Hrafnhildur Þórðardóttir fæddist í Reykjavík 1. ágúst 1932. Hún lést á líknardeild Landspítalans 10. febrúar síðastliðinn. Foreldrar hennar voru hjónin Valgerður Jóhannesdóttir, f. 24. september 1909, og Þórður Bjarnason, f. 4. janúar 1901, d. 9. janúar 1976. Systkini Hrafnhildar eru Viðar, f. 28. febrúar 1931; Bjarni, f. 5. ágúst 1936; Jóhannes, f. 1. maí 1938 og Þóra Vala, f. 1. apríl 1954.

Hrafnhildur ólst upp í Hafnarfirði og bjó þar lengst af ævinni. Hún lauk gagnfræðaprófi frá Flensborgarskólanum í Hafnarfirði og stundaði síðar verslunarnám í Englandi.

Hrafnhildur starfaði um árabil í Sparisjóði Hafnarfjarðar og frá árinu 1972 í Búnaðarbanka Íslands og hjá Lánasjóði landbúnaðarins alla tíð síðan. Þá starfaði hún um nokkurra ára skeið á skrifstofu Loftleiða í Kaupmannahöfn.

Útför Hrafnhildar hefur farið fram í kyrrþey.

Við erum ekki öll eins. Það gerir lífið svo margbreytilegt og skemmtilegt. Mismunurinn felst m.a. í því hvernig við högum göngu okkar eftir vegi lífsins. Sumir lifa hratt og eru fyrirferðarmiklir. Aðrir reyna að marka svo djúp spor í veginn að eftir þeim verði tekið.

Hadda mágkona mín var hæglát og hlédræg. Var ekki mikið fyrir að láta á sér bera. Margmenni átti ekki við hana, hún naut sín best með nánustu fjölskyldunni. Hún hafði ákveðnar skoðanir, en lét þær ekki alltaf í ljósi með mörgum orðum, stundum aðeins með svipbrigðum sem voru auðskilin. Hún var afar samviskusöm og er ég sannfærð um að það hefur verið lán fyrir stofnanirnar sem hún vann hjá að njóta starfskrafta hennar. Það sem hún tók sér fyrir hendur var gert af mikilli vandvirkni. Ef hún taldi sig ekki geta gert eitthvað fullkomlega þá lét hún það vera. Kæruleysi átti hún ekki til og gerði ekki neitt sem ekki var vel séð fyrir endann á. Lífsgöngu sína gekk hún sjálfstæð og engum háð. Hún hafði fágaðan smekk og næmt listrænt auga. Hún hafði gott skopskyn og átti auðvelt með að gera grín að sjálfri sér.

Nú hefur hún kvatt okkur og minningarnar einar eru eftir.Veikindum sínum sem stóðu í rúmt ár tók hún af miklu æðruleysi og gætti þess vel að hvorki ættingjar né starfsfólk sjúkrastofnana þyrftu að hafa of mikið fyrir henni. Síðustu mánuði lá hún á líknardeild Landspítalans þar sem hún naut frábærrar umönnunar starfsfólksins. Hadda giftist ekki og eignaðist ekki börn. Hún bjó í nágrenni við móður sína, Þóru Völu systur sína og hennar börn, Þórð, Hrafnhildi Völu, Kristján og Þórdísi. Þeim var hún traustur félagi, stoð og styrkur. Ég bið góðan Guð að styrkja þau á sorgarstund. Guð blessi minningu Hrafnhildar Þórðardóttur.

Kristín Guðmundsdóttir.

Það er kvöld og ég sit við rúmstokkinn hjá Höddu frænku og er að kveðja hana í hinsta sinn. Þessi samverustund okkar er eilítið óraunveruleg. Ég held í höndina á henni og finn löngun til að senda henni styrk og hlýju. Margar hugsanir og tilfinningar sem erfitt er að skilgreina renna í gegnum huga minn á þessari stundu. Ég sé Höddu í huga mér eins og hún var í blóma lífsins. Hún var góð frænka, sérstaklega ósérhlífin manneskja sem hugsaði fyrst og síðast um aðra. Við systkinin nutum góðvildar hennar í æsku, ekki síst þegar hún leit eftir með okkur dagstund þegar svo stóð á hjá foreldrum okkar. Þá kynntist ég vel hlýju hennar og góðsemi sem varaði æ síðan. Sérstaklega eru mér minnisstæð hvatningarorð hennar til mín á unglingsárunum. Þá lét hún mig alltaf finna að hún ætlaðist til mikils af mér, að ég nýtti hæfileika mína vel. Hún sat sjaldan á ákveðnum skoðunum sínum um menn og málefni. Hún sá gjarnan spaugilegu hliðina á tilverunni og oftar en ekki gall við hvellur hlátur hennar er dægurmálin bar á góma. Hadda var þó alvörugefin um margt og bar tilfinningar sínar ekki á torg. Þó fór ekki milli mála að hún fann til með fólki sem á einhvern hátt átti um sárt að binda.

Hadda frænka giftist aldrei. Hún var ætíð afar nátengd ömmu, Valgerði Jóhannesdóttur, og systur sinni, Þóru Völu, og hennar börnum. Reyndist hún þeim mikil stoð og stytta alla tíð. Nú á kveðjustund eiga amma, Þóra Vala og börnin sérstaklega um sárt að binda við fráfall Höddu. Hún var sannarlega einstaklega vönduð manneskja og samviskusöm og er hennar sárt saknað af mörgum, ættingjum sem og traustum vinum.

Hadda mín, ég kveð þig nú og bið drottin um að taka þig í faðm sér, vernda þig og blessa.

Þín frænka,

Valgerður Jóhannesdóttir.

Ýmsar bernskuminningar um Höddu föðursystur mína koma upp í hugann þegar hún er kvödd. Fyrst man ég eftir kaffihúsaferðum í Kaupmannahöfn, þegar við bjuggum þar, síðar sleðaferðir í Hveradali svo og heimsóknir mínar á vinnustað Höddu, Sparisjóð Hafnarfjarðar. Þá var Sparisjóðurinn lítil stofnun sem taldi aðeins sex til sjö starfsmenn, sem handfærðu innlagnir og úttektir í sparisjóðsbækur. Oftast enduðu þær heimsóknir með því að hún gaukaði að mér aurum fyrir ís. Hadda var hæglát kona sem hafði sig ekki mikið í frammi. Hún hafði samt skoðanir á flestöllum málum og bjó yfir góðri kímnigáfu. Hún var mjög vandvirk og samviskusöm hvort sem var í vinnu eða heima. Hadda bjó ýmist hjá afa og ömmu eða í næsta nágrenni við þau og var alla tíð órjúfanlegur hluti af lífinu þar, ekki síst eftir að afi dó. Hadda var ekki mikið gefin fyrir bakstur og eldamennsku, en fyrir u.þ.b. áratug tók hún við því hlutverki af ömmu að baka fyrir jólaboð stórfjölskyldunnar. Það var eins og hún hefði ekki gert annað alla ævi, slíkur var árangurinn. Þannig var með allt sem hún tók sér fyrir hendur, alltaf sýndi hún sömu vandvirknina.

Hadda giftist ekki og varð ekki barna auðið. Hún tók sérstöku ástfóstri við Þóru Völu yngri systur sína og börn hennar, þau Þórð, Hrafnhildi Völu, Kristján og Þórdísi. Hún lét sér mjög annt um þau og bar hag þeirra alla tíð fyrir brjósti.

Hadda greindist með krabbamein í nóvember 1998. Hún tókst á við þann erfiða sjúkdóm af einstöku æðruleysi og hugrekki. Síðustu mánuðina dvaldi hún á líknardeild Landspítalans í Kópavogi og naut einstakrar umönnunar starfsfólksins þar. Ég bið Guð að styrkja ömmu, Þóru Völu og börnin hennar. Blessuð sé minning Hrafnhildar Þórðardóttur.

Þórdís Bjarnadóttir.

Kallið er komið,

komin er nú stundin,

vinaskilnaðar viðkvæm stund.

Vinirnir kveðja

vininn sinn látna,

er sefur hér hinn síðsta blund.

Margs er að minnst,

margt er hér að þakka.

Guði sé lof fyrir liðna tíð.

Margs er að minnast,

margs er að sakna.

Guð þerri tregatárin stríð.

Far þú í friði,

friður Guðs þig blessi,

hafðu þökk fyrir allt og allt.

Gekkst þú með Guði,

Guð þér nú fylgi,

hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.

(V. Briem.)Mín kæra vinkona Hrafnhildur Þórðardóttir er látin. Fyrir rúmu ári greindist hún með krabbamein og fljótlega kom í ljós að meinið hafði dreift sér svo að framundan voru erfiðir tímar.

Ég man ekki svo langt aftur að ég hafi ekki átt Höddu fyrir vinkonu, enda sagði Valgerður móðir hennar, að við hefðum aðeins verið á þriðja árinu þegar vinátta okkar hófst. Við ólumst upp í Hafnarfirði og vorum algerar samlokur öll okkar bernsku- og unglingsár. Við vorum saman í handbolta í Haukum. Fljótt varð Hadda mjög góð í marki. Við vorum líka saman í fimleikahóp sem Þorgerður Gísladóttir íþróttakennari stjórnaði. Þessi hópur stofnaði síðan Fimleikafélagið Björk árið 1951.

Hadda lauk prófi frá Flensborgarskóla vorið 1949. Eftir það dvaldist hún um tíma í Bretlandi og vann síðar í Noregi og Danmörku. Þar starfaði hún hjá Flugfélagi Íslands í Kaupmannahöfn. Lengst af var hún bankastarfsmaður, fyrst í Sparisjóði Hafnarfjarðar en síðar í Búnaðarbankanum við Hlemm. Þar vann hún þar til skömmu fyrir jól 1998 er hún varð að hætta vegna veikinda.

Hadda var ótrúlega sterk í veikindum sínum og aldrei heyrði ég hana kvarta, þrátt fyrir að útlitið væri erfitt nánast frá upphafi veikindanna. Hún hugsaði mikið um fólkið sitt, aldraða móður og ekki síst Þóru Völu systur sína og hennar börn, en það var mjög kært með Höddu og Þóru Völu. Einu sinni þegar ég kom til Höddu og hún var að útskýra fyrir mér hvernig hún vildi hafa sína kveðjustund varð mér að orði: "Ef þú heldur svona áfram fer ég bara að skæla." Þá svaraði hún: "Það er ekkert ljótt við það að gráta, en þetta er leiðin okkar allra." Þetta lýsir best hennar sálarró.

Ég á eftir að tárast og sakna minnar kæru vinkonu, en allar þær góðu minningar sem ég á um þá bestu vinkonu sem ég hef nokkru sinni átt munu ylja mér um ókomin ár. Við Gunni, Þórdís, Þór og fjölskyldur vottum Valgerði, Þóru Völu, bræðrum Höddu og fjölskyldum þeirra okkar dýpstu samúð. Ég bið góðan Guð að varðveita þig, elsku Hadda mín. Far þú í friði.

Jónína Guðmundsdóttir (Nína).