Fundurinn í Odda var vel sóttur.
Fundurinn í Odda var vel sóttur.
Á MÁLÞINGI Háskóla Íslands og Reykjavíkurborgar um endurreisn bæja, sem haldið var í samvinnu við Samtök um betri byggð á föstudag, kom m.a.

Á MÁLÞINGI Háskóla Íslands og Reykjavíkurborgar um endurreisn bæja, sem haldið var í samvinnu við Samtök um betri byggð á föstudag, kom m.a. fram að aukinn skilningur væri á mikilvægi þéttrar byggðar, og að óhófleg útbreiðsla dreifðrar byggðar væri ekki endilega æskileg. Samgöngumál voru einnig ofarlega á baugi og m.a. sagði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarstjóri að ekki væri stöðugt hægt að halda áfram að greiða götu einkabílsins hér á höfuðborgarsvæðinu.

Páll Skúlason, rektor Háskóla Íslands, setti málþingið sem fór fram í Odda. Sagði hann m.a. í ávarpi sínu að umræða um þróun höfuðborgarsvæðisins hefði kannski verið of tæknileg, á kostnað siðfræðilegrar umræðu. Mikilvægt væri nefnilega að huga að því hvernig við vildum búa áður en við byrjuðum að byggja.

Pétur H. Ármannsson, byggingarlistadeild Kjarvalsstaða, rakti íslenska bæjarhefð í sögulegu ljósi í erindi sínu á málþinginu og kom m.a. fram í máli hans að 20. öldin gæti vart talist gullöld borganna. Mikil áhersla hefði verið lögð á dreifbýlisþróun hér á Íslandi en minna hefði verið gert í skipulagsmálum bæja og borga þar til á allra síðustu árum, og raunar hefði afstaða manna gagnvart þéttbýlinu gjarnan verið heldur neikvæð. Taldi hann hins vegar að ein af fáum raunhæfum aðgerðum sem grípa mætti til í byggðamálum, eins og málum væri nú háttað, væri að mynda einn stóran þéttbýliskjarna á landsbyggðinni sem mótvægi við höfuðborgina Reykjavík.

Þétt byggð skapar grundvöll fyrir félagsleg samskipti

Skipulagning byggðar í anda módernisma, sem tröllreið hinum vestræna heimi eftir miðja öldina, fékk heldur slæma útreið á málþinginu en Jórunn Ragnarsdóttir, arkitekt í Karlsruhe í Þýskalandi, nefndi sem dæmi um þess háttar byggð hluta af Breiðholtshverfi, Árbæ og Háaleitisbraut hér í Reykjavík. Sagði hún að á áttunda áratugnum hefðu menn aftur farið að gera sér grein fyrir mikilvægi hinna hefðbundnu evrópsku borga, og að hin þétta byggð þeirra skapaði grundvöll fyrir félagslegum samskiptum.

Nýlegar tillögur um þróun breskra borga á næstu 25 árum bar á góma í máli Bjarna Reynarssonar, skipulagsfræðings á þróunarsviði Reykjavíkurborgar, en þar er m.a. stefnt að því að takmarka óhóflega útbreiðslu úthverfa. Sagði Bjarni að það væri einmitt hluti af skipulagsvanda Reykjavíkurborgar hversu ný íbúðahverfi væru sífellt lengra og lengra í burtu frá miðborgarkjarnanum sem aftur yki síðan á bílaumferð og mengun henni samfara.

Björn Ólafsson, arkitekt í París í Frakklandi, varpaði í erindi sínu nokkru ljósi á hvernig ólíkum aðferðum hefði verið beitt til að móta borgarkjarna í Frakklandi en Þorvaldur S. Þorvaldsson, skipulagsstjóri Reykjavíkur, rakti að síðustu starf Borgarskipulags. Gerði hann einnig grein fyrir þeirri endurskipulagningu aðalskipulags Reykjavíkurborgar sem nú er í gangi, sem og gerð svæðaskipulags fyrir höfuðborgarsvæðið allt. Er stefnt að því að ljúka þessari vinnu á árinu, að sögn Þorvaldar.

Enginn flokkur með stefnu í málefnum bæja og borga

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarstjóri átti lokaorðin í gær og vakti hún m.a. athygli á að stjórnvöld landsins legðu alla áherslu á byggðastefnu en "bæjarstefna" kæmi hins vegar aðeins fram sem óvænt afleiðing af byggðastefnu. Benti hún á að enginn stjórnmálaflokkanna hefði sérstaka stefnu í málum er vörðuðu bæi og borgir.

Ingibjörg taldi hins vegar að ákveðin þáttaskil ættu sér stað í umræðu um skipulagsmál, menn horfðu nú öðrum augum á mikilvægi lands, verndun umhverfisgæða, mikilvægi blandaðrar byggðar og hlutverk einkabílsins.

Sagði hún engum blöðum um það að fletta að ekkert lægi fólki eins þungt á hjarta og bílaumferðin og umferðarhraðinn, auk slysa og mengunar sem tengjast bílaumferð. Enn værum við að vísu ekki reiðubúin til að færa fórnir í þágu þeirrar áþjánar, sem bílafjöldinn óneitanlega ylli, en Ingibjörg sagði ljóst að við gætum ekki stöðugt haldið áfram að greiða götu einkabílsins. Óhjákvæmilegt væri að leggja aukið fé til almenningssamgangna.