[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hvað er það sem fær ungan Íslending til að sækjast eftir því að taka þátt í hernaði í framandi löndum? Hildur Einarsdóttir ræddi við Sigurjón Sveinsson sem segir frá reynslu sinni í sprengjusveit deildarinnar og hvernig veran þar kenndi honum að meta lífið.

Sá draumur hafði blundað nokkuð lengi með mér að ganga í frönsku útlendingaherdeildina þegar ég ákvað að láta til skarar skríða," segir Sigurjón þegar hann rifjar upp aðdragandann að því að hann hélt til Parísar til að sækja um inngöngu í herdeildina.

Þeir voru tveir félagarnir sem héldu utan í þessum erindagjörðum. Vinur Sigurjóns hafði undirbúið sína ferð með nokkrum fyrirvara en Sigurjón ákvað sig á síðustu stundu og hélt á brott án þess að kveðja nokkurn nema foreldra sína, afa og ömmu.

Þetta var í apríl árið 1994 og þá var hann 22 ára gamall.

Sigurjón hafði stundað nám í Verslunarskóla Íslands og átti eftir málaáfanga til að ljúka stúdentsprófi. Um skeið hafði hann unnið verkamannavinnu en vantað yfirsýn yfir það sem hann langaði til að gera í lífinu, eins og hann orðar það.

"Ég þráði líka að skoða mig um í heiminum og fara ótroðnar slóðir. Ég heyrði einhvern tímann af vini frænda míns sem hafði verið í herdeildinni í 5 ár og líkaði vel. Til að fræðast meira um hana fletti ég upp í alfræðiorðabókum en það var lítið á þeim að græða. Ég vissi því sáralítið út í hvað ég var að fara," segir hann og brosir eins og hálf afsakandi, en flýtir sér að bæta við að það hafi ekki verið neitt verra og hann hafi ekki orðið fyrir vonbrigðum með veru sína í herdeildinni.

Umsækjendur prófaðir á ýmsum sviðum

Þegar Sigurjón og félagi hans komu til Parísar héldu þeir rakleiðis á ráðningarskrifstofu fyrir nýliða í gömlu virki sem heitir "Fort de Nogent" og er í úthverfi Parísarborgar. Þar er líka viðkomustaður fyrir þá hermenn deildarinnar sem eru erlendis í lengri tíma. Síðan héldu þeir til Aubagne þar sem eru höfuðstöðvar deildarinnar, en þar fóru fram nýliðapróf sem tóku 2 vikur.

Í máli Sigurjóns kemur fram að þótt útlendingahersveitin sé aðskilin frá franska hernum vinni hún í nánum tengslum við herinn og sé upp á hann komin með tækjabúnað, vopn, bíla og annan búnað.

Sigurjón er spurður að því hvernig umsækjendurnir hafi verið prófaðir:

"Kannað var hvernig við vorum á okkur komnir andlega, líkamlega og vitsmunalega. Umsækjendur voru af ýmsu þjóðerni og var prófað á mörgum tungumálum. Ég notaði enskuna því ég hef ágætt vald á henni.

Á hverjum degi klukkan 2 eftir hádegi fór fram nafnakall fyrir þá sem ekki höfðu staðist próf dagsins og voru þeir látnir taka pokann sinn."

Var þetta svona erfitt?

"Nei, það fannst mér ekki. Það eina sem reyndi verulega á mig var þegar kannað var hve sprettharðir við værum. Það var búið að segja mér að þeir sem hefðu ekki nógu gott úthald fengju ekki inngöngu í hersveitina.

Hlaupaprófið fór þannig fram að við áttum að hlaupa eins hratt og við gátum 2,8 kílómetra leið. Ég hef aldrei haft mikið úthald í hlaupi og ákvað í hlaupinu að halda mig tveim metrum fyrir aftan Pólverja sem ég vissi að var sæmilega sprettharður. Þetta gerði ég og stóðst prófið."

Fáir útvaldir

Það var ekki nóg með að Sigurjón stæðist hlaupaprófið heldur varð hann einn þriggja, af 26 mönnum sem sóttu um, sem fengu inngöngu í útlendingaherdeildina í þetta skiptið. En hvernig var með félaga hans, stóðst hann prófraunirnar?

"Hann hætti við eftir viku því hann áttaði sig á að þetta átti ekki við hann. Auk þess átti hann kærustu og barn hérna heima."

Sigurjón segist ekki hafa neina skýringu á því af hverju hann einn fárra varð fyrir valinu. "Ég hef rætt þetta við félaga mína og það skilur enginn eftir hverju útlendingaherdeildin er að sækjast. Með mér í upphafi var fjöldi frambærilegra manna sem mér virtust eiga fullt erindi í herinn."

Liðþjálfarnir voru alltaf að öskra á okkur

Fljótlega eftir þetta var Sigurjón sendur í æfingabúðir fyrir nýliða í Castelnaudary í Pýreneafjöllunum. "Ég var þarna í fjóra mánuði við stranga þjálfun, meðal annars í vopnaburði, hernaðartækni og líkamlegri þjálfun. Við vorum til dæmis látnir fara í langar göngur með þunga bakpoka og sváfum úti undir berum himni á nóttunni. Við vorum einnig þjálfaðir í að marsera auk þess sem við lærðum frönsku og sögu hersveitarinnar," segir Sigurjón.

Hann er spurður að því hvað hafi einkennt þjálfunina? Hann hugsar sig um og segir svo: "Liðþjálfarnir voru alltaf að öskra á okkur og gera lítið úr því sem við vorum að gera. Oftast var engin ástæða fyrir gagnrýninni. Þeir skoðuðu kannski híbýli okkar og þóttust finna ryk og var okkur þá refsað fyrir það, til dæmis með því að gera ótal armbeygjur úti í grenjandi rigningu. Þessi framkoma átti að þjálfa okkur í að hlýða skipunum án þess að spyrja hvers vegna."

Þetta var þá ekki bara tóm mannvonska?

"Nei, við vissum að þetta var hluti af pakkanum. Liðþjálfarnir voru flestir ágætis menn og heiðarlegir í allri hörkunni, þótt á því væru undantekningar. Ef þeir gengu hins vegar of langt voru þeir teknir á beinið af yfirmönnum sínum.

Það var þó einn liðþjálfi sem ég kynntist sem var algjör ótukt og ætlaði ég mér alltaf að gera út um málin við hann seinna, en rakst ekki á hann aftur - þessir menn uppskera eins og þeir sá."

Í sambandi við Interpol og FBI

Annars átti ég mjög góðar stundir í herdeildinni. Ég eignaðist þar vini fyrir lífstíð. Við gengum saman í gegnum súrt og sætt. Þegar illa gekk hjálpuðumst við að og hvöttum hver annan. Við skemmtum okkur líka vel saman. Ef einhver var þreyttur, eins og við kölluðum það þegar við vorum blindfullir, þá var honum hjálpað í rúmið án þess að mikið bæri á."

Ríkir strangur agi í herdeildinni?

"Já hann er mikill. Fylgst var með hátterni okkar á æfingum og við urðum einnig að haga okkur vel utan vinnutímans. Fötin okkar urðu til dæmis alltaf að vera tandurhrein og vel straujuð."

Hvernig manngerðir voru það sem sóttu um inngöngu í útlendingaherdeildina?

"Þarna var að finna allar persónugerðir sem hægt er að hugsa sér og úr öllum stéttum þjóðfélagsins. Ástæðurnar fyrir veru þeirra í herdeildinni voru líka mismunandi. Sumir voru að flýja eitthvað, aðrir voru leitandi og svo voru þeir sem áttu ekki í önnur hús að venda."

Það hefur verið látið að því liggja, meðal annars í kvikmyndum þar sem franska útlendingaherdeildin kemur við sögu, að þar sé að finna harðsvíraða morðingja og nauðgara - er það rétt?

"Nei, það er ekkert til í því. Útlendingaherdeildin er í sambandi við Interpol og FBI og fleiri slíkar stofnanir. Ef menn eru þar á skrá komast þeir ekki inn í sveitina."

Eru hermennirnir ekkert ofbeldishneigðari en gengur og gerist?

"Í daglegu lífi eru þeir það ekki. Auðvitað getur slettst upp á vinskapinn og það verða átök á milli manna. Ef einhver er með glóðarauga er litið framhjá því."

Straujað á sunnudögum

Sigurjón er spurður að því hvernig dagurinn hafi liðið hjá þeim meðan á grunnþjálfuninni stóð. "Menn fóru á fætur klukkan 5 á morgnana og voru að til klukkan 10 eða 12 á kvöldin. Á sunnudögum fengum við þó frið til að strauja," segir hann.

"Menn gerðu sér þó stundum glaðan dag, eins og á aðalhátíð sveitarinnar sem kallast "Camerone" og er haldin hátíðleg 30. apríl ár hvert. Verið er að halda upp á bardaga sem útlendingahersveitin átti í í Camerone í Mexíkó árið 1863. Þá gerðist það að 65 manna hópur úr herdeildinni, sem var að fylgja eftir vagnalest, varð fyrir árás 2000 mexíkanskra hermanna. Þrátt fyrir að útlendingahersveitin væri í miklum minnihluta tókst þeim að fella 200 úr liði Mexíkananna. Sjálfir börðust þeir til síðasta manns. Þessi frammistaða skapaði herdeildinni það orðspor að þarna færu menn sem væru ekki með neina hálfvelgju heldur færu alla leið. Eftir því vinnur herdeildin enn.

Camerone-hátíðin stendur yfir í tvo daga og eru búðirnar þá opnaðar almenningi. Hún byrjar á því að haldin er hersýning. Fengið er lítið tívolí til að skemmta fólki og grillað úti. Hátíðin endar svo á stórum dansleik.

Foreldrar mínir heimsóttu mig eitt sinn á meðan hátíðin stóð yfir og fengu nasasjón af því hvernig lífið gengur fyrir sig hjá okkur. Fjölskylda mín skildi mig betur eftir þetta."

Valdi sprengjusveitina

Sigurjón segir að í grunnþjálfuninni hafi þeir fengið að velja hvort þeir færu í fallhlífadeildina, fótgönguliðið, skriðdrekasveitina eða sprengjusveitina. Sigurjón valdi það síðastnefnda - en hvers vegna?

"Ég hef alltaf haft mjög gaman af sprengjum og hvellum. En að öllu gamni slepptu þarf að vinna meira með höfðinu í þessari deild en öðrum deildum og það líkaði mér ágætlega. Auk þess að læra meðferð sprengiefna og öryggisatriði í sambandi við meðferð þeirra þurftum við að þjálfa hernaðartækni og vopnaburð eins og hinar deildirnar.

Eftir grunnþjálfunina lá leiðin til smábæjarins L'Ardoise nálægt Avignon þar sem þjálfunin hélt áfram. "Þá var ég formlega kominn inn í frönsku útlendingaherdeildina og skipað í ákveðinn hóp sem ég átti að vinna með," segir hann.

"Ég byrjaði á því að taka meirapróf á stóra trukka. Síðan fór ég á námskeið í meðferð sprengiefna. Þar lærði ég til dæmis að þekkja mismunandi gerðir sprengna, hvernig þær virka og hvaða tegund á að nota í hverju tilviki. Ég lærði á málmleitartæki sem notuð eru þegar verið er að leita að virkum sprengjum og einnig á ýmsan öryggisbúnað. Einnig voru mér kennd undirstöðuatriðin í því hvernig á að gera sprengjurnar óvirkar. Sérstakir menn eru í þeirri vinnu sem eiga að baki töluvert nám í fræðunum."

Er þetta ekki hættulegt starf?

"Ef þú veist hvað þú átt að gera er þetta ekkert mál."

Sendir til Sarajevo

Hann segist hafa verið í sömu sveitinni í þau 5½ ár sem hann var í frönsku útlendingaherdeildinni. "Ég var í hópi innan sveitarinnar sem sérhæfði sig í fjallahernaði og var þjálfaður í að sprengja upp brýr, jarðgöng og önnur mannvirki. Til að auka hæfni okkar vorum við þjálfaðir í fjallaklifri og á vetrum vorum við mikið á skíðum með bakpoka.

Þegar þjálfuninni lauk vorum við sendir til Júgóslavíu," segir Sigurjón. "Þá komst ég í fyrsta skipti í tæri við vopnuð átök."

Við tilheyrðum svokölluðum "hraðsveitum" Sameinuðu þjóðanna. Komu þær sem viðbót við friðargæslusveitir Sameinuðu þjóðanna sem áttu í miklum erfiðleikum. Verið var að ráðast á meðlimi hennar og taka þá í gíslingu.

Við vorum staðsettir á Igman-fjalli rétt hjá Sarajevo. Á þessum tíma vorum við aldrei í beinum átökum þótt við værum staðsettir í miðju átakanna.

Hluti minnar sveitar hafði það starf með höndum að fjarlægja sprengjur og einnig vorum við í því að lagfæra vegi og hreinsa til og aðstoða íbúana á annan hátt."

Urðuð þið fyrir árásum?

"Já, en aðeins smávægilegum. Ég lenti í því þegar ég var að vinna á gröfu við að búa til skotpall fyrir skriðdreka að nokkrir Bosníumenn byrjuðu að skjóta á mig og nokkra félaga mína. Ég stöðvaði gröfuna, tók byssuna mína og var tilbúinn til að verjast. En árásarmennirnir komu sér í burtu."

Hvernig leið þér eftir þessa fyrstu reynslu fyrir framan byssukjaftana?

"Atburðarásin var hröð svo það gafst enginn tími til að hugsa. Ég brást við eins og mér hafði verið kennt í þjálfuninni. Ef maður fer að hugsa eitthvað út fyrir það tapast dýrmætur tími sem getur orðið afdrifaríkt. Allt fór vel í þetta skiptið."

Handsprengjum kastað inn í búðirnar

Sveitin lenti í fleiri árásum, þegar handsprengjum var kastað inn á svæðið þar sem hún hafði bækistöðvar sínar. "Við vorum í Mostar að bíða eftir þeim sem áttu að taka við af okkur. Ein sprengjan sprakk við tjald þar sem voru þrír menn og særðust þeir, en árásarmaðurinn féll fyrir hendi varðmanns sem særðist.

Þessi atburður gerðist að kvöldlagi. Árásarmaðurinn stóð undir ljósastaur á bersvæði svo hann var

auðvelt skotmark - árás hans var því mjög viðvaningsleg og bauð hættunni heim."

Sigurjón segist hafa séð ýmis ljót merki um afleiðingar stríðsins á leiðinni upp á fjallið, eins og byggingar og mannvirki sem voru illa farin eftir skotárásir og fjölda nýrra grafa í kirkjugörðum.

"Meðan við dvöldum þarna réðist sameinaður herafli Bandaríkjamanna og ýmissa Evrópuríkja á stöðvar Serba og losnaði þá um Sarajevo, en þá var stríðið líka á enda."

Hræðileg eyðilegging

"Við kynntumst bændunum sem bjuggu þarna í kring sem voru gjafmilt og glaðlynt fólk. Þeir buðu okkur tvisvar sinnum að borða heilsteikt lamb með skorpu eins og við þekkjum hér og rótsterkt brennivín með," segir Sigurjón og grettir sig.

"Eftir þetta vorum við sendir til borgarinnar Mostar og dvöldum við þar í þrjár vikur. Við vorum með mikið af vinnuvélum með okkur og unnum að enduruppbyggingu, meðal annars við að hreinsa flugvöllinn. Eyðileggingin í borginni var hræðileg. Íbúðarhús og önnur mannvirki voru í rúst og fólkið búið að tapa aleigunni. Þeir sem voru húsnæðislausir bjuggu í hjöllum sem var klambrað saman úr því sem til féll og skýldu þeim fyrir veðri og vindum. Það var makalaust hvað fólkið bar sig samt vel."

Hitti íslenskan rútubílstjóra í Mostar

Sigurjón segist hafa hitt Íslending í Mostar sem ók rútu fyrir Sameinuðu þjóðirnar og var í ýmsum verkefnum og lét vel yfir sér. Við fengum okkur í glas á hóteli um kvöldið og spjölluðum saman."

Loks lá leiðin til borgarinnar Split sem stendur við Adríahafið. "Þar var andrúmsloftið allt annað því þar höfðu ekki verið nein átök. Þaðan fórum við til Frakklands og fengum þá þriggja vikna frí. Þetta var í nóvember árið 1995. Ég fór til Íslands en þá hafði ég ekki komið heim í eitt og hálft ár.

Það var gaman að hitta fólkið sitt aftur og heilsa upp á þá sem ég kvaddi ekki áður en ég fór til Frakklands.

Þegar tvær vikur voru liðnar af fríinu var ég farinn að sjá ástæðuna fyrir því að ég fór. Mér fannst venjubundið líf Íslendinga hálf bragðdauft og saknaði lífsins í herdeildinni. Ég var því feginn þegar ég gekk inn um hliðið á aðalbækistöðvum okkar - mér fannst ég kominn heim."

Í miðri stjórnarbyltingu í Mið-Afríkuríkinu

Langaði þig ekki til að eyða jólunum með fjölskyldunni?

"Jú, sannarlega, en það er ófrávíkjanleg regla innan útlendingahersveitarinnar að meðlimir hennar haldi jólin saman til að auka samheldnina. Þetta á að undirstrika að herdeildin er þín önnur fjölskylda.

Eftir jólin héldum við svo áfram með æfingaprógrammið.Við æfðum uppi í fjöllunum og fórum á námskeið í meðferð sprengiefna," heldur Sigurjón áfram frásögn sinni.

"Í byrjun júní var ég svo heppinn að vera sendur til Mið-Afríkuríkisins þar sem franski herinn er með bækistöð. Við fórum fyrst til höfuðborgarinnar, Bangui. Við komum þangað 10. júní en níu dögum síðar gerði herinn stjórnarbyltingu. Ég var settur í hóp sem fór til höfuðborgarinnar sama dag og uppreisnin var gerð. Hlutverk okkar var að koma forsetanum til hjálpar og bjarga erlendum íbúum sem bjuggu í höfuðborginni. Það varð ekkert úr þátttöku minni í þessum aðgerðum því bíllinn sem ég var í bilaði á leiðinni til borgarinnar og komumst við hvorki lönd né strönd," segir Sigurjón hálf daufur í dálkinn. "Í höfuðborginni áttu sér stað heilmikil átök og margir innfæddir féllu. Úr okkar hópi særðist aðeins einn maður. Lyktir átakanna urðu þær að herinn gafst upp fyrir okkar mönnum og forsetinn komst aftur til valda."

Mannslífin lítils metin

Sigurjón segir að í Afríku hafi hann séð hve mannslífin voru lítils metin. "Í átökunum féllu 30 hermenn úr stjórnarhernum en 60 særðust. Við vildum gera að sárum þeirra eins og Genfarsáttmálinn kveður á um." Lífverðir forsetans sendu þeim hins vegar kúlur í höfuðið, drösluðu líkunum upp á vörubíl og fóru með þau út í skóg.

Eftir þriggja ára veru í herdeildinni var Sigurjón sendur á liðþjálfanámskeið sem stóð yfir í tvo mánuði. "Lögð var áhersla á herkænsku og meðferð vopna og að fara fyrir mönnum í orrustu," segir hann. "Dagleg störf liðþjálfans fólust einkum í því að fylgjast með hermönnum og grípa inn í ef eitthvað fór úrskeiðis."

Njóta kvenhylli

Við verðum að fara hratt yfir sögu. Í desember 1998 var herdeildin send til Djibouti við Rauðahafið og dvaldi hún þar í 5 mánuði. Að sögn Sigurjóns er þar ein stærsta bækistöð

franska hersins utan Frakklands. "Þetta er herstöð eins og er á Miðnesheiðinni, þar sem þarf að vinna ákveðin störf auk heræfinga. Þar voru samankomnir tugir þúsunda hermanna úr franska land-, sjó- og flughernum.

"Deildin mín vann að ýmsu viðhaldi í búðunum auk þess að fara í reglulegar eftirlitsferðir um landamæri Eþíópíu og Eritreu, þar sem voru stríðsátaök. Við unnum allan daginn en áttum frí á kvöldin og um helgar."

Það hefur lengi farið það orðspor af hermönnum í frönsku útlendingaherdeildinni að þeir njóti mikillar kvenhylli. Hvað er hæft í því?

"Ég veit ekki hverju ég á að svara," segir Sigurjón. "Ég hef heyrt strákana í deildinni tala um að á þjóðhátíðardegi Frakka, 14. júlí, þegar fer fram skrúðganga hersins um götur Parísar, þá bíði kvenfólkið í ofvæni eftir því að útlendingaherdeildin sýni sig, en hún er aftast í skrúðgöngunni, og hendi jafnvel í þá nærbuxum.

Þegar við vorum í Djibouti voru konurnar mjög aðgangsharðar. Á börunum voru venjulega fleiri tugir kvenna sem létu mann ekki í friði, rosalega flottar konur. Ástæðan fyrir því að þær sóttu í okkur var kannski fyrst og fremst sú að við áttum peninga og gátum splæst á þær. Við urðum að banda þeim frá okkur. Einn hermaður sem ég þekkti hreytti í konurnar fúkyrðum og stuggaði þeim frá ef þær nálguðust hann og þá létu þær hann í friði.

Vændi er eina tekjulind kvennanna - þeim er því mikil vorkunn. Það vita allir sem vilja að ein af hverjum þrem þeirra er eyðnismituð og sumir léku sér að eldinum. Af 120 hermönnum í minni deild var þó enginn smitaður af alnæmi.

Sigurjón er spurður um launakjör hermannanna: "Þau eru ekkert sérstaklega góð. Við höfðum um 70 þúsund krónur í mánaðarlaun og frítt fæði, húsnæði og fatnað. Þegar við vorum í Júgóslavíu þar sem við unnum myrkranna á milli fóru launin í 180-200 þúsund krónur á mánuði."

Grasið grænna hérna megin

Í febrúar 1999 dvaldi Sigurjón svo í olíuríkinu Quatar syðst á Arabíuskaganum. "Franski herinn selur ríkinu ýmsan búnað til hernaðar eins og vopn og bíla. Okkar hlutverk var að sýna þeim hvernig þessi búnaður virkar. Við fórum út í eyðimörkina þar sem þeir voru með æfingasvæði og höfðum þar sýnikennslu," segir Sigurjón. "Þarna sáum við leifar af sprengjum út um allt og sumar þeirra sýndust okkur vera enn virkar. Þegar við æfðum meðferð sprengiefnis hirtum við alltaf draslið af sprengjunum á eftir. En þeir voru ekkert að hafa fyrir því.

Þegar hér var komið sögu var 5 ára samningur minn við herdeildina runninn út og gott betur. Ég var tilbúinn að snúa aftur heim," segir hann.

Er eitthvað sérstakt sem þér finnst þú hafa lært á dvöl þinni í frönsku útlendingaherdeildinni og kemur þér að góðum notum?

"Já, innsæi mitt í mannlegt eðli hefur dýpkað. Ég lærði að þekkja líkamstjáninguna, sem ég þurfti á að halda, sérstaklega þegar ég var liðþjálfi, en þá þurfti ég meðal annars að geta áttað mig á því hvar ég hafði mennina og hvað ég gat farið langt með þá í þjálfuninni."

Skömmu eftir heimkomuna lauk Sigurjón stúdentsprófi sínu og innritaði sig í kvöldskóla Iðnskólans á tölvubraut, en hann hafði lengi haft áhuga á tölvum. Nú vinnur hann hjá Gæðamiðlun ehf. við vefforritun.

Hvernig var annars að koma heim?

"Það var mjög gott. Mér finnst íslenskt þjóðfélag það besta í heimi og ég vildi hvergi búa annars staðar," segir hann með áherslu. "Grasið er grænna hérna megin við lækinn!

Stundum finnst mér þó við Íslendingar hafa tilhneigingu til að gera veður út af smávægilegum hlutum, en auðvitað verðum við að halda vöku okkar í þeim málum sem skipta okkur mestu. Þegar á heildina er litið ríkir hér sátt og friður og við erum samheldin, sem skiptir mestu."

Ertu búinn að finna þig?

"Já, og ég er ánægður með lífið."

Höf.: Hildur Einarsdóttir