Kristín Ólöf Gunnarsdóttir Duncan fæddist á Ísafirði 23. apríl 1971. Hún lést á Methodist Central Hospital í Memphis TN í Bandaríkjunum 9. febrúar síðastliðinn. Foreldrar hennar eru: Sigríður Ólöf Magnúsdóttir Smeltser, búsett í Memphis, og Gunnar Kristdórsson, búsettur á Akureyri. Hálfsystkini Kristínar eru : Elín D. Gunnarsdóttir, Kristdór Þ. Gunnarsson, Stefán Gunnarsson, öll búsett á Akureyri, Fredrick H. Myers, búsettur í Ohio í Bandaríkjunum, Christopher L. Hungerford , búsettur í Great Lakes, Illinois, Bandaríkjunum og Natalie M. Hungerford, búsett í Memphis. Kristín fluttist með móður sinni frá Ísafirði í júní 1971 til Keflavíkur og þaðan 9. febrúar 1972 til Ohio. Frá 1972 og fram til þessa dags bjó hún í Bandaríkjunum ef undanskilið er árið 1981 er hún bjó í Hafnarfirði.

Kristín sótti barnaskóla í Michigan , Hafnarfirði og Florida og lauk síðan námi í gagnfræðaskóla í Millington 1989.

Kristín giftist eftirlifandi manni sínum, John Barry Duncan, 1. ágúst 1996. Kristín átti fjögur börn: Jessica Mary Ólöf, f. 12. ágúst 1989, d. 11. nóv. 1989, Zachary Aaron Duncan, f. 17. sept. 1990, Helena Rhianna Duncan, f. 30. des. 1994, Ginger Lauren Duncan, f. 30. maí 1998. Kristín og maður hennar áttu tvær skartgripaverslanir í Memphis og vann Krist ín og rak aðra verslunina en maður hennar, Barry, hina.

Útför Kristínar var gerð frá Roller-Citizens Funeral Home í Memphis 12. febrúar og var hún borin til grafar í Memorial Park í Memphis.

"Hugsaðu fallegar hugsanir og kysstu og faðmaðu alla fyrir mig," var hún vön að enda bréfin til mín, en við höfðum skrifast á í nokkurn tíma.

Þegar ég fór til Bandaríkjanna nokkrum dögum áður en hún lést hélt ég að ég vissi hverju ég myndi mæta. Aldrei bjóst ég við að áfallið yrði slíkt sem það varð. Að sjá Kristínu, sem ég hafði aldrei séð nema skælbrosandi og fallega, liggja í sjúkrarúmi sínu með öll þessi tæki tengd við sig til að halda í síðasta lífsneistann var mér nánast ofviða. En hún gat brosað til mín, kreist hönd mína og kysst mig þrátt fyrir slæma líðan sína. Hún vissi að ég var þarna.

Undanfarnir mánuðir hafa verið mjög erfiðir fjölskyldu Kristínar. Maðurinn hennar og börnin hennar þrjú, Zachary níu ára, Helena fimm ára og Ginger tveggja ára, sem hún skilur eftir á þessari jörðu, eiga mjög erfitt með að sætta sig við að verið sé að taka frá þeim stærstu ástina í lífi þeirra. Hún var góð móðir og eiginkona og barðist hetjulega fyrir góðu lífi fyrir sig og fjölskyldu sína. Öll þau tár sem felld hafa verið undanfarna mánuði, og þau eru ófá, eru merki þess hve yndisleg systir mín var. Hún færði ekki einungis fjölskyldu sinni gleði, heldur reyndi hún ávallt að hjálpa þeim sem illa gekk og höfðu þurft að láta í minni pokann í lífinu. Hún átti stóran vinahóp og allir dýrkuðu hana og dáðu.

Ég, unnusti minn, faðir minn og kona hans ákváðum fyrir tæpu einu og hálfu ári að fara í stutt frí til Flórída og datt okkur þá í hug að reyna að ná sambandi við Kristínu, sem við höfðum því miður of lítið samband átt við. Það varð úr að hún tók sig til og flaug þangað með börnin sín þrjú til að hitta okkur. Þessi tími sem við áttum með henni þá, auk þess þegar hún kom til Íslands í fyrravor í nokkra daga, var yndislegur og þökkum við svo mikið fyrir að hafa fengið að kynnast að einhverju leyti þeirri frábæru og lífsglöðu manneskju sem hún var. Eins sárt og það er að missa ungan ástvin, þá eru þessir dagar yndislegir í minningunni.

Ég veit að systir mín hvílir í friði og er í góðum höndum guðs. Ég hugsa til hennar á hverjum degi og veit að hún vakir yfir okkur og verndar.

Elsku Kristín, ég og fjölskylda þín sendum þér innilegar ástar- og saknaðarkveðjur.

Elín Dögg.

Ekki hvarflaði að mér þegar ég kvaddi Kristínu frænku mína, þessa glaðlegu ungu konu, í Leifsstöð í apríl á síðasta ári, að svona stutt væri hjá henni í baráttu við illvígan sjúkdóm.

Kristín hafði löngu ákveðið að heimsækja gamla landið og á síðasta ári lét hún verða af því. En atvikin höguðu því þannig að langafi hennar Bæring Þorbjörnsson frá Ísafirði lést 16. mars 1999 og vegna þess ákvað Kristín þá með mjög stuttum fyrirvara að flýta för sinni og kom til landsins með yngsta barn sitt Ginger Lauren. Voru þær mæðgur við útför langafa síns og langalangafa. Eftir stutta dvöl að útförinni lokinni fór Kristín með litlu dóttur sína til Akureyrar og heimsótti föður sinn, hálfsystkini og fjölskyldur þeirra. Ég man hvað Kristín ljómaði af ánægju þegar hún kom til baka frá Akureyri. Móttökurnar sem hún fékk veittu henni mikla gleði og ánægju. Farið var með hana í ferðalög um nágrenni Akureyrar og sveitir. Þó veitti snjósleðaferðin henni mesta ánægju þar sem henni varð tíðrætt um hana. Kristín hafði á orði að hún óskaði þess að koma sem fyrst aftur til Akureyrar og þá með fjölskylduna. En það eru svo margar óskirnar sem ekki rætast og þannig fór með þessa ósk þessarar ljúfu, broshýru, ungu frænku minnar.

Kristín dvaldi hjá okkur hjónunum í nokkra daga eftir að hún kom að norðan og er mér það minnisstætt, þegar við kvöddum hana á Keflavíkurflugvelli, hvað hún var glöð og ánægð með þessa ferð til Íslands og síðustu orðin hennar þegar hún kvaddi okkur voru: "Ég kem bráðum aftur."

Kæra frænka, við kveðjum þig með söknuði og biðjum Guð að blessa þig og vera með þér á þeim leiðum sem þú nú hefur lagt út á.

Far þú í friði ,

friður Guðs þig blessi,

hafðu þökk fyrir allt og allt.

Gekkst þú með Guði,

Guð þér nú fylgi,

hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.

(V. Briem )

Ásgeir Valhjálmsson.