenndasta lagið.

Það er furðuleg blanda af Chemical Brothers, "Immigrant song" með Led Zeppelin og að sjálfsögðu Oasis. Fyrir um tveimur árum fékk Noel oft kvíðaköst á næturna. Eina slíka nótt samdi hann lag um þessa lífsreynslu og var útkoman "Gas panic!" sem er að mínu mati besta lag plötunnar. Lög Noels hafa oftast fjallað um alþýðufólk. Textarnir eru flestir um það að hverfa frá sínu hversdagslega lífi, vera sannur sjálfum sér og gera það sem mann langar til. Það sama á við um nýju plötuna. Oasis hafa aldrei "grúvað" eins vel, aldrei verið eins "sækadelik" sem er mjög skrítið því þeir hafa aldrei verið eins edrú og nú. Platan inniheldur bæði seiðandi og rokkuð lög en það má einnig heyra smá "gospel"-áhrif samanber lagið "Roll it over".

"Standing on the shoulder of giants" er engin tímamótaplata í tónlistarsögunni en er það þó fyrir Oasis. Aðallega fyrir það að þeir eru að gera tilraunir með nýtt "sánd" og það að Liam semji eitt laganna. Þetta er svona millistigsplata, þeir eru að fara í gegnum ákveðnar breytingar.

Tveir upprunalegir meðlimir voru að hætta og nú eru komnir vægast sagt miklu svalari gæjar í þeirra stað.

Nýtt "logo", nýr lagahöfundur hefur bæst við, nýtt "sánd", nýir meðlimir, og ný framkoma. Að mínu mati eru þeir rétt að byrja.

P.s. Gallagher-bræður ef þið eruð að lesa þetta, þá vil ég bara þakka ykkur fyrir frábæra plötu og Noel, takk fyrir að skilja þetta með kókoshnetuna.