Pinochet sleppt AUGUSTO Pinochet, fyrrverandi einræðisherra Chile, hélt á fimmtudag til heimalands síns eftir að Jack Straw, innanríkisráðherra Berlands, ákvað að leys ahann úr haldi á þeirri forsendu að hann væri ekki fær um að verja sig fyrir rétti...

Pinochet sleppt

AUGUSTO Pinochet, fyrrverandi einræðisherra Chile, hélt á fimmtudag til heimalands síns eftir að Jack Straw, innanríkisráðherra Berlands, ákvað að leys ahann úr haldi á þeirri forsendu að hann væri ekki fær um að verja sig fyrir rétti sökum heilsubrests. Hann hafði þá verið í rúma 16 mánuði í stofufangelsi vegna framsalsbeiðnar spánsks dómara. Andstæðingar Pinochets lýstu ákvörðun Straws sem "afbökun á réttlætinu" en stuðingsmenn hans í Chile fögnuðu honum sem hetju er hann lenti í Santiago eftir sólarhrings ferðalag. Um 3000 manns höfðu safnazt saman inni í borginni til að fagna honum en skammt þar frá efndu um 1500 manns, mannréttindasamtök og fólk, sem missti sína nánustu í 17 ára valdatíð Pinochets, til mótmæla. Um 60 mál hafa verið höfðuð á hendur Pinochet í Chile og sumir telja hugsanlegt að sú friðhelgi, sem hann veitti sér í raun sjálfur, verði afnumin. Fjölmiðlar í Evrópu sögðu ávinningin af máli Pinochets þann, að fyrrverandi einræðisherrar gætu ekki lengur notið lífsins lystisemda í Evrópu án þess að eiga á hættu að vera dregnir fyrir dóm.

Flóð í Mósambík

ERLEND ríki hafa heitið aukinni aðstoð við nauðstadda í Mósambík, en talið er að allt að ein milljón manna hafi misst heimili sitt í flóðum, sem lagt hafa stóran hluta flatlendis landsins á kaf. Óttazt er, að enn einn fellibylurinn, Gloria, gangi yfir landið og auki enn á hörmungarnar. Bandaríkin, Bretland og önnur ríki Evrópusambandsins hafa heitið stóraukinni aðstoð við hjálparstarfið í Mósambík en hingað til hefur það að mestu mætt á Suður-Afríku. Rauði kross Íslands, Þróunarsamvinnustofnun og fleiri íslenzkir aðilar hafa lagt hjálparstarfinu lið.