Hrefna Sigurðardóttir fæddist á Siglufirði 20. júlí 1916. Hún lést á Sjúkrahúsi Reykjavíkur 20. febrúar síðastliðinn og fór útför hennar fram frá Landakirkju í Vestmannaeyjum 26. febrúar.

Elsku amma. Við kveðjum þig nú eftir stutt en erfið veikindi. Undanfarin ár hafa reynst þér erfið en við trúum því að nú sértu komin á betri stað og þér líði vel. Það verður skrítið að heyra ekki í þér framar því sambandið var alltaf mikið og ef of langur tími leið á milli símtala eða heimsókna varst þú fljót að láta vita.

Árin á Höfðaveginum eru okkur ofarlega í huga því þar eyddum við miklum tíma með ykkur afa. Þar standa hæst næturnar sem við fengum að gista þegar afi var í viðskiptaferðum sínum. Þú varst svo væn að láta sem þú vildir ómögulega vera ein og við værum að gera þér mikinn greiða. Okkur fannst við gera mikið gagn en aðallega fannst okkur þetta skemmtilegt. Alltaf áttir þú tíma fyrir okkur og alltaf tókst þú vel á móti okkur, eins og raunar öllum sem sóttu þig heim.

Þegar afi féll frá fyrir rúmu ári bjuggumst við ekki við að svo stutt yrði á milli ykkar hjónanna. En svona er lífið og nú hafið þið sameinast á ný. Við þökkum árin sem við áttum með þér og afa og kveðjum með söknuði.

Hvíl í friði.

Inga, Hrefna og Ásta Jóna.