Frá aðalfundi FBA sem valdið hefur nokkru umróti í þjóðfélaginu.
Frá aðalfundi FBA sem valdið hefur nokkru umróti í þjóðfélaginu.
Svokölluð meirafíflskenning hefur fest sig í sessi. Hún ku ganga út á það, að ef þú ert fífl, er alltaf einhver annar sem er meira fífl. Ellert B. Schram segir að þannig gangi peningar og verðbréf mann frá manni fyrir hækkandi verð og nú dafni hér það ævintýri sem hann einu sinni dreymdi um. Fólk er að verða ríkt, alveg moldríkt.

Þegar verið er að halda því fram að stjórnmálamenn ráði sífellt minna er það misskilningur. Algjör misskilningur og öfugmæli. Ég held að stjórnmálamenn hafi sjaldan eða aldrei gegnt jafn mikilvægu hlutverki og einmitt um þessar mundir.

Sjáið bara hvað er að gerast í þjóðfélaginu. Markaðslögmálin hafa haslað sér völl svo um munar, fjármálamarkaðurinn blómstrar og laun hafa aldrei verið hærri. Svokölluð meirafíflskenning hefur fest sig í sessi. Hún ku ganga út á það, að ef þú ert fífl, þá er alltaf einhver annar sem er meira fífl. Þannig ganga peningar og verðbréf mann frá manni fyrir hækkandi verð og nú dafnar hér það ævintýri sem mann einu sinni dreymdi um. Fólk er að verða ríkt, alveg moldríkt, og þó að ég sé kannske orðinn of gamall til að verða auðkýfingur og fólk í hefðbundnum störfum sé búið að missa af lestinni, þá vaxa hér upp nýjar kynslóðir, sem hafa alla burði til að komast í góðar álnir og höndla hamingju þeirra auðæfa, sem markaðurinn og meiri-fíflin hafa skapað.

Bara ef fólk hefur vit á því að komast í rétt störf, hafa trú á markaðnum og öðrum og meiri fíflum. Og svo að temja sér rétt hugarfar, hugarfar umburðarlyndis gagnvart gróða náungans, hugarfar vandlætingarinnar gagnvart þeim sem gagnrýna gróða náungans og hugarfar hins árangurstengda frama sem hverjum þeim hlotnast, sem stjórnmálamennirnir hafa velþóknun á. Og öll hin fíflin.

Sjáið þið nefnilega til, það eru stjórnmálamennirnir sem hafa rétt þennan árangur upp í hendurnar á okkur. Hvað gerðist með fiskveiðarnar, sem var alla útgerðarmenn lifandi að drepa um áratugaskeið? Stjórnmálamennirnir afhentu nokkrum þeirra gjafakvóta til varanlegrar eignar og útgerðin blómstar sem aldrei fyrr. Það er nóg að vera duglegur í nokkur ár, og maður labbar út úr greininni með þrjá milljarða!

Hagræðing heitir það og vei þeim öfundsjúku öfuguggum sem leyfa sér að gera athugasemdir.

Hvað gerðist með ríkisbankana? Stjórnmálamennirnir tóku ákvörðun um að selja þá og þeir voru ekki fyrr búnir að selja bankana en verðmæti þeirra jókst um allan helming. Það var nóg að eiga peninga fyrir, til að geta keypt FBA, og þá margfölduðust peningarnir. Sumir þurftu ekki einu sinni að eiga peninga fyrir en keyptu samt. Og græddu samt.

Einkavæðing heitir það og hver dirfist að gagnrýna þá ráðstöfun á eigum ríkisins að selja þær til að auka verðmæti þeirra?

Hvað gerðist með sjúkraskrárnar, þessar nöturlegu skýrslur um heilsuleysi og erfðasjúkdóma, sem voru talandi dæmi um neyð Íslendinga og vesaldóm. Sagnabanki um dauðsföll. Samansafn voveiflegra frásagna um það hvernig þjóðin lifði og dó.

Allt í einu kom maður sem hafði þekkingu og dug til að breyta hinum þyrnum stráðu sjúkraskrám í nýja auðlind fyrir komandi kynslóðir. Tugir vel menntaðra afkomenda þessara hrjáðu forfeðra okkar sem aldrei höfðu lifað glaðan dag streymdu til ættjarðarinnar á nýjan leik til að gera verðmæti úr sjúkdómunum.

Hugvit heitir það og stjórnmálamennirnir gáfu hinum hugvitssama Íslendingi samstundis einkaleyfi til að gera sér mat úr þessum sjúkraskýrslum og svo eru öfundarmenn og hælbítar að gera tilraun til að hafa eitthvað af þessum manni í staðinn!

Og nú er það nýjast sem þessi dugmikla kynslóð hefur líka fundið upp á, að borga starfsmönnum sínum árangurstengd laun og þá ætlar allt vitlaust að verða í öfund og nöldri yfir því að að menn beri það úr býtum sem þeir eiga skilið fyrir að skapa arð og treysta á meiri-fífl!

Þið takið sjálfsagt eftir því að þetta eru engar tilviljanir. Stjórnvöld og stjórnmálamenn hafa markvisst unnið að þessari þróun og þeirri velsæld, sem felst í hagnaði og umbun hins alþjóðlega umhverfis sem við lifum í. Stjórnvöld gáfu kvótann, stjórnvöld seldu FBA, stjórnvöld skrifuðu upp á einkaleyfið sem skapaði auðlindina í sjúkraskránum. Það voru stjórnmálamennirnir sem nú ráða ferðinni, sem stóðu fastir á stefnu sinni og hugsjón. Það eru þeir sem hafa skapað þessi verðmæti, þessi árangurstengdu straumhvörf í íslensku atvinnulífi. Það eru þau sem hafa innleitt meira-fífls-regluna.

Og vei þeim einstaklingum sem tala um græðgi og ágirnd. Vei þeim Íslendingum sem skilja ekki hina breyttu tíma og þá öldu velferðar og velmegunar, sem fylgir í kjölfarið. Enda er Verslunarmannafélagið búið að semja um markaðslaun fyrir sína umbjóðendur og Flóabandalagið vill fyrir engan mun raska þeim stöðugleika sem skapast við hinar breyttu aðstæður og enginn maður með réttu ráði fer að amast út í árangurstengda bónusa og kaupauka sem það launafólk fær í bönkunum, sem hefur aukið verðmæti sinna eigin hlutabréfa og lífeyrissjóðanna sem eiga hlut í bankanum. Þó það nú væri. Sautján milljónir í árslaun eru verðskuldaður kaupauki fyrir þá útsjónarsemi að spila á kenninguna um meiri-fífl.

Verkalýðsfélögin standa með sínu fólki, launafólkinu sem skilar arði í þjóðarbúið, enda hefur verkalýðshreyfingin aldrei áður haft á sínu framfæri neitt launafólk sem jafnast á við þennan árangur, sem nú er verðlaunaður. Verkafólki fyrri áratuga, kennurum, hjúkrunarfólki, verkamönnum eða opinberum starfsmönnum var nær að hafa ekki skapað árangur og arð, þegar þau þurftu að súpa seyðið af lágum launum, af því að þau höfðu ekki vit á að græða á meiri-fíflum.

Hér er á ferðinni þróun sem ekki verður stöðvuð. Þetta er nútíminn og hver vill fá á sig stimpil afturhaldsins og öfundast út í markaðslögmálin? Enda kyngir almenningur þessum tíðindum af mikilli karlmennsku og keppist við að þegja þessa þróun af sér. Keppist við að vera jákvæður gagnvart þeim dugmiklu og framsæknu einstaklingum sem sitja að kjötkötlum hagnaðarins. Sjálfur bít ég á jaxlinn og kyngi öfundinni og efasemdum mínum um réttlætið sem vex í krafti þeirra kenninga að alltaf séu til fleiri og meiri fífl en maður sjálfur. Þetta er jú árangurinn af því frelsi sem við börðumst fyrir. Og hver veit nema tengdasynir mínir eigi eftir að detta í þessa lukkupotta og þá er eins gott að hafa ekki komið upp um sig og verið í hópi hinna, sem eru meiri fífl.