Hún er ekki mikil um sig nýja myndavélin fra Sharp, sem einnig er upptökuvel.
Hún er ekki mikil um sig nýja myndavélin fra Sharp, sem einnig er upptökuvel.
ÓVÍÐA í tölvugeiranum er þróunin jafnhröð og í stafrænum myndavélum. Skýrt dæmi um það er Camedia C-3030ZOOM frá Olympus, sem er 3,3 megapixel.

ÓVÍÐA í tölvugeiranum er þróunin jafnhröð og í stafrænum myndavélum. Skýrt dæmi um það er Camedia C-3030ZOOM frá Olympus, sem er 3,3 megapixel. Ekki þarf að fara lengra aftur í tímann en til ársins 1995 til að sjá hversu tækninni hefur fleygt fram, en þá var framsæknasta stafræna myndavél Olympus aðeins 0,307 megapixel. Með nýju vélinni fylgir aðdráttarlinsa með þrefaldri stækkun ofan á rúmlega 2,5x innbyggða stækkun sem veldur því að alls er hægt að ná 7,5x stækkun á vélina.

Stafrænar myndavélar hafa almennt verið að færast nær venjulegum myndavélum í gæðum. Fjölmörgum þáttum hefur verið bætt við í þessari vél, sem hingað til hafa aðeins fundist í venjulegum myndavélum, s.s. handstýringu á ljósopi og fókus. Í ofanálag er þetta upptökuvél á bæði hljóð og myndir með innbyggðum hljóðnema. Hún tekur 15 ramma á sekúndu og hægt er að fjölga þeim verulega, t.d. með því að bæta við Smartkorti.

Fleiri myndavélar eru komnar á markað frá Olympus eins og Camedia C-3000ZOOM sem er á viðráðanlegu verði fyrir almenna neytendur, er 3 megapixel og linsu sem nær þrefaldri stækkun.

Nikon státar af rennilegri stafrænni myndavél fyrir atvinnuljósmyndara sem er 2,74 milljónir megapixela. Engin myndavél tekur myndir á meiri hraða, að sögn fulltrúa Nikon, eða 4,5 ramma á sekúndu, allt að 21 mynd í röð. En flaggskip Nikon á CeBIT er engu að síður Coolpix990, sem kemur á markað í júní. Hún tekur 3.34 megapixel, stækkar þrefalt og hægt er að taka upp myndefni í 40 sekúndur, 15 ramma á sekúndu. Að auki er hún afar meðfærileg og á vel heima á almennum markaði.

Þróun stafrænna myndavéla á vísast eftir að verða í átt að enn meiri myndgæðum. En nokkur fyrirtæki stigu hliðarspor frá þeirri stefnu þegar þau kynntu handhægar vasamyndavélar. Palmpix frá Kodak er myndavél fyrir lófatölvur á borð við Palm III, myndgæðin eru ekki mikil en hún er líka ódýr, kostar aðeins um 14 þúsund krónur. QV-3000EX frá Casio er gerð fyrir sama markað en með mun meiri myndgæðum, 3,3 megapixelum, og verðið er eftir því, um 60 þúsund krónur. Bæði tækin er hægt að nota til þess að senda myndir með tölvupósti eða til að uppfæra heimasíður. Ekkert er því til fyrirstöðu að senda myndir á staðnum, eins og raunar úr Vaio-vasatölvunni frá Sony sem er með innbyggðri stafrænni myndavél.