SJÓPRÓF vegna sjóslyssins sem varð út af Vestfjörðum í fyrrakvöld, er nýlegur línu- og handfærabátur sökk um 16-17 sjómílur út af Rit, munu fara fram á næstu dögum, að sögn lögreglunnar á Ísafirði.

SJÓPRÓF vegna sjóslyssins sem varð út af Vestfjörðum í fyrrakvöld, er nýlegur línu- og handfærabátur sökk um 16-17 sjómílur út af Rit, munu fara fram á næstu dögum, að sögn lögreglunnar á Ísafirði. Fulltrúi frá rannsóknarnefnd sjóslysa var í gær á leið til Ísafjarðar, til að taka skýrslu af skipverjunum tveimur, en orsök slyssins er ókunn.

Skipverjarnir, sem eru feðgar, sendu út neyðarkall um klukkan átta í fyrrakvöld og um klukkutíma síðar kom línubáturinn Hrönn ÍS þeim til bjargar og sigldi með þá til Suðureyrar. Þá var bátur þeirra feðga, Birta Dís VE, kominn á hliðina og þeir búnir að koma björgunarbát fyrir borð. Stuttu eftir að þeim var bjargað um borð í Hrönn fór Birta Dís á hvolf.

Björgunarskipið Gunnar Friðriksson kom að bátnum seinna um kvöldið, þar sem hann maraði í hálfu kafi, en á hvolfi. Björgunarskipið reyndi að draga hann til Bolungarvíkur, en dráttartaugin slitnaði.

Að sögn lögreglunnar á Ísafirði er ekki vitað, hvað varð til þess að báturinn sökk, en það mun væntanlega koma í ljós að loknum sjóprófum. Þegar björgunarskipið fór frá bátnum var hann reyndar enn á hvolfi, en að sögn lögreglu er talið víst að hann hafi sokkið um nóttina.