[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
"FLESTIR framleiðendur eru nú farnir að nota fjölnotaformið og nú má finna bæði litla bíla og stóra með þessu fyrirkomulagi, svonefnda einrýmisbíla," sagði Hallgrímur Gunnarsson, forstjóri Ræsis, meðal annars þegar hann var spurður hvað honum...

"FLESTIR framleiðendur eru nú farnir að nota fjölnotaformið og nú má finna bæði litla bíla og stóra með þessu fyrirkomulagi, svonefnda einrýmisbíla," sagði Hallgrímur Gunnarsson, forstjóri Ræsis, meðal annars þegar hann var spurður hvað honum fyndist almennt um Genfarsýninguna.

Hallgrímur nefndi sem dæmi að A-bíllinn frá Mercedes Benz væri með þessu fyrirkomulagi, Citroën og Opel byðu fjölnotabíla og margir skutbílar væru að hneigjast meira að þessu fyrirkomulagi. Í þessu sambandi má nefna að Mazda, sem Ræsir hefur umboð fyrir, býður nú bæði uppá smájeppann Tribute og Demio með andlitslyftingu og eru þeir báðir dæmi um bíla sem eru annað og meira en "venjulegir" fólksbílar af stallbaksgerðinni.

"Open-air driving pleasure" eða akstur undir beru lofti er yfirskrift á framsetningu Mercedes Benz bílanna enda voru SLK og SL sportbílarnir áberandi og CLK blæjubíllinn. Þá er ónefndur Vision SLA, sportbíll sem byggður á grunni A-bílsins. Fulltrúar framleiðandans segja hann ekki óraunhæfan hugmyndabíl heldur bíl þar sem nýttir eru saman eiginleikar frumlegrar hönnunar að innan sem utan og hönnunar sem byggist á þekktum lögmálum til að ná fram skemmtilegum aksturseiginleikum.

Ræsir hefur selt nokkra SLK og CLK sportbíla síðustu misserin og segir Hallgrímur viðhorf til þeirra vera að breytast, áður hafi menn verið að nokkru leyti feimnir við kaup á slíkum bílum en nú sé hún að hverfa. Má það til sanns vegar færa að menn hafi kannski ekki viljað sýna sig á bíl sem kalla má leikfang en segja má að þau séu mörg leikföngin sem bílaframleiðendur bjóða uppá í dag.