Sigurjón Jörundsson fæddist á Brekku á Ingjaldssandi 14. október 1903. Hann lést á Hrafnistu í Reykjavík 20. febrúar síðastliðinn. Foreldrar hans voru Jörundur Kristófer Ebenezerson, f. 1.12. 1862, d. 13.8. 1936, og Sigríður Árnadóttir, f. 13.8. 1874, d. 18.2. 1963. Fósturforeldrar Sigurjóns voru Jónína Jónsdóttir og Guðmundur Benediktsson. Systkini Sigurjóns voru fjórtán. Eftirlifandi eru: Guðrún Ebba og Sigtryggur Kristmundur.

Sigurjón kvæntist í júní 1929 Steinunni Björgu Hinriks frá Reykjavík, f. 16.2. 1896, d. 7.3. 1986. Björg átti fyrir dóttur, Hildi Hinriks. Dætur hennar eru; Unnur Björg Ingólfsdóttir, maki hennar er Daníel Axelsson, og Anna Þuríður Ingólfsdóttir, maki hennar er Magnús Þór Hilmarsson. Börn Sigurjóns og Bjargar voru; Guðmundur Helgi, f. 5.8. 1929, d. 9.4. 1981. Eftirlifandi kona hans er Anna M. Ólafsdóttir. Sigrún, f. 7.10. 1933. Eiginmaður hennar var Halldór E. Ágústsson, þau skildu. Börn þeirra eru; Sigurjón Ólafur, Kristín Ásta og Linda Björg. Sambýlismaður hennar er Sigurður T. Magnússon. Jóna Gréta, f. 1.6. 1935. Eiginmaður hennar er Atli Helgason. Börn þeirra eru; Björg Helga, Auður, Hildur og Þorkell.

Sigurjón nam bæði bifvélavirkjun og járnsmíði. Lengstan starfsaldur sinn vann hann hjá Agli Vilhjálmssyni í Reykjavík. Sigurjón fluttist ásamt fjölskyldu sinni í Skipasund 71 árið 1947. Þar bjó hann til ársins 1991, en þá fluttist hann á Hrafnistu í Reykjavík.

Útför Sigurjóns fer fram frá Áskirkju á morgun, mánudaginn 28. febrúar, og hefst athöfnin klukkan 13.30.

Elsku afi. Það er komið að kveðjustund, en við gleðjumst með þér, því nú hefur þú fengið hvíld og ert kominn til ömmu Bjargar, Guðmundar frænda og annarra látinna ástvina. Söknuðurinn er þó til staðar, því þú hefur verið stór hluti af lífi okkar. Öll höfum við búið í húsinu þínu í Skipasundi, þaðan sem við eigum margar góðar minningar, allt frá barnæsku. Nýlega eignuðumst við eitthvað af þessum minningum á myndbandi, sem tekið var af pabba okkar í kringum 1963 til 1968. Þar er að finna ykkur ömmu Björgu í faðmi fjölskyldunnar við hin ýmsu tækifæri, s.s. dagsferðir út fyrir bæinn, heimsókn í kjallarann til Önnu og Guðmundar og jólaboðin í Skipasundi á aðfangadagskvöld. Þetta er okkur ómetanlegur fjársjóður.

Fleiri minningabrot koma upp í hugann á þessari stundu. Við munum svo vel allar ferðirnar til ykkar ömmu Bjargar í Skipasundið og í Ölfusborgir, þar sem alltaf var líf og fjör og mikill gestagangur. Okkur er einnig ofarlega í huga umhyggjusemi þín fyrir ömmu Björgu og hvað þú varst duglegur að heimsækja hana á Sólvang, oft tvisvar sinnum á dag. Og alltaf kom hún heim í Skipasund um helgar, hátíðir og í fríum á meðan þú hafðir heilsu til. Umhyggjusemin var heldur ekki langt undan þegar mamma okkar veiktist. Þú hafðir miklar áhyggjur af henni, þú skildir aldrei af hverju þetta fór svona og þú áttir erfitt með að sætta þig við þennan ólæknandi og ömurlega sjúkdóm. En þú varst alltaf þakklátur fyrir það að Siggi Magg og við systkinin komum reglulega með hana til þín í heimsókn og eftir að hún fluttist til þín á Hrafnistu, gast þú sjálfur fengið þér göngutúr til hennar.

Já, afi, í okkar huga varst þú stór og sterkur persónuleiki, trygglyndur og viljasterkur. Þú hafðir þínar skoðanir á lífinu og þrátt fyrir að við værum ekki alltaf sammála um hlutina, þá eigum við þér margt að þakka. Við kveðjum þig, elsku afi, með söknuði og þökkum þér fyrir allar samverustundirnar.

Þín

Sigurjón, Kristín og Linda.

Þú skalt vera stjarna mín Drottinn

yfir dimm höf

yfir djúpa dali

og eyðimerkur

ég geng í geisla þínum

og eitt sinn mun geisli þinn verða

að gullstiga

þar sem ég geng upp fagnandi

skrefum

(Ragnhildur Ófeigsdóttir.)

Elsku langafi, takk fyrir allar góðu stundirnar okkar í Skipasundinu og á Hrafnistu. Ég á eftir að sakna þín mikið, en þú verður alltaf hjá mér í hjartanu.

Þín

Diljá Catherine.