Soffía Björnsdóttir fæddist á Kleppjárnsstöðum í Hróarstungu í NMúlasýslu 26. janúar 1936. Hún lést á Reykjalundi 18. febrúar síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Björn Árnason, f. 14.5. 1888, d. 8.5. 1962, og Anna Þuríður Hallsdóttir, f. 25.4. 1895, d. 16.7. 1989. Soffía var yngst sjö systkina. Elst var Hallfríður, f. 23.7. 1920, d. 27.8. 1993; Guðlaug, f. 28.10. 1922; Oddur, f. 2.1. 1926; Gunnhildur, f. 5.1. 1928; Sveinn, f. 3.4. 1930; og Gísli, f. 24.9. 1933.

Soffía giftist 25. maí 1958 eftirlifandi eiginmanni sínum Bjarna Ólafssyni, f. 9.1. 1935. Eignuðust þau þrjú börn. Þau eru: Ingibjörg, f. 21.6. 1956, sambýlismaður hennar er Trond Haave og eru þau búsett í Ósló. Anna Bettý, f. 26.2. 1958, eiginmaður hennar er Trond Ingebrigsten og eiga þau þrjú börn og eru búsett í Larvik í Noregi. Runólfur, f. 20.9. 1962, eiginkona hans er Ragnheiður Helgadóttir og eiga þau tvö börn og eru búsett í Hafnarfirði.

Útför Soffíu fór fram í kyrrþey að ósk hinnar látnu frá Seltjarnarneskirkju 25. febrúar.

Ég vil minnast móður minnar með örfáum orðum þótt erfitt sé þar sem hún var hrifin of fljótt á brott frá okkur. Þetta er mikið áfall fyrir okkur öll sem þekktum hana, ekki síst föður minn þar sem þau voru orðin tvö í heimili og byggðu því mikið hvort á öðru. Allir þeir sem þekktu móður mína vita hvaða manneskju hún hafði að geyma. Þrátt fyrir þau miklu og erifiðu veikindi sem hún átti við að stríða nánast alla sína ævi gafst hún aldrei upp. Móðir mín var einstaklega sterk og vönduð persóna sem hafði alltaf réttu svörin þegar á þurfti að halda, réttsýnni manneskju hef ég aldrei kynnst.

Það var alltaf jafn gott að koma á Skerjabrautina til mömmu og pabba og fá kaffi og tilheyrandi. Þar voru alltaf allir velkomnir jafnt háir sem lágir. Ég man aldrei eftir því að móðir mín hafi gert mannamun á nokkurn hátt, hvað þá talað illa um nokkurn mann. Þetta var einn af þeim einstöku eiginleikum sem einkenndi hana. Ekki get ég kvatt móður mína nema minnast á austurferðirnar heim í Þórsnes til ömmu og afa þangað sem við fórum á hverju sumri. Þar leið henni alltaf vel og lék við hvern sinn fingur þegar hún var komin heim á æskuslóðirnar sem hún unni svo heitt.

Ég á eftir að sakna móður minnar sárt eins og við öll sem þekktum hana, ég vil þakka henni af heilum hug allt sem hún hefur gert fyrir mig í gegnum tíðina og vona að ég hafi lært eitthvað af öllu því sem hún hafði að gefa og mun ávallt minnast hennar með söknuði.

Mamma, í sorg minni get ég huggað mig við að nú veit ég að þér líður vel og hefur verið tekið vel á móti þér hjá skapara þínum. Megi góður Guð geyma þig og varðveita um alla eilífð og styrkja föður minn í hans miklu sorg.

Þinn einlægur sonur,

Runólfur.

Elsku mamma. Það var erfitt að vera langt í burtu þegar hringt var í okkur föstudagskvöldið 18. febrúar og okkur sagt að þú værir dáin. Við gátum ekkert gert, bara beðið eftir næsta degi. Við komumst til þín á mánudegi. Í huga okkar varst þú líka úti á flugvelli til þess að taka á móti okkur, brosandi og góð eins og alltaf. Það á eftir að taka sinn tíma að skilja að þú sért ekki hér og að við sjáum þig ekki framar. En hvar sem við lítum í kringum okkur hér á Skerjabrautinni þá ert þú þar.

Elsku mamma, við gætum skrifað og skrifað svo margt um þig . Allir sem hittu þig sáu hversu góð kona þú varst. Allir voru jafnir í þínum augum.

Það verður erfitt að kveðja þig. Við vitum að þú varst orðin þreytt og að við megum ekki bara hugsa um okkur.

Mamma, við þökkum þér fyrir allt. Þú átt alltaf eftir að vera með okkur þar til við hittumst aftur.

Vertu sæl, vor litla, hvíta lilja

lögð í jörð með himnaföður vilja,

leyst frá lífi nauða;

ljúf og björt í dauða

lést þú eftir litla rúmið auða.

(M. Joch.)

Guð blessi þig og styrki pabba okkar.

Þínar dætur,

Inga Lísa og Anna Bettý.

Það er erfitt að koma orðum að innstu hugsunum sínum á stund sem þessari.

Þú varst mér eins og móðir með þitt hlýja og opna viðmót. Hvernig þú tókst á móti mér með opnum örmum, stráklingnum frá Noregi sem hafði orðið ástfanginn af Önnu Bettý dóttur þinni. Mér leið eins og syninum sem kom heim eftir mörg ár úr útlegð.

Þú dæmdir aldrei neinn, sama hver það var. Þegar við komum í frí til Íslands var ekkert of gott fyrir fjölskyldu sem stækkaði ört.

Heimili þitt var sem hjarta þitt, í því rúmaðist allt sem við þurftum og meira til. Þegar við Bjarni fórum í veiðitúr fórst þú alltaf á fætur að nóttu til til þess að smyrja nesti og hita kaffi. Ef við komum seint heim, beið okkar alltaf heitur matur. Að sjálfsögðu fylgdu alltaf nokkur vel valin orð og spurningar um hvernig ferðin hefði gengið.

Kæra Soffía mín. Fjölskyldan var það sem þú lifðir fyrir, ef henni leið vel þá varstu ánægð. Þú snerist í kringum okkur til þess að okkur liði eins vel og hægt væri. Þó svo að þú værir sárþjáð af liðagigt þá kvartaðir þú aldrei.

Þú varst sönnun þess að kærleikurinn sigrar allt, líka mótlæti.

Kæra tengdamóðir. Það er óskiljanlegt að þú skulir ekki vera með okkur lengur, finna fyrir hlýju þinni og hlusta á þína djúpu speki.

Söknuðurinn er sár. Kæra Soffía við munum alltaf geyma þig innst í hjarta okkar og hugsun okkar verður alltaf hjá þér.

Takk fyrir allt og megir þú hvíla í friði.

Síðasta kveðja á leiðinni frá þínum kæra tengdasyni,

Trond.

Soffía mágkona mín hefur verið kölluð úr þessu jarðlífi. Síðustu árin voru henni erfið. Hún var oft sárþjáð af liðagigt og þurfti stöðugt að vera undir læknishendi. Hún hafði gengist undir mjaðmaskiptaaðgerð í byrjun febrúar og virtist það ganga að óskum og var Soffía komin til endurhæfingar á Reykjalundi er hún lést þar skyndilega sl. föstudagskvöld.

Ég hitti Soffíu fyrst fyrir 45 árum er hún lá á Landakoti þar sem hún kynntist bróður mínum. Þessi fallega unga stúlka var í svörtum kínanáttslopp með rauðri rós á bakinu og horfði ástföngnum augum á bróður minn. Fljótlega flutti hún heim til okkar og þar sem hún hafði verið á húsmæðraskóla kunni hún ýmsar kvenlegar dygðir, svo sem hannyrðir, matargerð og ýmislegt fleira, sem fimm ára barn heillaðist af. Soffía var líka mjög músíkölsk, hafði gaman að söng og kunni urmul allan af vísum og ljóðum. Hún var einnig mjög blíð og góð við okkur systurnar.

Sumarið 1956 fæddist frumburðurinn Inga Lísa, Anna Bettý tæpum tveimur árum seinna og

síðan sonurinn Runólfur árið 1962. Sem sjómannskona þurfti Soffía að sjá um rekstur heimilisins og virtist það ekki vefjast fyrir henni enda mikill dugnaðarforkur og hamhleypa til allra verka meðan heilsan leyfði.

Þau hjónin voru mjög samrýnd og fór fjölskyldan oftast á sumrin austur á land í Þórsnes þar sem Soffía var uppalin. Þar dvöldu þau hjá Önnu móður Soffíu og Runólfi fóstra hennar. Eftir að Runólfur lést fækkaði ferðunum en við tóku ferðir til Noregs til Önnu Bettýar og fjölskyldu. Fjölskyldan var ævinlega í öndvegi hjá Soffíu og Bjarna. Börnin þeirra og barnabörnin 5 voru þeirra mestu auðæfi.

Að lokum vil ég minnst á hversu vel Soffía reyndist föður mínum, eftir að hann missti heilsuna, þau 8 ár sem hann lifði. Komu þá hennar bestu mannkostir fram, sem erfitt er að lýsa með orðum. Hafir þú ævinlega bestu þakkir fyrir það og samfylgdina alla á lífsleiðinni. Bjarni söknuður þinn og barnanna er mikill. Megi algóður Guð styrkja ykkur. Hvíl í friði, kæra mágkona.

Elísabet Benediktsdóttir.

Ég ætla hér að kveðja elsku ömmu mína. Amma var ein af bestu persónum sem ég hef kynnst, hún var alltaf góð við mig og var yfirleitt góð við alla sem hún umgekkst. Það var alltaf gott og gaman að koma heim og hitta þig og afa. Ég á eftir að sakna elsku ömmu minnar mjög mikið eins og margir aðrir.

Amma, ég veit að þú ert komin á góðan stað og líður miklu betur. Það huggar mig mjög að vita það. Ég vona að guð hjálpi afa, pabba og systrum hans vegna þeirra mikla missis.

Megi guð geyma þig og ég vona að þú hafir það gott þar sem þú ert.

Þinn

Helgi.

Þegar fréttin kom þá held ég að við höfum ekki skilið það. Þetta var bláköld staðreynd. Persónulega held ég að ég eigi ekki eftir að skilja það, e.t.v. ekki fyrr en ég kem til Íslands aftur og hún er þar ekki til að taka á móti okkur.

Amma hefur alltaf verið þessi trausta og sterka persóna, sem lét velferð fjölskyldunnar ganga fyrir sinni eigin.

Hún var kona sem tók því sem að höndum bar, gerði það besta úr öllu.

Við efumst um að við eigum eftir að hitta aðra eins. Amma var manneskja sem tók fólki eins og það var án þess að dæma það að ástæðulausu.

Ég veit ekki hvar hún er núna en hvar sem hún er þá líður henni vel. Viðhorf hennar til lífsins var eins og hún sagði alltaf, að við yrðum að halda okkar striki, því við vitum öll að hún lifir áfram í huga okkar og hjarta og dag nokkurn hittumst við aftur.

Það er sárt til þess að hugsa að ég skuli ekki geta fylgt henni, en ég veit að hún skilur það hvar sem hún er, því amma skildi alltaf allt og vissi allt.

Amma, við systkinin eigum eftir að sakna þín. Ég veit að Paul Bjarni og Lea Katrin hugsa eins og ég en eiga erfitt með að koma orðum að því, kannski er óþarfi að nefna það en eins og ég sagði þá veistu það.

Við elskum þig, amma. Hvíl í friði (þú átt það skilið).

Sindre, Paul Bjarni og

Lea Katrin.

Er við kveðjum þig, Soffía mín, og horfum til liðins tíma, þá er gott að muna það sem gaf gleði og ánægju, þá nístir sorgin og söknuðurinn ekki eins sárt. Við horfum eftir þér, sem hafðir svo góð áhrif á líf okkar, sem fjársjóð mannauðs, svo ríkulega gafstu. Aufúsugestir vorum við alltaf á heimili þínu hvernig sem aðstæður voru og alltaf var jafn gott að koma, spjalla yfir kaffisopa, hlæja og eyða tíma saman. Með söknuði við lítum til þess.

Elsku Bjarni, orð mega sín lítils en hugur okkar er hjá þér og við sendum þér og fjölskyldu þinni okkar innilegustu samúðarkveðjur og biðjum algóðan guð fyrir ykkur.

Valdís og fjölskylda.

Elsku Soffía mín, nú þegar þú ert horfin sjónum okkar um stund, langar okkur til að kveðja þig með nokkrum orðum í þakklætisskyni fyrir vináttu þína, því trygglyndari vin er ekki hægt að hugsa sér. Það sem mest stóð upp úr í persónuleika þínum var hvað þú varst ætíð hrein og bein. Aldrei þurfti neinn að velta vöngum yfir hvaða meining lægi að baki orða þinna, þú sagðir alltaf skýrt og skorinort um hvað var að ræða. Og að sumu leyti minntir þú stundum á konuna með brauðið í sögunni eftir Halldór Laxness, því aldrei hefðir þú tekið það sem þér var trúað fyrir.

Eftir tuttugu ára náinn vinskap er margs að minnast og mikils að sakna, en samt ber að þakka að nú hrjáir þig ekki sjúkdómurinn sem var þér orðinn lítt bærilegur. Nú hvílir þú í náðarfaðmi Guðs þar sem fallega sálin þín fær notið sín, laus við allar líkamlegar þjáningar.

Við biðjum miskunnsaman Guð að styrkja fjölskyldu þína í sorg hennar og söknuði. Fjölskyldan var þér allt og þú sem varst þeirra styrkur ert nú horfin.

Blessuð sé minning þín.

Sofi augu mín,

vaki hjarta mitt,

horfi ég til Guðs míns.

Signdu mig sofandi,

varðveittu mig vakandi,

lát mig í þínum friði sofa

og í eilífu ljósi vaka.

(Gömul bæn.)

Anna Júlía og Guðmundur.

Elsku Soffía er dáín. Á stundu sem þessari eru orðin svo fátæk, þar sem sorgin og söknuður er mikill. Þú varst ein af þeim sem höfðu mikil áhrif á mín uppvaxtarár og þú hefur alltaf verið nálægt hjarta mínu. Með miklum söknuði ert þú kvödd en ljúf minning þín lifir áfram í hjarta okkar.

Elsku Bjarni og fjölskylda, ég bið Drottin að gefa ykkur þann styrk sem þarf á þessum erfiðu tímum. Hann er okkar huggari.

Ég hef augu mín til fjallanna:

Hvaðan kemur mér hjálp?

Hjálp mín kemur frá Drottni,

skapara himins og jarðar.

(Davíðssálmur 121:1-2.)

Anna María.