Guðmundur Þórir Magnússon fæddist í Reykjavík 27. júní 1918. Hann lést á Sjúkrahúsi Reykjavíkur hinn 21. febrúar síðastliðinn. Foreldrar hans voru Kristín Guðmundsdóttir húsmóðir, f. 29. júlí 1888 í Hvassahrauni á Vatnsleysuströnd, d. 1. október 1972, og Magnús Magnússon múrari, f. 22. október 1876 á Hvanneyri í Borgarfirði, d. 3. nóvember 1975.

Systkini Guðmundar á lífi eru Magnús A., Valtýr E., Gunnsteinn og Einara K. Látin eru Einara, Guðmundur, Ingvar, Skúli og Bára.

Hinn 13. febrúar 1943 kvæntist Guðmundur Jónínu Friðriksdóttur, f. á Hvammstanga hinn 29. nóvember 1907, d. 14. nóvember 1977. Hinn 31. desember 1983 kvæntist Guðmundur seinni konu sinni Sigríði Kristinsdóttur, f. 15. nóvember 1921, d. 23. maí 1998.

Útför Guðmundar fer fram frá Fossvogskirkju á morgun, mánudaginn 28. febrúar, og hefst athöfnin klukkan 13.30.

Á mánudagsmorguninn síðasta lést Guðmundur Þórir Magnússon, gamalgróinn Reykvíkingur. Atvik höguðu því svo að við undirrituð bjuggum í sama húsi og hann í tæpa tvo áratugi og viljum kveðja hann að lokinni þeirri samfylgd.

Þessi ár áttum við margvísleg samskipti í sambandi við húsnæðið enda sumt af því sameiginlegt. Einnig þurfti að standa í ýmiss konar viðhaldi á húsinu, skipta um þak og glugga, setja nýtt rafmagn og ýmislegt fleira. Ekkert er eins auðvelt og að deila um peninga og skiptingu kostnaðar en það tókst okkur alla tíð blessunarlega að forðast. Er mála sannast að aldrei bar skugga á sambúð okkar og samstarf allan þennan tíma enda var Guðmundur einstaklega traustur og áreiðanlegur í öllum samskiptum. Ekki má heldur gleyma því að Guðmundur og Sigríður, kona hans, sýndu börnum okkar ætíð alúð og virðingu.

Guðmundur var meðalmaður á vöxt, röskur í hreyfingum en hæglátur hversdagslega. Hann vann í Sundlaugum Reykjavíkur, í Laugardalslaug, þegar við kynntumst honum fyrst, bæði við eftirlit og margs konar viðhald. Í laugunum var hann stundum kallaður Guðmundur "vitri" því hann var einstaklega minnugur á liðna daga og vel að sér í mannfræði, enda mála sannast að hann hafi þekkt flesta þá sem stunduðu laugarnar á hans tíð.

Fyrir nokkrum árum lét Guðmundur af störfum fyrir aldurs sakir en hann fann sér verkefni heima fyrir enda handlaginn að upplagi. Hann dyttaði að íbúðinni og ófáar stundir var hann í bílskúrskompunni að lagfæra og mála. Maður á eftir að sakna þess að heyra ekki til hans eða sjá hann vera að bardúsa eitthvað úti við.

Síðari kona Guðmundar var Sigríður Kristinsdóttir. Þessi síðari ár fóru þau hjónin næstum því árlega í heimsókn til ættingja sinna og vina í Bandaríkjunum. Sigríður lést fyrir tæpum tveimur árum, vorið 1998. Það var Guðmundi mikið áfall enda var Sigríður glaðvær og ljúf kona, og honum fór aftur á ýmsan hátt upp úr því. Einnig ágerðist heilsuleysi af ýmsum toga og hann var minna á ferli en endranær. Börn Sigríðar öll sýndu Guðmundi mikla ræktarsemi eftir lát Sigríðar, t.d. bjó Guðrún hjá honum seinustu mánuðina. Þeim og öðrum aðstandendum Guðmundar Magnússonar vottum við okkar innilegustu samúð.

Jón Torfason, Sigríður Kristinsdóttir.