Í dag, sunnudaginn 27. febrúar, fara fram landsþingskosningar í Schleswig-Holstein, nyrsta sambandslandi Þýska sambands lýðveldisins. Davíð Kristinsson, fréttaritari í Berlín, segir niðurstöðu kosninganna beðið með mikilli eftirvæntingu þar sem þetta séu fyrstu kosningarnar eftir að fjármálahneyksli kristilegra demókrata (CDU) kom upp á yfirborðið fyrir um þremur mánuðum.

VOLKER Rühe, frambjóðandi CDU í Schleswig-Holstein, man þá tíð þegar ekki var talað um leynireikninga, milljóna marka ferðatöskur og dularfullt hvarf skjala sem snúa að vopnasölu.

Áður en hneykslið varð að daglegu umfjöllunarefni fjölmiðla var CDU í mikilli uppsveiflu. Flokkurinn hafði aukið fylgi sitt í öllum sjö landsþingskosningum ársins á sama tíma og Jafnaðarmannaflokkurinn (SPD) var í mikilli lægð eftir erfiða byrjun ríkisstjórnar Gerhards Schröders kanslara. Skoðanakannanir sýndu að CDU hafði 10% forskot á SPD í Schleswig-Holstein og óhjákvæmilegt virtist að sigurgangan héldi áfram í fyrstu landsþingskosningum hins nýja árþúsunds. Víst þótti að hinn 57 ára gamli Rühe, fyrrverandi varnarmálaráðherra í ríkisstjórn Kohls, yrði næsti forsætisráðherra Schleswig-Holstein. Þótt fjármálahneykslið hafi skyndilega breytt öllu gerði Rühe sér vonir um að menn færu að sjá fyrir endann á því máli í lok síðasta árs. Í hverri viku komu þó í ljós nýjar hliðar á hneykslinu og í miðri kosningabaráttunni í Schleswig-Holstein þurfti Rühe ávallt að vera tilbúinn að túlka nýjustu uppljóstranir í málinu, hvort sem þær sneru að Kohl, Schäuble eða CDU í Hessen.

Tvöföld kosningabarátta Rühes

Í kjölfar fjármálahneykslisins voru kristilegir demókratar í Schleswig-Holstein í erfiðri stöðu og skoðanakannanir sýndu að þriðji hver kjósandi sambandslandsins taldi að hneykslið hefði áfrif á val sitt í komandi kosningum. Mörgum kjósendum CDU er ofboðið vegna hneykslisins og ljóst er að einhverjir þeirra, sem kusu flokkinn í landsþingskosningunum 1996, munu nú refsa CDU með því að veita flokki frjálsra demókrata (FDP) atkvæði sitt.

Meðvitaður um að hneykslið í Hessen hafi neikvæð áhrif á flokkinn í Schleswig-Holstein reyndi Rühe að greina sig frá CDU annarra sambandslanda með slagorðinu ,,Það er Schleswig-Holstein sem skiptir máli." Með þessum orðum hvatti Rühe kjósendur til að einblína á sambandslandið í norðri og líta framhjá fjármálahneykslinu sem hefði lítið með CDU í Schleswig-Holstein að gera. Hann reyndi að beina athygli fjölmiðla frá hneykslinu og vekja áhuga þeirra á málefnabaráttu flokksins. Rühe boðaði niðurskurð í einu skuldugasta sambandslandi Þýskalands, endurbætur í mennta- og umferðarmálum, lækkun skatta, minni skriffinnsku, öflugri lögreglu í baráttunni gegn glæpum svo og að kvenna- og umhverfisráðuneytin yrðu lögð niður. Hann sagði kjósendur m.a. þurfa að taka ákvörðun um það hvort þeir vildu frekar refsa CDU vegna fjármálahneykslisins eða binda enda á vandamálin í grunnskólunum.

Þegar stytta tók í kosningar sýndu skoðanakannanir að málefnabaráttan ein myndi ekki nægja Rühe. Í kjölfar þess að Wolfgang Schäuble sagði af sér formannsembætti CDU í Þýskalandi og fjölmiðlar tóku að fjalla um Rühe sem mögulegan eftirmann féll slagorðið ,,Það er Schleswig-Holstein sem skiptir máli" í gleymsku. Rühe notaði nú sérhvert tækifæri til að minna á að árangur CDU í Schleswig-Holstein væri afgerandi fyrir framtíð Rühes innan stjórnar CDU í Þýskalandi. Kjósendur í Schleswig-Holstein væru þannig ekki aðeins að velja næsta forsætisráðherra sambandslandsins heldur einnig að taka ákvörðun um framtíð Rühes í Berlín.

Komið hefur upp sú gagnrýni að með þessari örvæntingarfullu stefnubreytingu sé boðskapur Rühes til kjósenda sá að þeir séu síður að taka ákvörðun um framtíð Schleswig-Holstein en að greiða atkvæði í vinsældakönnun. Niðurstaða könnunarinnar muni síðan skera úr um það hvort Rühe eigi möguleika á formannsembættinu þegar flokksfulltrúar CDU koma saman í maí.

SPD hefur gagnrýnt Rühe fyrir að ,,hugsa augljóslega aðeins um eigin frama" og nota kosningarnar í Schleswig-Holstein einungis sem stökkbretti inn í stjórnmál á sambandsþinginu. Mörgum virðist hugur Rühes staddur í fjögur hundruð kílómetra fjarlægð frá Kiel, þ.e. í Berlín, höfuðsetri sambandsstjórnmálanna. Úrslit kosninganna mun leiða í ljós hvort þessi áhættusama ,,stefnubreyting" Rühes hefur aukið við eða dregið úr fylgi CDU síðustu dagana fyrir kosningar.

Fyrsta konan í embætti forsætisráðherra

Þegar Rühe ákvað fyrir ári að fara í framboð gegn Heide Simonis (SPD) var honum ljóst að hinn vinsæli forsætisráðherra yrði ekki auðveldur andstæðingur. Samkvæmt nýlegri skoðanakönnun eru 74% íbúa sambandslandsins ánægðir með starf forsætisráðherra Schleswig-Holstein. Hin 56 ára gamla Simonis tók við embættinu 1993 en hún er eina konan sem gegnt hefur stöðu forsætisráðherra innan Þýska sambandslýðveldisins. Jafnaðarmenn stjórnuðu einir sambandslandinu í norðri frá 1988 en í landsþingskosningunum 1996 misstu þeir hreinan meirihluta á þinginu í Kiel og Simonis varð því að bjóða græningjum stjórnarsamstarf.

Eitt af slagorðum jafnaðarmanna í kosningabaráttunni að þessu sinni hefur verið ,,Okkar sterki maður er kona". Simonis hefur forðast að gera fjármálahneyksli kristilegra demókrata að umtalsefni í kosningabaráttunni, og á meðan að Rühe talar um að bjarga verði sambandslandinu frá glötun vitnar Simonis í sænska forsætisráðherrann, Göran Persson, sem nefnt hefur Schleswig-Holstein ,,perlu Þýskalands". Auk Schröders kanslara fór nóbelsverðlaunaskáldið nýkrýnda, Günter Grass, norður til að styðja við bakið á Simonis í kosningabaráttunni. Á sama tíma og CDU í Schleswig-Holstein hefur tapað 10% fylgi frá því að fjármálahneykslið kom upp í byrjun nóvembermánuðar hefur SPD aukið fylgi sitt um tæp 10%. Allt bendir nú til að Simonis verði áfram forsætisráðherra Schleswig-Holstein til ársins 2005 og gangi það eftir yrði þetta fyrsti sigur SPD í landsþingskosningum í lengri tíma.

Græningjar tæpir

Allra helst hefði Simonis viljað halda áfram stjórnarsamstarfinu við græningja og því verða engar breytingar í Schleswig-Holstein nái græningjar þeim 5% sem þarf til að komast inn á landsþingið. Skoðanakannanir undanfarinna vikna sýna þó að græningjar eru alveg á mörkunum og virðist vikuheimsókn vinsælasta stjórnmálamanns Þýskalands, Joschka Fischer, lítið hafa hjálpað flokksfélögunum í norðri í kosningabaráttunni. Græningjar eru langt frá því að vera jafn vinsælir í Schleswig-Holstein og SPD og segja má að umhverfisráðherra græningja sé jafnóvinsæll og Simonis er vinsæl. Fyrstu tvö árin í samsteypustjórninni voru erfið þar sem græningjar litu í senn á sig sem stjórnarflokk og stjórnarandstöðuflokk. Þeir reyndu að koma í veg fyrir iðnaðaráform, byggingu hraðbrauta og sjálfur umhverfisráðherrann var með mótmælaaðgerðir gegn áformum sem flokkarnir höfðu þegar komið sér saman um við myndun stjórnarinnar.

Þegar ljóst varð að fylgi græningja færi dvínandi tók flokkurinn að milda afstöðu sína. Flokkurinn hefur þó fengið bændur og sjómenn upp á móti sér vegna áforma um stækkun þjóðgarðs í héraðinu. Græningjar hafa áhyggjur af því að frjálsir demókratar, FDP, gæti orðið freistandi samstarfskostur fyrir SPD nái græningjar ekki 5% atkvæða og slíkt gæti leitt til aukins samstarfs FDP og SPD í öðrum sambandslöndum.

Ör fylgisaukning FDP

Framan af stefndi Wolfgang Kubicki, formaður þingflokks FDP í Kiel, á samsteypustjórn með CDU og útilokaði hann stjórnarsamstarf við SPD. Þessar yfirlýsingar komu í haust þegar CDU hafði 10% meira fylgi en nú. Í kjölfar fjármálahneykslisins hefur FDP hagnast á slæmu gengi CDU og tekist að tvöfalda fylgi sitt á tveimur mánuðum. Flokknum er nú spáð yfir 8% atkvæða og mörg ár eru síðan að fylgi FDP hefur mælst svo mikið. Þar sem ólíklegt þykir að CDU fái meira en 35% atkvæða virðist meirihlutastjórn flokkanna tveggja útilokuð.

Í kjölfar þessa hefur Kubicki nýlega lýst yfir auknum áhuga á samstarfi við SPD. Hann benti á að þar sem 80% hins svonefnda Schröder-Blair-skjals jafnaðarmanna sé skrifað upp úr stefnuskrá FDP sé fáránlegt að útliloka samvinnu við SPD. Á auglýsingaplakötum hefur FDP þó leitast við að niðurlægja Simonis í kosningabaráttunni og forsætisráðherrann segist ekki hafa hug á að mynda samsteypustjórn með FDP.

Danski minnihlutinn

Nái græningjar ekki 5% atkvæða er því líklegra að Simones leiti til SSW (Südschleswigscher Wahlverein), flokks danska minnihlutans í Schleswig-Holstein. SSW, sem er jafnaðarmannaflokkur, er spáð 4% fylgi en SPD um 45% atkvæða. Þar sem SSW er undanskilinn frá 5%-reglunni getur flokkurinn átt von á að ná þriðja manninum inn á landsþingið í Kiel og gæti það tryggt SSW og SPD hreinan meirihluta á þinginu. Ólíklegt er þó að SSW taki þátt í ríkisstjórn og líklegra þykir að SPD stjórni landinu með stuðningi þingmanna SSW.

Hægri öfgaflokkurinn NPD virðist hvorki hafa hagnast á fjármálahneyksli CDU né flugferðamisnotkun SPD-forkólfa og kosningaplaköt með slagðorðinu að Kohl, Schäuble og Rau séu ,,þrjár góðar ástæður til að kjósa NPD" virðast ekki ætla að skila fylgisaukningu. Flokkur "hins lýðræðislega sósíalisma" (PDS), arftaki austur-þýska kommúnistaflokksins, á engan möguleika í Schleswig-Holstein fremur en í öðrum sambandslöndum Vestur-Þýskalands.

Rühe gegn tveimur vinsælum konum

Á sama tíma og Rühe er í erfiðri baráttu við Simonis um embætti forsætisráðherra Schleswig-Holstein er hann jafnframt að keppa við aðra vinsæla konu, Angelu Merkel, framkvæmdastjóra CDU, um það hver verði kjörinn eftirmaður Schäubles á flokksþingi CDU í maí. Sigurmöguleikar Rühes gegn Merkel velta á því hvaða árangri flokkur hans nær í kosningunum í Schleswig-Holstein. Þegar fyrstu úrslit liggja fyrir þarf Merkel að stilla sér upp fyrir framan stjónvarpsmyndavélarnar og meta niðurstöðurnar sem ákvarðað gætu framtíð Rühes svo og hennar sjálfrar. Merkel getur þó ekki verið viss um hvað bíði hennar þar sem fjórðungur aðspurðra í skoðanakönnun hafði ekki enn gert upp hug sinn.