Fyrirtæki beittu ýmsum leiðum til að vekja athygli gesta á sýningunni. Þessi stúlka sat fyrir í ljósmyndastúdíói.
Fyrirtæki beittu ýmsum leiðum til að vekja athygli gesta á sýningunni. Þessi stúlka sat fyrir í ljósmyndastúdíói.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Veröldin er full af tækjum og tólum sem ekki voru til fyrir áratug. Þá voru þau aðeins fjarlægur draumur. Pétur Blöndal vaknaði upp við það á CeBIT-sýningunni í síðustu viku að tæknibyltingin er hafin.

DAGAR Sinclair Spectrum og svarthvíta sjónvarpsins eru taldir. Ég er ekki lengur af tæknikynslóðinni. Þvert á móti líður mér eins og ég sé nýlentur á tunglinu, og það síðastur allra, þegar ég ráfa stefnulaust um fjögur þúsund ferkílómetra af nýjustu tækni og vísindum. Ég hlýt í það minnsta að vera á annarri plánetu en þeirri sem ég ólst upp á. Hér eru vélgeng gæludýr, talandi ísskápar og þrívíddarprentarar daglegt brauð; ofan á það er smurt sjónvarpsfarsímum, símaúrum og margmiðlunargleraugum.

Mér sýnist á öllu að karlinn í tunglinu sé að halda barnaafmæli. Innan um leikföngin sem eru af öllum stærðum og gerðum vappa gestir með blöðrur og smálegan varning, sumsstaðar má finna spariklædda þjóna sem reiða fram nafnspjöld á geisladiskum og minniskubba sem passa í PC-legóið. Og þetta er ekkert venjulegt barnaafmæli, eins og gefur að skilja, heldur eru gestirnir 750 þúsund og hafa aldrei verið fleiri. Það er af sem áður var þegar tölvuáhugamenn voru kallaðir tölvunirðir; nú eru þeir orðnir helsti höfuðstóll fyrirtækja.

Viðskipti í greipum tækninnar

Afmælisbarnið er CeBIT, stærsta sýning á upplýsingatækni í heiminum. Átta þúsund fyrirtæki sýna nýjustu afurðir sínar og veita gestum innsýn í það sem koma skal. Sá gífurlegi áhugi sem myndast hefur á þessari árlegu sýningu er engin tilviljun; hann endurspeglar vel hvílík ofuráhersla er lögð á tækniþróun í viðskiptalífinu og hversu mikilvægt er að fyrirtæki sjái fyrir hvaða sviptingar verða á markaðnum. Eftir fyrsta daginn á sýningunni þarf ekki kristalskúlu til að ráða í hvað framtíðin ber í skauti sér. Hún er þéttriðin tækjum og tólum sem sum hver eiga aðeins eitt sameiginlegt, - Netið.

Netið er mál málanna á hinni vikulöngu CeBIT. Fátítt er að spánnýjar uppfinningar séu kynntar til sögunnar; allt snýst um að tengja þær vörur Netinu sem þegar eru á markaðnum. Það er ekki að ástæðulausu. Samkvæmt spá ráðgjafafyrirtækisins KPMG Consulting, sem kynnt var á CeBIT, munu netviðskipti í Evrópu aukast úr 20.160 milljörðum króna í fyrra í 144.280 milljarða króna árið 2002. Til samanburðar má geta þess að íslensku fjárlögin eru upp á ríflega 100 milljarða á hverju ári. Það er því ljóst að grundvallarbreyting á viðskiptaumhverfinu virðist vera að eiga sér stað. Og þróunin er hafin, því samkvæmt könnun KPMG selur næstum fimmtungur evrópskra fyrirtækja vöru sem aðeins er fáanleg á Netinu.

Skrifstofan á ströndinni

Það kemur blaðamanni ekki á óvart að farsímar veki mesta athygli á CeBIT. Með tilkomu WAP-síma er aðgangur að Netinu orðinn greiður, svo lengi sem fyrirtæki koma til móts við notendur og bjóða upp á heimasíður sínar í WAP-umhverfi. Allt virðist benda til að þróunin verði í þá átt. Í flestum nýjum gerðum farsíma frá risunum á markaðnum er gert ráð fyrir WAP-aðgangi að Netinu, enda hagræðið af því mikið að komast hvar og hvenær sem er á Netið. Blaðamaður finnur það sjálfur á hlaupum milli bása, sem eru aðeins rétt rúmlega sjö þúsund. Í þessu tæknimaraþoni vex honum ásmegin við að lesa um eldgos og fárviðri á Fróni í farsímanum sínum. Hann finnur að hann á ættir að rekja til víkinga.

Enda fer nú að hitna í kolunum á CeBIT. Blaðamaður siglir knerri sínum að ókunnum lendum farsíma og fylgibúnaðar þeirra. Sökum þess að handhægt er að tengja farsíma Netinu hafa fjölmörg fyrirtæki riðið á vaðið með skemmtilegan búnað sem kryddar símnotkunina. Nú er ekkert mál að flytja skrifstofuna með sér á sólarströndina. Hún rúmast í litlum farsíma, sem fæst vatns- og sandheldur. Þaðan er hægt að senda fax og tölvupóst, fylgjast með gengi hlutabréfa og meira að segja senda myndir af ströndinni með skilaboðum í hljóði eða texta, einskonar póstkort, í farsíma frá Orange sem væntanlegur er á markað í vor. Svo er hægt að halda símaráðstefnur með myndefni, 12 römmum á sekúndu, og tali. Er nokkur furða að sumir sérfræðingar haldi því fram að innan fárra ára verði talið sjálft aukaatriði, jafnvel ókeypis, og önnur þjónusta eigi eftir að verða aðaltekjulind fyrirtækja á samskiptamarkaðnum?

Haraldur blátönn gengur aftur

Ekki bjóst blaðamaður við því á CeBIT árið 2000 að á vegi hans yrði Haraldur blátönn Danakonungur, sem sat á valdastóli í Danmörku frá 940 til 981. Nokkur aðdragandi er að því, eins og gefur að skilja. Eftir því sem gagnaflutningar verða hraðari í farsímakerfinu eiga möguleikarnir eftir að aukast. Búast má við að í stað takmarkaðrar þjónustu í WAP-símum, sem er aðeins að finna í nokkurs konar efnisyfirliti, eigi innan skamms eftir að verða hægt að vafra á Netinu, leita uppi næsta indverska veitingastað, skoða matseðilinn og panta borð. Jafnvel að maturinn verði tilbúinn þegar svangir ferðalangar setjast að snæðingi.

Það mun líklega flýta þessari þróun að Ericsson hefur riðið á vaðið með þráðlaus samskipti sem kennd eru við Harald blátönn. Fyrir vikið má sjá nokkra fulltrúa Ericsson með þráðlaus heyrnartól við farsíma sem þeir bera innan klæða. Heyrnartólin taka við raddskipunumog er því hægt að hefja símtöl og ljúka þeim án þess nokkurn tíma að snerta við símanum sjálfum. Og þetta er bara byrjunin. Síðar meir verður á sjálfvirkan hátt hægt að koma upplýsingum um hvaða vörur vantar í ísskápinn heima yfir í síma með þessu kerfi og í beinu framhaldi sér síminn sjálfur um að panta áfyllingu úr næsta stórmarkaði. Þá má hugsa sér að bílar geri verkstæði viðvart ef eitthvað bilar. Það má upphugsa ótal möguleika. Eini tálminn á þessum markaði virðist vera skortur á ímyndunarafli.

Úr ekki að verða úrelt

Engin ástæða er til að missa af uppáhalds sjónvarpsþættinum sínum þótt maður teppist á sýningu í Hannover langt fram á kvöld vegna þess að lestarkerfið annar ekki öllum manngrúanum. Fyrstu sjónvarpsfarsímar í heiminum, SCH-M220, eru kynntir af Samsung Electronics á CeBIT. Þeir eru með 45 mm skjá með hárri upplausn og innbyggðum sjónvarpsmóttakara. Hægt er að tala í farsímann og horfa á sjónvarpið án þess að það skapi truflanir og endist rafhlaðan í 200 mínútna útsendingu.

Þetta er ekki eina nýjungin frá Samsung sem kynnir líka gjörvilegan armbandsúrsfarsíma, með reiknivél og upplýsingadagbók. Mörg fyrirtæki virðast sjá sér leik á borði í gerð armbandsúra. Panasonic kynnir armbandsúr með stafrænum tónlistarspilara sem hægt er að samkeyra við PC-tölvu fyrir tilstilli hans hátignar, blátannarinnar. Þar með er notendum gert kleift að uppfæra reglulega allar upplýsingar, t.d. um símanúmer og stefnumót. Þá kynnir Ericsson Infowear úrasíma með upplýsingadagbók sem styðst við títtnefnda blátönn.

Svo vikið sé aftur að MP3-spilurum, þá er hlaðið inn á þá lögum af Netinu til spilunar. Á CeBIT skoðar blaðamaður fyrsta MP3-ferðaspilarann í heiminum sem einnig spilar venjulega geisladiska, að því er fram kemur í máli framleiðandans Pine. Það er blaðamanni nokkur léttir að geisladiskasafnið virðist ekki ætla að verða úrelt og enda úti í bílskúr með Sinclair Spectrum-tölvunni og fótanuddtækinu. Loks vekur forvitni blaðamanns farsími frá Samsung sem er með innbyggðum MP3-spilara.

Ævintýrið rétt að byrja

Gangan mikla heldur áfram. Einna mesta athygli á CeBIT vekja skjátölvur sem ætlaðar eru til heimabrúks. Þær eru með þráðlausa tengingu og er hægt að vinna á þær í allt að 15 metra fjarlægð frá móðurtölvunni á heimilinu. Fyrir vikið er hentugt að vinna á þær uppi í rúmi eða við morgunverðarborðið og fara yfir tölvupóstinn eða vafra á Netinu. Einnig er hægt að tengjast Netinu í gegnum önnur tæki með innrauðum geislum eða útvarpsbylgjum. Á þessum handhægu tölvum, sem eru einungis tölvuskjáir, eru hátalarar, hljóðnemi, stundum stafræn myndavél og einnig er hægt að tengja þær lyklaborði.

Lófatölvur hafa þegar haslað sér völl, öfugt við skjátölvurnar, og voru kynntar af mörgum framleiðendum á CeBIT. Það sem virðist ætla að verða dragbítur á að þær nái sömu markaðshlutdeild og farsímar er einfaldlega að enn er ekki mögulegt að nota þær í venjuleg símtöl. Annars eru útgáfurnar jafnmargar og ævintýrin í 1001 nótt. Nýjustu lófatölvurnar frá Handspring, Visor, eru fullkomnari hinum fyrri, með öflugri batteríum og geta tengst Netinu í gegnum Springboard. Notendur geta tengt lófatölvuna við Springboard (modules) á borð við MP3-spilara, símboða, módem, tölvuleiki og jafnvel GPS-staðsetningartæki um gervihnött.

Með heiminn í vasanum

Margir muna eflaust eftir því þegar James Bond og Dr. Christmas Jones, hinn íðilfagri kjarnorkueðlisfræðingur voru föst neðanjarðar og kjarnorkusprenging var yfirvofandi. Þá notuðu þau HP Jornada lófatölvu til að bjarga sér. Það er lýsandi fyrir markaðssetningu Microsoft, að reyna að koma þeim skilaboðum áleiðis, að það megi reiða sig á lófatölvur fyrirtækisins, en hingað til hefur stýrikerfið ekki þótt nógu áreiðanlegt. Nýja Jornada lófatölvan gæti breytt ýmsu um það. Á meðal þess sem hún hefur upp á að bjóða er tölvupóstur, upplýsingadagbók og innbyggður MP3-spilari í stereó. Hún vegur aðeins 250 grömm og hentar vel á ferðalögum.

Nýja tölvan frá Psion, Psion Revo, er léttari, aðeins 200 grömm, og passar í brjóstvasa. Engu að síður er hún með lyklaborði. Hægt er að komast á Netið, opna tölvupóst og SMS, og boðið er upp á nýjung sem felst í því að hægt er að samhæfa símanúmerabókina við þá sem er í nýjustu farsímum helstu símafyrirtækja. Svona fer tæknin hring eftir hring á CeBIT. Það sem öllu skiptir er að samhæfa þau tæki sem eru á markaðnum og opna þeim leið inn á gáttir Netsins. Þá um leið er heimurinn farinn að rúmast í vasanum.

Stuðst við lithimnu augans

Þegar upplýsingar verða aðgengilegar einkum á Netinu verður yfirleitt til þörf fyrir vernd hinna sömu upplýsinga fyrir öðrum. Snjallkort eru hugsuð sem svar við þessu. Þetta eru plastkort sem líta út eins og krítarkort. Þau eru með innbyggðan minniskubb sem virkar eins og tölva og þar er hægt að geyma upplýsingar og forrit. Nú þegar er rúmlega milljarður Snjallkorta í notkun í heiminum og eru sérfræðingar á því að eftirspurn eigi eftir að aukast til muna enda sé m.a. hægt að nota þau til að geyma sérfræðiupplýsingar í heilbrigðisgeiranum og sem aðgangskort í lestir.

Nýlega tilkynnti ORGA Card Systems að það hefði náð samningi við í Bretlandi sem heimilaði viðskiptavinum Midland Bank að nota farsíma í bankaviðskiptum sínum. Með snjallkorti í farsíma frá Motorola geta viðskiptavinir bankans skoðað stöðuna á reikningum sínum, millifært, borgað reikninga og keypt bensín á næstu bensínstöð. Það segir sig sjálft að það þarf að gæta aukins öryggis, ef ske kynni að símanum yrði stolið. Kynnt er kerfi á CeBIT sem upprunalega var þróað af hernum og felur í sér að notandinn er greindur eftir sérkennum, hvort sem það eru augu, rödd, fingraför, andlitsdrættir eða líkamshreyfingar. Þar sem ekki er hægt að falsa líkama notandans er engin þörf á lykilorðum eða aðgangskortum.

Mörg fyrirtæki nýta sér þetta kerfi. SAGEM frá Frakklandi hefur á boðstólum farsíma með fingrafaraskanna. Þá kemur upp úr dúrnum að verið er að gera tilraunir með að styðjast við lithimnu augans í Evrópu og Bandaríkjunum. Þá er tekin mynd af lithimnunni þegar nýr viðskiptavinur bætist við. Eftir það þarf hann aldrei að segja til nafns eða sýna skilríki þegar hann verslar, aðeins láta skanna í sér lithimnuna, sem er einstæðasta líffæri mannslíkamans. Öfugt við rödd og fingraför breytist lithimnan ekki eftir því sem aldurinn færist yfir og öryggið er augljóst.

Með sjónvarp í gleraugunum

Það getur verið gott að hafa margmiðlunargleraugu með sér á ferðalögum ásamt þráðlausu móttökutæki. Þegar manni fer að leiðast sessunauturinn er ráð að setja upp gleraugun, sem eru á við sólgleraugu að stærð, og horfa á útsendingar úr sjónvarpinu eða myndbandstækinu heima í stofu. Í nýrri gerð gleraugnanna Eye-Tec FMD-700 frá Olympus sem kynnt voru á CeBIT er einnig hægt að tengja þau við PC-tölvuna eða önnur leikjatæki og spila tölvuleiki. Þá er hægt að skoða sýnishorn af PC Eye-Trek gleraugunum á sýningunni, sem ekki eru komin á markað, en í þeim er hægt að fást við ritvinnslu og vafra um Netið.

Ekki er mikið að gerast á sjónvarpsmarkaðnum enn sem komið er, miðað við aðra miðla, og í raun beðið eftir nýrri tækni. Þunnir skjáir hafa þó verið að hasla sér völl, en eru enn of dýrir fyrir almennan markað. Framleiðendur hafa heitið úrbótum á því á næstu árum. Hvað varðar gagnvirkan gagnaflutning úr og í sjónvarp var kynnt tækni á CeBIT sem gerir það mögulegt, en hraðinn er enn sem komið er ekki meiri en í seinvirku mótaldi. Vel má ímynda sér að slík sjónvörp gætu haslað sér völl ef þau yrðu á aðgengilegu verði, enda gerði það áhorfendum heima í stofu kleift að taka þátt í sjónvarpsþáttum og jafnvel stunda viðskipti á Netinu í tengslum við dagskrána.

Skurðaðgerð á milli heimsálfa

Ótal fleiri uppfinningar mannskepnunnar eru kynntar á CeBIT eins og þrívíddarprentari sem getur prentað prufuafsteypur úr plasti eftir teikningum, t.d. af kappakstursbílum, og vonir eru bundnar við að geti orðið í almannaeigu innan tíu ára og prentað út af Netinu. Þá má nefna tækni sem gerir skurðlækni kleift að framkvæma flóknar skurðaðgerð annars staðar á hnettinum. Með handahreyfingum sínum stýrir hann handahreyfingum vélmennis á skurðstofunni sjálfri.

En blaðamaður er bara mennskur. Ekki verður hjá því komist að hann verði svolítið þreyttur eftir að hafa lagt fleiri kílómetra að baki í lokuðum skóm og slitnum frakka, með troðfulla poka af fréttatilkynningum, myndum og öðrum varningi, stautandi við þýskuna og grúskandi óupplýstur í upplýsingatækni framtíðarinnar. Hann veit að hann er ekki beinlínis broddborgari í útópíu Bill Gates. En þetta er veröld sem heillar. Og hvað sem öðru líður - nú bíður maður bara eftir að leikföngin komi í búðirnar.