VOLKER Rühe, fyrrverandi varnarmálaráðherra Þýzkalands, gefur ekki kost á sér í formannskjöri í Kristilega demókrataflokknum, CDU, sem fram fer á flokksþingi í Essen um miðjan apríl.

VOLKER Rühe, fyrrverandi varnarmálaráðherra Þýzkalands, gefur ekki kost á sér í formannskjöri í Kristilega demókrataflokknum, CDU, sem fram fer á flokksþingi í Essen um miðjan apríl. Fram að þessu hafði Rühe verið talinn - ásamt Angelu Merkel, framkvæmdastjóra flokksins - eiga einna bezta möguleika á að gerast arftaki Wolfgangs Schäuble sem flokksformaður.

Rühe, sem var forsætisráðherraefni CDU í landsþingskosningum í Slésvík-Holtsetalandi fyrir viku - sem flokkurinn tapaði - sagði í viðtali við blaðið Welt am Sonntag að hann hefði ákveðið að sækjast ekki eftir æðsta flokksembættinu að þessu sinni.

Í viðtalinu hvetur Rühe til þess, að næsti flokksformaður verði einn þeirra flokksmanna sem gegna nú embætti forsætisráðherra í einu sambandslandanna 16. Nefndi hann sérstaklega Kurt Biedenkopf, forsætisráðherra Saxlands.

Jürgen Rüttgers, héraðsleiðtogi CDU í Nordrhein-Westfalen, og fleiri áhrifamenn í flokknum lýstu sig andvíga slíkri bráðabirgðalausn.