Einar Bragi tekur við menningarverðlaununum úr hendi Sveins Einarssonar, formanns Sænsk-íslenska menningarsjóðsins.
Einar Bragi tekur við menningarverðlaununum úr hendi Sveins Einarssonar, formanns Sænsk-íslenska menningarsjóðsins.
EINARI Braga rithöfundi voru afhent sænsk-íslensku menningarverðlaunin við hátíðlega athöfn í Norræna húsinu á föstudag. Á fundi sínum í desember sl.

EINARI Braga rithöfundi voru afhent sænsk-íslensku menningarverðlaunin við hátíðlega athöfn í Norræna húsinu á föstudag.

Á fundi sínum í desember sl. ákvað stjórn sjóðsins að verðlaunin skyldu í ár falla í skaut Íslendingi sem með verkum sínum hefur stuðlað að því að færa Íslendingum meiri þekkingu á sænskum bókmenntum og í þessu tilviki um leið heimsbókmenntunum. Íslendingurinn sem hér um ræðir er Einar Bragi, sem hefur þýtt öll leikrit sænska skáldjöfursins Augusts Strindbergs á íslensku. Verðlaunin eru að upphæð 25 þúsund sænskar krónur eða sem svarar um 210 þúsundum íslenskra króna.

Í fréttatilkynningu kemur fram að Sænsk-íslenski menningarsjóðurinn var stofnaður árið 1995 í kjölfar peningagjafar sem Svíar færðu Íslendingum í tilefni af 50 ára afmæli íslenska lýðveldisins árið áður. Skyldi fénu varið til að efla samskipti þjóðanna á sviði menningarmála, menntunar, lista og vísinda og ýmsum öðrum sviðum félagslegra samskipta.

Sérstök undirbúningsnefnd lagði til að stofnaður yrði formlegur sjóður og að arði af stofnfé skyldi árlega varið í samræmi við markmið sjóðsins. Hefur verið auglýst árlega eftir umsækjendum um styrki úr sjóðnum í báðum löndunum. Eitt árið voru umsækjendur á fjórða hundrað en 16 styrkir veittir. Einkum hafa verið veittir ferðastyrkir til einstaklinga og hópa, sem og verkefnastyrkir. Í ár hafa borist um 150 umsóknir og verður styrkjum úthlutað úr sjóðnum síðar í þessum mánuði.

Þjóðirnar færðar nær hvor annarri menningarlega

Jafnframt hefur stjórn sjóðsins beint fjármunum í nokkur stærri verkefni, t.d. að undirbúa útkomu sænsk-íslenskrar orðabókar, eflingu sænskukennslu í íslenskum skólum og til útgáfu bókar um Íslendinga í Svíþjóð og samskipti þjóðanna.

Á síðastliðnu ári var ákveðið að einnig skyldu veitt sérstök menningarverðlaun einstaklingi sem með störfum sínum hefði unnið að því að færa þjóðirnar hvora nær annarri menningarlega. Það ár hlaut verðlaunin sænski rithöfundurinn Inge Knutsson, sem á síðari árum hefur öðrum fremur stuðlað að því að gera íslenskar bókmenntir kunnar í Svíþjóð.